• is

Jónsmessunæturganga Árbæjarsafns
Í tilefni Jónsmessunætur mun Borgarsögusafn Reykjavíkur bjóða upp á skemmtilega menningar- og náttúrugöngu. Gengið verður frá Árbæjarsafni föstudaginn 23. júní kl. 22:30.
 Gengið verður um Elliðaárdal, staldrað við á völdum stöðum og fjallað um íslenska þjóðtrú og sögu svæðisins. Kristín Svava Tómasdóttir sagnfræðingur og skáld leiðir gönguna og kíkt verður í heimsókn til Jóns Sveinbjörnssonar, prófessors, sem leiða mun göngufólk um falda perlu í borgarlandinu.

Jónsmessunótt tengjast sagnir um yfirnáttúrulegar verur enda talið að þessa nótt væru skil milli heima minni en flestar aðrar nætur. Þekkt er trúin á lækningamátt daggarinnar velti menn sér naktir upp úr henni og vonin um að finna steina með töframætti þessa nótt.

Jónsmessa hefur alla tíð haft á sér aðra mynd á Íslandi en sunnar í Evrópu, þar sem hún er fyrst og fremst miðsumarshátíð. Þar tíðkuðust brennur og dansleikir sem gjarnan tengdust ýmsum yfirnáttúrlegum verum, nornum og djöflum. Náttúrufar, atvinnuhættir og samfélagsforsendur hafa komið í veg fyrir að Jónsmessuhátíðin skipaði sama sess á Íslandi og annars staðar. Strjálbýli landsins gerði samkomur allar erfiðar og vegna skógleysis voru litlar forsendur fyrir því að halda miklar brennur á þessum tíma með tilheyrandi söng og dansi.
Þátttaka er ókeypis og allir eru velkomnir