Byggingu er svo til lokið á 26 íbúðum á Hljómalindarreitnum svokallaða þar sem er blönduð byggð með íbúðum, hóteli, verslunum og þjónustu. Íbúðirnar snúa annars vegar út að Klapparstíg og hins vegar að Laugavegi og er meðalstærð þeirra um 60 m2. 

Miklu hefur verið breytt á Hljómalindarreitnum en áhersla var lögð á að halda í gamla miðbæjarútlitið og stemmninguna. Laugavegur 17 og 19 eru í raun ný hús með upprunalegu útliti, íbúðirnar þar eru 10 talsins og um 90 m2 að flatarmáli. Klapparstígur 28 er endurgert hús með fimm íbúðum sem eru 74-130 m2, en Klapparstígur 30 er nýtt hús með 11 íbúðum á stærðarbilinu 40-80 m2. Undir torginu á reitnum er bílakjallari sem tilheyrir hótelinu og íbúðunum á reitnum. 

Kristján Svanlaugsson, hjá verktakafyrirtækinu Þingvangi sem byggir á Hljómalindarreitnum, segir að samstarfið við borgina hafi verið gott. „Þetta er fyrsta verkefnið sem við unnum eftir hrun og fyrsta stóra verkefnið sem var þá í gangi. Við lærðum gríðarlega mikið af þessu og Reykjavíkurborg lærði líka mjög mikið en þarna erum við að byggja og gera upp gömul hús og halda götumyndinni. Útkoman er bara frábær.“