Kristinn Pétursson (1896-1981)

djupavikUPPBOD96_40
Djúpavík á Ströndum – 1939 – Olía – 64×100 cm Kristinn Pétursson (1896-1981)
UPPBOD9423
Djúpavík á Ströndum – Pastel – 47×62 cm Kristinn Pétursson (1896-1981) Djúpavík á Ströndum – Pastel – 47×62 cm

Kristinn Pétursson (1896-1981)

Um sýninguna TÓMIÐ, horfin verk Kristins Péturssonar

Á sýningunni er farin sú leið að beina sjónum sýningargesta að þeim verkum sem Kristinn Pétursson (1896-1981) vann að síðustu æviárin. Þau eru óvenjuleg og spennandi niðurstaða á viðamiklum og fjölbreyttum ferli, einkum í ljósi þess að listamaðurinn vann þau í einrúmi, án samtals við íslenska samferðarmenn sína og án þess að sýna þau opinberlega. Hann ferðaðist reglulega til að sjá helstu alþjóðlegu listviðburði samtímans með eigin augum og þar hefur hann vísast sótt innblástur. Framúrstefnuleg verk hans voru í anda þeirra listamanna sem voru að endurskoða eðli og hlutverk málverksins m.a. með því að hlutgera það ýmist sem lágmynd, skúlptúr eða innsetningu. Viðamestu verkaröð sína kallaði hann Tómið, núllið, ekki neitt og þar kölluðust einstök verk á við umhverfi sitt eða urðu hluti af því. Mikill hluti þessara verka voru sérstaklega gerð til þess að passa inn í húsið sem Kristinn smíðaði sjálfur, Seyðtún, auk fjölda sjálfstæðra þrívíðra verka sem gjarnan voru unnin úr fundnum afgangsefnum og ámáluðum spónaplötum.

Auk þess að velja til sýningar síðustu verk Kristins eru fjórir listamenn af yngri kynslóð fengnir til samstarfs; Hildigunni Birgisdóttir, Huginn Þór Arason, Sólveig Aðalsteinsdóttir og Unnar Örn.  Þau endurspegla forvitni sína um verk Kristins Péturssonar á ólíkan hátt í verkum sem sett eru fram sem eins konar athugasemdir við þungamiðju sýningarinnar.

Sýningin er samstarfsverkefni með Listasafni ASÍ, sem á stærsta safn verka Kristins.

Hægt er að panta sýningarskrár og fá sendar í póstkröfu.
Tómið forsíða af sýningarskrá     

tomid_forsidaTÓMIÐ, gefin út í tilefni sýningarinnar með texta eftir Markús, myndum frá sýningunni og upplýsingum um listamennina. Einnig kaflinn Raunsönn form úr óútgefnu handriti Kristins, Töfratákn.

Sýningarskráin er 40 bls og 22,5 x 21 cm að stærð.

Verð kr. 2.500.- + póstsending.
Töfratákn     

tofrataknRit sem gefin var út af Listasafni ASÍ og Hveragerðisbæ árið 1996. Nokkrar myndir af horfnum verkum Kristins og valdir kaflar úr óbirtu handriti Kristins Töfratákn. (ekki þeir sömu og í sýningarskránni TÓMIÐ).

Ritið er 38 bls. og 29,5 x 21 cm að stærð.

Verð kr. 1.500 + póstsending.
kristinn Pétursson var listamaður sem á sínum tíma naut takmarkaðrar hylli, en tímabært er að skoða feril hans nánar, einkum áhugaverðar tilraunir hans undir lok ferils síns sem og skrif hans um myndlist. Hvorugt kom fyrir sjónir almennings á meðan Kristinn var á lífi.

Kristinn var snemma ákveðinn í því að leita sér mennta og hneigðist að myndlist þrátt fyrir erfið ytri skilyrið svo sem veikindi og takmarkaðan myndlistaraðgang. Að loknu kennaraprófi frá Kennaraskólanum sótti Kristinn tíma í teikningu hjá Þórarni B. Þorlákssyni og einnig Guðmundi Thorsteinssyni (Mugg) áður er hann hélt til Noregs 1923. Þar nam hann fyrst eitt ár við listiðnaðarskólann í Voss en komst þá inn í Listaakademíuna í Ósló og lauk þaðan námi 1927. Í Noregi lagði Kristinn fyrst stund á höggmyndalist en snéri sér síðan að málverkinu og valdi þá framsækna deild Axel Revold. Kristinn kynnti sér líka grafík og vann eirstungur, fyrstur Íslendinga. Hann sótti nám til Parísar og Kaupmannahafnar, fór reglulega utan til þess að sjá helstu samtímalistviðburði auk þess að ferðast til að kynna sér listasöguna af eigin raun í Evrópu, Egyptalandi og Austurlöndum nær.

Kristinn settist að í Hveragerði árið 1940 líkt og fleiri listamenn á þeim tíma. Þar byggði hann sér rúmgóða vinnustofu, Seyðtún, nú Bláskógar 6, sem var heimili hans síðustu 41 ár ævinnar en á þeim árum var hann hvað djarfastur í sínum tilraunum. Þar hélt hann sína síðustu sýningu árið 1954 en eftir það hélt hann sig til hlés og vann að verkum sínum í kyrrþey. Í verkum Kristins má sjá ýmsa stíla. Til að byrja með vann hann fígúratíf verk, landslag og sótti í þjóðlega arfleifð en stöðug þekkingarleit hans leiddi hann á nýjar slóðir.  Hann vildi þróa persónulegan stíl, fyrst í landslagsverkunum með áherslu á veðurfar, form og liti, þá tók við tímabil fantasíu og súrrealisma þar sem hann vann m.a. með skynjun og drauma. Síðar verða formtilraunir hans enn framsæknari, verkin óhlutbundin og hann fer einnig að vinna þrívíðar formtilraunir. Kristinn var heimspekilega sinnaður, ritaði dagbækur og skráði niður ýmsar hugleiðingar um myndlist.

Allnokkurt safn málverka og teikninga liggur eftir Kristin, en síðustu skúlptúrar hans – ef til vill þau verk sem helst myndu vekja forvitni í dag – eru með öllu horfnir. Stærsta safn verka hans er í eigu Listasafns ASÍ sem er samstarfsaðili Listasafns Árnesinga að sýningunni TÓMIÐ – Horfin verk Kristins Péturssonar.