Hádegistónleikar í Hafnarborg – Hanna Dóra Sturludóttir
Þriðjudaginn 6. október kl. 12

Þriðjudaginn 6. október kl. 12:00 mun Hanna Dóra Sturludóttir, mezzó-sópran, koma fram á hádegistónleikum ásamt Antoníu Hevesi, píanóleikara. Á tónleikunum sem bera yfirskriftina Konur úr öllum áttum verða fluttar aríurnar Amour! Viens aider úr óperunni Samson og Dalila, Voce di donna úr La Gioconda sem og Habanera og Sequidilla úr Carmen.

Sætaframboð á tónleikunum er takmarkað í samræmi við viðmið heilbrigðisyfirvalda en tónleikunum verður hins vegar streymt út beint á netinu.

Hanna Dóra Sturludóttir stundaði söngnám hjá Kristni Sigmundssyni og Snæbjörgu Snæbjarnardóttur við Söngskólann í Reykjavík áður en hún hélt til framhaldsnáms við Listaháskólann í Berlín. Kennarar hennar þar voru m.a. Dietrich Fischer-Dieskau og Aribert Reimann og útskrifaðist hún með viðurkenningu fyrir framúrskarandi árangur. Stuttu síðar fékk hún tilnefningu sem efnilegasta söngkona Þýskalands.

Hanna Dóra Sturludóttir

Hanna Dóra hefur sungið við mörg helstu óperuhús Þýskalands, meðal annars í Bonn, Weimar, Gelsenkirchen, Kassel og Berlín. Á meðal þeirra um það bil 40 hlutverka sem hún hefur túlkað á ferlinum eru Greifynjan í Brúðkaup Fígarós, Cio Cio San í Madame Butterfly, Marie í Wozzeck, Miss Jessel í Tökin hert og titilhlutverkið í óperunni Ariadne á Naxos sem hún söng í Íslensku óperunni 2007. Haustið 2010 söng Hanna Dóra Miss Donnithorne´s Maggot eftir Peter Maxwell Davies í Staatsoper í Berlín og hlaut fyrir það mikið lof gagnrýnenda. Hanna Dóra hefur komið fram á tónleikum vítt og breitt um Þýskaland, öðrum Evrópulöndum sem og í Katar og Egyptalandi. Undanfarin ár hefur Hanna Dóra verið einn aðalsöngvari óperusmiðjunnar Novoflot í Berlín sem sér hæfir sig í nýrri óperutónlist og tekið þátt í fjölmörgum frumuppfærslum. Sumarið 2012 var hún í aðalhlutverki í sviðsverkinu Wagnerin sem hópurinn setti upp í samstarfi við Staatsoper í München. Á Íslandi hefur hún haldið fjölda ljóðatónleika og sungið með Sinfóníuhljómsveit Íslands við fjölmörg tækifæri. Hanna Dóra var tilnefnd til Íslensku tónlistarverðlaunanna 2013 fyrir flutning sinn á Wesendonckljóðum Richards Wagner með Sinfóníuhljómsveit Íslands vorið 2013 og fyrir túlkun sína á titilhlutverkinu í Carmen eftir Bizet hjá Íslensku óperunni. Hún söng hlutverk Eboli prinsessu í uppsetningu Íslensku óperunnar á Don Carlo eftir Verdi nú í haust við mjög góðar undirtektir áhorfenda og gagnýnanda og hlaut í kjölfarið Íslensku tónlistarverðlaunin sem Söngkona ársins 2014.

Antonía Hevesi, píanóleikari, hefur frá upphafi verið listrænn stjórnandi hádegistónleika í Hafnarborg, þar sem hún hefur fengið marga af fremstu söngvurum landsins til liðs við sig. Hádegistónleikar eru að venju á dagskrá Hafnarborgar fyrsta þriðjudag hvers mánaðar yfir vetrartímann.

Tónleikarnir hefjast kl. 12 og standa yfir í um hálfa klukkustund. Takmarkaður sætafjöldi er í boði á tónleikum. Gestir geta frátekið miða á tónleikana frá og með 2. október í síma 585 5790. Aðgangur er ókeypis.