Harmóníkuhátíð Reykjavíkur og heyannir í Árbæjarsafni
Sunnudaginn 12. júlí, verður hin árlega Harmóníkuhátíð Reykjavíkur haldin í samstarfi við Árbæjarsafn og hefst dagskráin kl. 13. Á hátíðinni, sem haldin er í minningu stofnanda hennar Karls Jónatanssonar harmóníkufrumkvöðuls, koma fram margir af landsins bestu og þekktustu harmóníkuleikurum í fallegu umhverfi safnsins.
Sem endranær munu félagar úr félagi harmonikuunnenda á Suðurnesjum (FHUS) slá upp balli í Kornhlöðunni fyrir þá sem vilja dansa. Tónleikar verða í Lækjargötunni þar sem fólk getur sest niður og hlustað að Reyni Jónasson, Grétar Geirsson og Guðmund Samúelsson, Sigurð Alfonsson og fleiri. Vitatorgsbandið mætir á svæðið og harmonikuleikarar og grúppur frá félagi harmonikuunnenda í Reykjavík, Harmonikufélagi Reykjavíkur og harmonikufélagi Rangæinga munu halda uppi stemmningu í Dillonshúsi og vítt og breitt um safnið. Harmonikuhljómsveitin Úrkoma í grennd og Harmonikitríóið Smárinn koma einnig fram.
Á safninu geta gestir jafnframt fylgst með og tekið virkan þátt í heyönnum eins og þær tíðkuðust fyrir daga heyvinnuvéla, með þeim fyrirvara að veður haldist þurrt. Um aldir höfðu Íslendingar engin önnur verkfæri en ljá, orf og hrífu til að afla vetrarforðans. Víða var heyjað upp á gamla mátann fram yfir miðja síðustu öld, en nú eru gömlu handbrögðin sjaldséð í sveitum landsins.
Missið ekki af þessu tækifæri til að komast í kynni við orf, ljá og hrífur og að taka þannig virkan þátt í heyönnum á Árbæjarsafni. Athugið að heyannir geta fallið niður ef veður er slæmt.
Dagskráin stendur frá klukkan 13-16 en safnið er opið 10-17.
Ókeypis aðgangur fyrir börn, öryrkja og menningarkortshafa.
Árbæjarsafn er hluti af Borgarsögusafni, eitt safn á fimm frábærum stöðum.