Íbúatala Íslands

Í dag, samkvæmt Hagstofu Íslands búa hér 376.248 einstaklingar. Heildarfjöldi búfjár var um síðustu áramót 1.236.267 fjórfætlingar og fiðurfé. Næst mest er af sauðfé, en ásett fé í vetur var tæplega 10.000 fleiri en mannfólkið, eða 385.194 og hefur sauðfjárstofninn ekki verið fámennari í 161 ár, eða síðan 1861. Stærstur var sauðfjárstofninn árið 1977, þegar ásett fé var 896.411. Nautgripir eru 80.563, hross 69.499 (eða 54.069 það var fyrirvari á fyrri tölunni) svínin voru 10.166. Alifuglar eru stærsti stofn landsins með 689.616 samtals, þar af eru varphænur 100.565. Loðdýrin eru 16.659 og eru minkar lang algengastir á búum landsins. Ótalið er síðan villt spendýr eins hreindýr, en sumarstofnin telur rúmlega 6.000 dýr, öll á eystri helmingi landsins. Hvað villtir refir og minkar, mýs og rottur eru margar vantar tölur, eins með gæludýrin. Engin tala er til um fjölda katta og hunda á Íslandi. En samkvæmt skoðanakönnun sem gerð var af MMR, sögðust 20% íslenskra heimila hafa hund á heimilinu og 18% heimila átti kött. Talið er að um 2.000.000 fugla hafi vetursetu á Íslandi, þar af 850 þúsund æðarfuglar og 300 þúsund snjótittlingar. Fjöldi fugla margfaldast yfir sumartímann, enda af þeim rúmlega 80 tegundum sem verpa að staðaldri á Íslandi eru 47 farfuglar.

Kýr undir Eyjafjöllum

 

Íslenskur landnámshani í Þykkvabænum 

 

Alba að klappa einum af 69.499 hestum á Akri í Öxarfirði

 

Mannfjöldi á Gleðigöngu í Lækjargötu, Reykjavík. 

 

Ísland 2019-2021 : A7R IV – RX1R II FE 1.8/1355mm GM – 2.0/35mm Z

Ljósmyndir og texti : Páll Stefánsson