Ítreka tillögu sína um sjálfbærnivottun fyrir ferðamannastaði

Norðurlandaráð vill að ríkisstjórnir Norðurlandanna beiti sér fyrir þróun vottunar fyrir sjálfbæra ferðamannastaði á Norðurlöndum. Norræna ráðherranefndin, sem þarf að samþykkja tillöguna, hefur þó efasemdir um að slíkrar vottunar sé þörf.

RørosRøros er einn þeirra áfangastaða sem hlutu vottun sem sjálfbær ferðamannastaður í Noregi.

Ljósmyndari
Thomas Rasmus Skaug – visitnorway.com

Aukin ferðamennska skilar sér í auknum hagvexti, en hefur einnig í för með sér mikinn ágang á náttúruna.

Norræn vottun fyrir sjálfbæra ferðamannastaði getur stuðlað að verndun umhverfisins og tryggt sjálfbæran hagvöxt af aukinni ferðamennsku. Þetta er álit umhverfis- og náttúruauðlindanefndar Norðurlandaráðs, sem ítrekar nú tillögu sína um að norrænu ríkisstjórnirnar þrói umhverfismerki í þessum tilgangi.

Norræna ráðherranefndin segir aftur á móti að lítill áhugi sé fyrir nýju umhverfismerki í löndunum, en hyggst þó meta hvort þörfin sé til staðar. Umhverfis- og náttúruauðlindanefnd telur að ráðherranefndin hafi ekki slegið tillöguna af borðinu á nægilega afgerandi hátt.

„Við erum ekki sátt við svar ráðherranefndarinnar og biðlum því aftur til hennar um að leggja mat á tillögu okkar um þróun sjálfbærnivottunar fyrir ferðamannastaði. Gleymum því ekki að norræna umhverfismerkið Svanurinn mætti einnig andstöðu áður en því var komið á fót árið 1989. Í dag er Svanurinn meðal þekktustu umhverfismerkja Evrópu,“ segir Hanna Kosonen, formaður umhverfis- og náttúruauðlindanefndar.        
Hanna Kosonen nefndarformaður (flokkahópi miðjumanna) ræðir við Øyvind Halleraker (flokkahópi íhaldsmanna) á fundi þeirra á Skagen.

Nordisk råd miljø- og naturutvalgHanna Kosonen nefndarformaður (flokkahópi miðjumanna) ræðir við Øyvind Halleraker (flokkahópi íhaldsmanna) á fundi þeirra á Skagen.

Ljósmyndari
Johannes Magnus

Fyrst í heimi

Noregur var fyrst allra landa í heimi til að koma á fót vottun fyrir sjálfbæra ferðamannastaði. Vottunarkerfið var þróað af Innovasjon Norge og styðst við alþjóðlega staðla. Innovasjon Norge fagnar tillögunni um norrænt umhverfismerki.
 Það er ekkert vit í því að hafa fimm mismunandi merki fyrir ríkin fimm

„Það væri alltof mikið. Það er ekkert vit í því að hafa fimm mismunandi merki þegar hægt er að notast við eitt norrænt,“ segir Ingunn Sørnes hjá Innovasjon Norge.

„Samnorræn umhverfis- og sjálfbærnivottun væri ekki síst nytsamleg með hliðsjón af því að Norðurlandabúar ferðast gjarnan til annarra Norðurlanda. Fyrirtæki sem láta sig sjálfbærni varða hefðu mikið gagn af merki sem fólk af öllum Norðurlöndunum bæri kennsl á.“

Umhverfis- og náttúruauðlindanefnd hyggst flytja tillögu sína um sjálfbærnivottun ferðamannastaða í tengslum við þing Norðurlandaráðs í Reykjavík 29. október, áður en tillagan verður send Norrænu ráðherranefndinni til afgreiðslu.
Tengiliðir

Tryggvi Felixson
Sími +45 29 69 29 37
Netfang [email protected]

Johannes Magnus
Netfang [email protected]