Friðland á Hornströndum
Friðlandið var stofnað 1975 og eru mörk þess um Skorarheiði milli Hrafnsfjarðar og Furufjarðar og nær friðlandið því yfir Hornstrandir og hluta af Jökulfjörðum, eða Sléttuhrepp og hluta af Grunnavíkurhreppi. Friðlandið er í umsjá Ísafjarðarbæjar.

Hornbjarg icelandic times

Eyðibyggð – enn nytjuð

Byggð á Hornströndum var farin að dragast saman þegar þjóðfélagsbreytingar urðu þess valdandi að allir bæir þar fóru í eyði á stríðsárunum eða stuttu síðar. Landið er í einkaeign að mestu og landeigendum eru tryggðar hefðbundnar nytjar. Þær eru æðarvarp, veiði í ám og vötnum og fugla- og eggjataka. Í friðlandinu eru nokkrir tugir húsa, bæði gömlu bæjarhúsin uppgerð og ný sumarhús. Það er algengt að búið sé sumarlangt í þessum húsum og því er mikilvægt að ferðalangar sýni tillitsemi og tjaldi ekki nálægt þeim.

Saga
Á Hornströndum hafa náttúra og mannlíf verið nátengd um aldir. Hefðbundinn landbúnaður hefur sennilega alltaf verið lítill en íbúarnir treystu á sjóinn og fuglabjörgin sér til lífsviðurværis. Einangrun var mikil og ferðir á milli bæja erfiðar, sérstaklega að vetri til. Fyrr á öldum sóttu útlagar til Hornstranda til að komast í erlend skip og ofan á allt annað gátu menn búist við árásum hvítabjarna. Við slíkar aðstæður verður sagan stórbrotin og það gefur ferðum um friðlandið aukið gildi. Það sem framar öllu öðru greindi búskap á Hornströndum frá búsetu annars staðar á landinu var baráttan við björgin. Fuglabjörgin voru mikil matarkista en sókn í þau var erfið og það er fróðlegt að velta fyrir sér, þegar siglt er fyrir björgin, hvernig þessi hrikalegu björg voru undirstaða byggðarinnar. Nútímabúskaparhættir héldu aldrei innreið sína á þetta svæði. Þar er því hægt að skoða hvernig sveitir hafa litið út fyrir tíma vinnuvéla.

Landslag
Landslag í friðlandinu er stórbrotið. Jökulfirðir eru umluktir fjöllum en Hornstrandir eru fyrir opnu hafi. Þar sést vel hvernig svæðið hefur byggst upp af röð eldgosa því að hraunlög eru vel sýnileg og setlög á milli. Jarðlögin eru hluti af blágrýtismynduninni, um 12-15 miljón ára gömul, ein hin elstu á landinu. Fjöldi bergganga skerst í gegnum hraunlagastaflann. Sjávarrof einkennir landmótun á Hornströndum eins og sjá má á björgunum en í Jökulfjörðum eru ummerki eftir jökulrof einkennandi.

Gróðurfar
Í friðlandinu hafa fundist um 260 tegundir háplantna. Flestar þessar tegundir eru algengar á Vestfjörðum en þar eru líka ýmsar sjaldgæfar tegundir. Svæðið hefur verið alfriðað fyrir beit í nokkra áratugi og það sem vekur fyrst athygli er hin ótrúlega gróska blómgróðurs á bæjar-stæðum og í skjólsælum brekkum. Samfelldur gróður nær þó ekki nema upp í 300-400 m hæð og ekki er minni fegurð fólgin í smávöxnum fjallajurtum, eins og jöklasóley, en hávöxnu stóði af burnirót og blágresi. Þá má nefna baunagras og blálilju í fjörum. Mikil snjóalög gera það að verkum að land er að koma undan snjó allt sumarið. Gróður er því alltaf viðkvæmur fyrir traðki.

Dýralíf
Hagamýs eru algengar en af spendýrum er refurinn mest áberandi. Friðunin gerir það að verkum að refir hafa komist upp á lagið með að sníkja mat af ferðalöngum. Við ströndina er algengt að sjá seli, bæði landsel, útsel og flækinga. Í friðlandinu verpa um 30 fuglategundir en margar fleiri tegundir sjást þar. Áhugaverðust eru fuglabjörgin, Hornbjarg, Hælavíkurbjarg og Riturinn, en þar er gríðarleg mergð fugla. Í fuglabjörgunum er svartfugl (stuttnefja, langvía og álka) yfirgnæfandi. Þar verpur líka mikið af ritu og fýl. Í friðlandinu er mikið af sendlingi, snjótittlingi og þúfutittlingi. Smádýralíf er ekki síður áhugavert og menn verða oft óþægilega varir við flugur.

Umgengni um friðlandið
Gangandi fólki er heimilt að fara um svæðið, svo fremi það skaði ekki lífríki, jarðmyndanir eða mannvirki. Hestaferðir eru ekki leyfðar og umferð ökutækja er bönnuð. Allt sem menn hafa með sér inn á svæðið verða menn að fara með aftur. Ef þess er kostur skal tjalda á merktum tjaldstæðum og alltaf verður að skilja við tjaldstæði eins og komið var að þeim. Meðferð skotvopna er bönnuð og öll dýr eru friðuð en landeigendum eru leyfðar hefðbundnar nytjar.

Veðurfar og útbúnaður
Ferðamenn verða að hafa með sér tjöld og góðan klæðnað. Aldrei má gleyma að á Hornströndum eru veður válynd. Það getur snjóað hvenær sem er og illviðri getur skollið á fyrirvaralítið og staðið lengi. Því verður að vera við öllu búinn í gönguferðum í friðlandinu. Ekki er óalgengt að dimm þoka leggist yfir og því er nauðsynlegt að geta gengið eftir áttavita og staðsetningartæki geta komið að góðum notum. Það verður að taka allan mat með sér og alltaf þarf að gera ráð fyrir að ferðaáætlun standist ekki og menn tefjist. Bátar komast ekki alltaf til að sækja fólk þegar gert er ráð fyrir. Ekki er hægt að treysta á farsímasamband en talstöðvar eru í neyðarskýlum. Því þarf að skipuleggja ferð á Hornstrandir vandlega. Nauðsynlegt er að taka með sér góð kort og prýðilegar leiðarlýsingar hafa verið gefnar út. Frekari upplýsingar er hægt að fá hjá Náttúruvernd ríkisins, Náttúrustofu Vestfjarða og upplýsingamiðstöð ferðamála á Ísafirði og Hólmavík.

Texti: Þorleifur Eiríksson, uppfært af Vesturferðum ehf