Helena Margrét Jónsdóttir

HVERFISGALLERÍ býður þér á opnun fyrstu einkasýningar HELENU MARGRÉTAR JÓNSDÓTTUR, DRAUGUR UPPÚR ÖÐRUM DRAUG, laugardaginn 30. janúar kl.15 til 19 // See English below

Sýningin Draugur uppúr öðrum draug samanstendur af 10 olíu- og akrýlmálverkum á striga. Verk Helenu Margrétar eru unnin í hefðbundna en fjölbreytta miðla; hún málar, spreyjar og vinnur með rafrænar teikningar á striga. Viðfangsefnin tilheyra hvorki tilteknu umhverfi né varpa frá sér skugga heldur standa þau á flötum, víddarlausum bakgrunni.

Draugur upp úr öðrum draug

Myrkragardínan rúllast upp með ískri þegar ég dreg hana upp frá gluggakistunni til að sjá stjörnurnar. Það eru allir farnir að sofa nema ég, draugarnir og köngulóin hinum megin við glerið. Næturnar leka inn í dagana og myrkrið gerir það að verkum að ég finn engan mun á dag eða nóttu. Það breytir engu hvort gardínan er frá eða fyrir.

Dagarnir eru beiskir og saltir en næturnar sætar, eins og marsipan. Það teygist bara á þeim, næturnar lengjast og hökta, þær flæða ekki lengur mjúklega heldur rykkjast til, það ískrar í þeim og ég reyni að gera vel við mig til að jafna það út. Tunglið og stjörnurnar rúllast upp á milli lakkrísins og tungan rúllar út til að taka á móti þeim. Munnvatnið og rauðvínið drýpur og hellist og sullast, það sullast og hellist og skvettist og ég reyni að grípa það í glas en það slettist áfram. Ég ber fyrir mig hendina, tunguna og tærnar en það rennur í gegnum mig. Munnurinn er fullur af munnvatni og ég kyngi og svolgra og gleypi en hann fyllist alltaf aftur. Ef ég opna munninn lekur það út, það drýpur og skvettist og sullast. Tunglinu og stjörnunum og draumunum er pakkað inn í háværar umbúðir, ég reyni að rífa í hornið en puttarnir renna í gegn. Ég næ engu taki á lakkrísnum og munnvatnið drýpur látlaust út um munnvikin. Ég gefst upp á að kyngja og gúlpa og læt munnvatnið hellast í stöðugum taumi niður tunguna sem lafir úr munninum. Það þornar aldrei upp, ekki frekar en rauðvínið.

Ég lít á köngulóna, hún er farin að spinna nýjan vef. Hún fer hring eftir hring inn að miðjunni, hún spinnur og vefur og bíður, bíður í hringiðunni eftir að allt sem hana dreymir um komi til sín. Ég öfunda hana. Það festist allt sem hana langar í við klístraðan vefinn sem minnir mig á lakkrísrúllu. Ég tygg súrar hlaupköngulær og gúmmíorma, það eina sem ég næ einhverju taki á, en hlaupið festist í tönnunum á mér og ég fæ illt í magann. Mér líður eins og gúmmíið iði upp í mér. Ég er komin með svartan blett á tunguna og rauðvínsvarir. Gagnsæ, glær og klístruð en það festist ekkert við mig. Eins og draugur. Ég þræði fylltar lakkrísreimar í skóna, ég er löngu búin að týna hinum. Lakkrísinn klárast ekki og dagarnir renna áfram, rúllast hver á eftir öðrum, tunglið, stjörnurnar og sólin og við draugarnir og köngulóin á milli þeirra eins og marsipanfylling.

Helena Margrét Jónsdóttir nam myndlist við Myndlistarskólann í Reykjavík, Konunglega Listaháskólann í Haag í Hollandi og útskrifaðist með BA gráðu í myndlist úr LHÍ árið 2019.