Heiðmörk – Glaðir hestamenn á rauðri jörð

Glaðir hestamenn á rauðri jörð

Það var glatt yfir þessum þýsku ferðalöngum í hestaferð um Rauðhóla. Rauðhólar er þyrping gervigíga í útjaðri Reykjavíkur. Gígarnir mynduðust fyrir um 5000 árum þegar Elliðaárhraun rann yfir mýrlendi og vatnið undir glóandi hrauninu hvellsauð. Mynduðust þá fagurlega formaðir rauðleitir gjallgígar við gufusprengingar á yfirborði hraunsins. Efnistaka var mikil í Rauðhólum um miðja síðustu öld, meðal annars til að gera undirlag fyrir Reykjavíkurflugvöll í Vatnsmýrinni í seinni heimsstyrjöldinni. Rauðhólar voru friðaðir árið 1961. Rauðhólar eru nú fólkvangur, og mikill fjöldi fólks og ferfætlinga leggur leið sína um svæðið á góðviðrisdögum, enda steinsnar frá höfuðborginni.

Skilur íslenski hesturinn þýsku? Nokkuð viss um það eftir að heyra þessa þýsku ferðamenn rabba við hestana á sínu móðurmáli í Rauðhólunum í gær. 

Heiðmörk 08/09/2021 14:19 : A7R III / FE 1.8/20mm G

Ljósmynd og texti : Páll Stefánsson