• Íslenska

Á Hlíðarenda eru framkvæmdir komnar á fullt og iðnaðarmenn að störfum við að fullgera 40 íbúðir í fyrsta húsinu að Hlíðarenda 4 á svokölluðum B reit. Um er að ræða 22 tveggja herbergja íbúðir, 15 þriggja herbergja og þrjár stærri íbúðir auk atvinnuhúsnæðis á neðstu hæð. Þessar íbúðir verða afhentar í janúar 2018. Á öllu svæðinu munu rísa a.m.k. 780 íbúðir á næstu árum.

Hlíðarendi

„Reitir D, E og F eru tilbúnir undir sökkla og byggingarframkvæmdir eru að hefjast. Þessa dagana er svo verið að endurskipuleggja A reitinn en þar er verið að leggja upp með nýtt skipulag með fleiri íbúðir í stað atvinnuhúsnæðis sem áformað var þar í upphafi. Ef efnahagsástandið verður áfram gott munum við ljúka þessu frábæra verkefni á næstu 5 árum,“ segir Brynjar Harðar-son, framkvæmdastjóri Valsmanna hf. sem hafa drifið verkefnið áfram í samstarfi við borgina.

Hlíðarendi verður svokölluð randbyggð en húsin standa við göturnar en á milli þeirra verða skjólríkir inngarðar. Flestar íbúðanna verða tveggja og þriggja herbergja í bland við stærri íbúðir á efstu hæðum. Notast verður við umhverfisvænar lausnir á öllum reitnum og vatni, sem fellur á svæðið, skilað til friðlandsins í Vatnsmýri og Tjarnarinnar með grænum ofanvatnslausnum. Þá verður flokkuðu sorpi safnað í svokallaða djúpgáma.