Húsafell – eins og að stíga inn í annan heim.
Húsafell fyrir alla fjölskylduna

Að aka að Húsafelli er eins og að stíga inn í annan heim. Gróðursældin og veðurblíðan minnir oft talsvert á útlönd en náttúran þar er eins íslensk og frekast er unnt.

Húsafell er orðið einn af fjölsóttustu ferðamannastöðum á landinu. Íslendingar sækja þangað mikið þar sem staðurinn fellur þeim vel í geð og það sama má segja um erlenda ferðamenn sem einmitt vilja vera þar sem Íslendingar halda sig.

Veðursæld í dalbotninum milli fjalla og jökla er með eindæmum og ósjaldan á sumrum mælist hæsta hitastig á landinu þar. Hávaxið birkikjarrið sem er eldra en landnám gefur gott skjól fyrir veðri og vindum og kjarrið er einnig skjól fyrir augað og það er alveg sama hversu margir eru þar samankomnir, allir hafa sitt andrými og næði. Birkið laðar einnig að sér fugla og þar berst ljúfur kliður af fuglasöng, en gróðurinn dempar öll hljóð við jörðu og ver eyrað fyrir ónæði.

Einstök náttúrufegurð
Landslagið við Húsafell einkennist af skóginum sjálfum, gífurlega víðfeðmum og gróskumiklum. Skógurinn teygir sig upp eftir hlíðum fjallanna og inn með giljum sem setja svip sinn á náttúruna. Tignarlegir tróna svo jöklarnir yfir og kóróna sköpunarverkið; Okið, Langjökull og Eiríksjökull sem að margra dómi er fegursta fjall á Íslandi. Hraunið með sínum tæru lindum og lækjum er ævintýraland fyrir börn og fullorðna og fjölmargar gönguleiðir liggja um skóginn fyrir þá sem vilja njóta hinnar einstöku blöndu skógargróðurs í hrauninu.
Náttúrfegurðin í Húsafelli er meginástæða  þess hversu vinsæll staðurinn er. Fjöldi Íslendinga sem komnir eru af léttasta skeiði eiga sínar fyrstu minningar um útihátíðir og ævintýri úti í náttúrunni frá Húsafelli en þar var farið að halda útíhátíðir í kringum 1960. Fjöldi ungs fólks kom saman í skógarlundum, söng og dansaði á skátamótum, bindindishátíðum og fleiri skemmtunum sem víðfrægar voru á þeim tíma.

Enn í dag sækja ungir sem aldnir í skóginn til að njóta veðurblíðu og skemmta sér en með friðsamlegri hætti. Húsafell er þó meira en bara fögur náttúra.

Mögnuð saga
Saga staðarins er mögnuð og margar merkar þjóðsögur eru þaðan sprottnar. Á fyrri tíð lágu leiðir manna yfir Arnarvatnsheiði, Tvídægru og Kaldadal þegar þurfti að ferðast milli Norður- og Suðurlands. Það var mjög algengt að kaldir og hraktir ferðmenn á hestbaki bæðust greiða í Húsafelli og eftir að bílvegur var fær um Kaldadal um 1930 var settur þar bensíntankur sem sennilega hefur markað þáttaskil í ferðamannasögu staðarins. Eftir þar varð Húsafell sjálfsagður viðkomustaður og sofið í hverju skoti um sumarnætur.
Margir merkir menn hafa búið á staðnum og má þar fyrstan nefna séra Snorra Björnsson sem flutti að Húsafelli árið 1657 en hann var bæði mikill hagleiksmaður og íþróttamaður. Afkomendur Snorra búa enn á Húsafelli, en þeir Páll Guðmundsson og Bergþór Kristleifsson eru í sjötta lið frá honum. Snorri var frægur fyrir galdra sem hann ku hafa numið á Ströndum og var hann meðal annars sagður öðrum fremri í að kveða niður drauga. Páll Guðmundsson fjöllistamaður frá Húsafelli hefur gert minnismerki um séra Snorra og draugana 81 sem hann kvað niður í Draugaréttinni. Páll hefur vinnustofu sína að Húsafelli og má sjá margt af verkum hans í túnfætinum.

Fjöldi listamanna hafa haft lengri eða skemmri dvöl í Húsafelli í gegnum tíðina við skriftir, málun og kveðskap.

Fjölskylduparadís
Í Húsafelli hefur stefnan í ferðaþjónustu staðarins verið tekin og aðaláherslan lögð á að setja fjölskylduna í forgang. Öll uppbygging staðarins er miðuð við að þangað komi fjölskyldufólk til að láta sér líða vel og njóta þess sem í boði er saman. Það þarf engum að leiðast þótt fólk á misjöfnum aldri dvelji í Húsafelli dögum saman. Á leiksvæði í rjóðri umgirtu trjágróðri eru vegleg leiktæki og 120 fermetra hoppipúði sem börnin sópast að og þar er oft glatt á hjalla. Þessi leikvöllur virðist laða að sér bæði börn og unglinga og ekki er óalgengt að sjá þar þrjár kynslóðir samankomnar. Spölkorn frá leiksvæðinu er glæsileg sundlaug með rennibraut, heitum pottum og buslupolli fyrir þau litlu. Hægt er að sparka bolta í einu rjóðrinu og í undirbúningi er blakvöllur og körfuboltavöllur sem verða teknir í notkun í sumar.

Gönguleiðir, golf og ævintýraferðir
Krakkar hafa gaman af gönguferðum eins og fullorðna fólkið og í Húsafelli eru gönguleiðir sem hæfa öllum, hvort sem menn vilja ganga langt eða stutt, bratt eða flatt. Hægt er að ganga um rómantíska skógarstíga jafnt sem stórbrotin gil og jökla. Alls staðar eru gönguleiðirnar konfekt fyrir augað, fuglaog dýralíf, fjölbreyttur gróður, fossar og sprænur.

Sumar gönguleiðirnar eru merktar og hægt er að fá göngukort í þjónustumiðstöðinni. Sett hafa verið upp fræðsluskilti um söguminjar Húsafells og sú ganga tekur aðeins um klukkutíma og hentar einstaklega vel fyrir alla fjölskylduna.
Í golfinu geta ungir sem aldnir gleymt sér  alllengi. Brautir níu holu vallarins í Húsafelli þræða bakka Kaldár og Stuttár og þar þarf að krækja meðfram gróðri og vatni sem gerir brautina skemmtilega. Fyrir þá sem vilja hreyfa sig meira er úr ýmsu að velja, það má fara í hellaskoðun, fara í skipulagðar sleðahundaferðir á Langjökul og sitja við varðeld í rjóðri á laugardagskvöldi með fjölda annarra sem vilja njóta sannrar sumarstemmningar í skóginum.

Ferðaþjónusta og gisting
Í Húsafelli er hægt að tjalda, gista í hjól- eða tjaldhýsum, smáhýsum og sumarbústöðum eða þiggja heimagistingu í Gamla bænum. Aðstaðan fyrir tjaldbúana er til fyrirmyndar og þétt kjarrið gerir það að verkum að gestirnir eru meira út af fyrir sig. Í þjónustumiðstöðinni á staðnum er hægt að fá upplýsingar um allt sem er í boði á svæðinu, auk þess sem allar helstu nauðsynjar fást í versluninni. Í þjónustumiðstöðinni er lögð áhersla á að fjölskyldan geti bæði keypt sér í matinn og eldað sjálf eða komið og snætt í salnum eða úti á pallinum sem er í skjóli trjánna. Það er einstök stemming að sitja á pallinum við þjónustumiðstöðina, en þar má fá sér pyslu og kók eða annan skyndibita, eða snæða steikur með góðu borðvíni ef menn vilja það heldur. Ef ekki viðrar til útisetu er hægt að tylla sér í veislusalinn sem passar vel við hvaða máltíð sem er. Í þjónustumiðstöðinni er lagður metnaður í að velja vörur sem koma úr heimabyggð og draga úr mengun og verðamætasóun t.d með endurnýtingu, endurvinnslu, orkusparnaði og notkun á umhverfisvænum efnum.

Dýrmætar auðlindir staðarins
Húsafell er ríkt af landgæðum bæði í heitu og köldu vatni sem hefur alltaf verið til hagsbóta við búskapinn og gert staðinn að heppilegum orlofsstað i gegnum tíðina.

Árið 1947 réðst Þorsteinn þáverandi bóndi í að virkja Stuttá til að framleiða rafmagn, sonur hans Kristleifur reisti aðra 1978 og nú hefur Bergþór Kristleifsson reist þriðju vatnsaflsstöðina. Með því hefur rafmagnsframleiðsla á svæðinu aukist í 600 kílóvött. Í fyrstu voru var dreifikerfi virkjananna í Húsafelli í einkaeign, en nú er rafmagnið selt til Rarik sem dreifir því.

Með hinum dýrmætu vatnsauðlindum staðarins er Húsafell sjálfbært hvað varðar afbragðs neysluvatn sem kemur úr borholum í hrauninu og aldrei þrýtur að sumri eða vetri. Sama er að segja um heitt vatn til kyndingar á húsnæði og sundlauginni á svæðinu.

Það þarf mikið rafmagn til að fullnægja þörfinni á annatímum. Í skóginum eru 150 hús sem öll þurfa neysluvatn og hita.

En auðlindir staðarins eru fleiri. Saga staðarins er ekki síðri auðlind en það sem landið gefur og ekki má heldur gleyma öllum náttúruperlunum og ýmsum athyglisverðum stöðum sem eru í næsta nágrenni og bjóða gestina velkomna s.s. Hraunfossa og Barnafoss, hellana Viðgelmi og Surtshelli, Reykholt og Deildartunguhver.

Á netinu
Það ríkir mikil bjartsýni hjá ferðaþjónustufólki í Húsafelli, Íslendingar sækja þangað í sífellt auknum mæli og greinilegt er að þangað kemur fólk til að stoppa lengi rétt eins og þegar farið er til Spánar.

Staðarhaldarar leggja metnað sinn í að fræða gestina um staðinn og stefnuna sem þeir hafa markað fyrir ferðamennsku í Húsafelli. Á vefsíðu Húsafells má lesa um þá fjölskyldu- og umhverfisstefnu sem þar hefur verið mótuð og fylgt er eftir við uppbyggingu og viðhald staðarins.

Á vefsíðunni má einnig lesa um náttúru staðarins og örnefni, sögu hans og ábúendur, auk þeirrar þjónustu sem í boði er fyrir gesti. Á síðunni er m.a. vefmyndavél þar sem hægt er að fylgjast með lífinu í Húsafelli ( sjá: www.husafell.is ).

Á síðunni geta væntanlegir gestir staðarins einnig skoðað kort af svæðinu, grennslast fyrir um veiðileyfi í nágrenninu og gistimöguleika í þessari náttúruperlu.

Land og saga 4 tbl 2010