Kirkjurnar í Kópavogi

Kirkjurnar í Kópavogi

Hvítasunnuhelgin er framundan, ein stærsta trúarhelgi kristinna manna. Í Kópavogi, næst stærsta bæjarfélagi á Íslandi með tæplega 40 þúsund íbúa, eru þrjár kirkjur, Kópavogskirkja, Digraneskirkja og Lindakirkja. Kópavogur er ungt bæjarfélag, sem klofnar út úr Seltjarnarnesi 1948, og fær kaupstaðarréttindi árið 1955. Í byrjun var Kópavogur aðallega íbúðarsvæði, enda vel staðsettur sunnan við Reykjavík, í miðju höfuðborgarsvæðisins. Nú er þar líka öflug atvinnu og þjónustustarfsemi, þarna er til dæmis stærsta verslunarmiðstöð landsins, Smáralind, hæsta byggingin, Turninn við hlið Smáralindar, og BYKO stærsta byggingarvöruverslunin í Breiddinni. Fyrstu rituðu heimildir um byggð í landi Kópavogs er um búsetu við Vatnsenda við Elliðavatn frá árinu 1234. Nafnið Kópavogur kemur fyrst fram í heimildum árið 1523. Kópavogur á í vinarbæjarsambandi við átta bæi, Norrköping í Svíþjóð, Tampere í Finnlandi, Óðinsvé í Danmörku og Þrándheims í Noregi. Síðan Ammassalik á Grænlandi, Maríuhafnar á Álandseyjum og Klakksvík í Færeyjum, eini vinabærinn utan norðurlanda er Wuhan í Kína, sem er nú hvað þekktastur fyrir að Covid-19 kom þar fyrst fram í heiminum fyrir tveimur og hálfu ári.

Efst á Borgarholti er Kópavogskirkja, reist á árunum 1958-1962 eftir teikningum Harðar Bjarnasonar og Ragnars Emilssonar. Kirkjan er eitt helsta tákn bæjarins, enda er merki Kópavogs, útlínur kirkjunnar. 
Yngsta kirkjan í Kópavogi er Lindakirkja, hönnuð af ASK Arkitektum. Kirkjan er vígð árið 2008. 

 

Digraneskirkja í Kópavogsdal var vígð árið 1994, og er það Benjamín Magnússon sem teiknaði bygginguna. 
Á Hádegishólum, nokkrum skrefum vestan við Lindakirkju er þessi Búdda-stúpa. Því þrátt fyrir að íslenskt samfélag sé kristið í grunninn, þá eru um 2% landsmanna sem aðhyllast önnur trúarbrögð en kristni. Það var Búddistafélag Íslands sem reisti stúbuna, og er hún notuð af þeim við hátíðleg tækifæri. Kópavogur breiðir úr sér í bakgrunninum, Kópavogskirkja kíkir upp úr sjóndeildarhringnum til vinstri við stúbuna. Digraneskirkja er í hvarfi, bak við Turnin, hæstu byggingu landsins. 

Kópavogur 04/06/2022  09:27 – 10:19 : A7C, RX1R II : FE 2.8/100mm GM, 2.0/35mm Z

Ljósmyndir og texti : Páll Stefánsson