Landmótun

Hlaut þrenn verðlaun á 20 ára afmælisárinu

Landslagsarkitektastofan Landmótun fagnaði 20 ára afmæli í fyrra en það ár hlaut hún þrenn verðlaun. Þau voru vegna hugmyndasamkeppni um skipulag og hönnun Geysissvæðisins, skipulag og hönnun á Landmannalaugasvæðinu og samkeppni í tengslum m.a. við væntanlegan skóla, sundlaug og menningarmiðstöð í Úlfarsárdal. Í tilefni afmælisins var gefið út veglegt afmælisrit.

 

konakarlStarfsmenn Landmótunar eru tólf talsins, bæði landslagsarkitektar og skipulagsfræðingar.
Í þessi 20 ár hefur starfsemin verið tvískipt; annars vegar skipulagsmál og hins vegar hönnun.
„Við höfum verið öflug í gerð aðalskipulags fyrir sveitarfélög,“ segir Einar E. Sæmundsen, einn stofnenda Landmótunar, „bæði stærri og minni sveitarfélög. Hvað hönnunina varðar hafa þau verkefni tengst mikið stofnanaumhverfi, þessu daglega umhverfi okkar svo sem skólum, leikskólum, öldrunarstofnunum og síðan t.d. umhverfi vega og kirkjugarða.“ Landmótun hefur einnig tekið þátt í þó nokkrum samkeppnum á þessum 20 árum.

verk5Samkeppnir á afmælisárinu
„Við unnum þær samkeppnir sem við tókum þátt í á afmælisárinu,“ segir Einar. „Það er sérstakt að vinna þrjár keppnir á sama árinu.“
Þess má geta hvað vinningstillögurnar varðar að það var ekki endilega sama starfsfólkið sem vann saman að tillögugerðinni. Hópurinn kom hinsvegar að verkefninu á rýnifundum meðan vinnan stóð yfir.
Hvað varðar samkeppnina um skipulag og hönnun Geysissvæðisins segir Einar að rykið hafi verið dustað af gömlum hugmyndum um að færa aðkomuleiðina að svæðinu suður fyrir þjónustukjarnann. Lega göngustíga á hverasvæðinu er líka endurskoðuð þannig að álagið dreifist innan svæðisins.
verk6„Í dag liggur hellulagður stígur að Strokki og Geysi. Hugmynd okkar byggist á að lagðir verði upphækkaðir stígar víðar á svæðinu vegna þess hve viðkvæmt landið er innan hverasvæðisins.“
Stígarnir verða fjölbreyttir; þeir verða með útskot á ýmsum stöðum svo hópar geti notið leiðsagnar ótruflaðir af umferð. Tillaga Landmótunar gerir ráð fyrir að með bættu stígakerfi og áningarstöðum aukist öryggi gesta en jafnframt verði náttúruleg framvinda hverasvæðisins tryggð.
Þá felur tillagan einnig í sér þá framtíðarsýn að þjóðvegurinn verði fluttur suður fyrir þjónustukjarnann, en með því yrði tenging á milli þjónustusvæðisins og hverasvæðisins örugg og ekki skorin sundur af þjóðvegi. Við kölluðum tillöguna  „Hlýir straumar náttúru og mannlífs“ og áttum gott samstarf við m.a. ARGOS arkitekta og marmiðlunarstofuna Gagarín o.fl. við mótun hennar.

verkMyndi styrkja ímynd Landmannalauga
Hvað varðar skipulag og hönnun á Landmannalaugasvæðinu segir Áslaug Traustadóttir, framkvæmdastjóri og einn eigenda Landmótunar, að um hafi verið að ræða mjög skemmtilegt verkefni en Landmótun kallaði tillögu sína „Þar sem ljósgrýtið glóir“. Tillagan var unnin í samstarfi við VA arkitekta og Örn Þór Halldórsson arkitekt.
„Þetta er mjög áhugavert og fjölsótt svæði og er sjálft laugarsvæðið eiginlega orðið bara tjaldstæði. Við tókum snemma þá ákvörðun að því þyrfti að breyta sem og að fjarlægja allar byggingar fyrir utan gamla ferðafélagsskálann sem okkur finnst liggja vel í landinu.
Við lögðum til að allar byggingar á laugarsvæðinu yrðu nær bílastæðunum þannig að þegar fólk kemur á svæðið og gengur út á fyrsta útsýnispallinn þá myndi náttúran blasa við. Frá bílastæðinu verða tveir göngustígar; annars vegar þægilegur göngustígur sem yrði upphafið að Laugaveginum og hins vegar timburstígur sem lægi að laugunum frá bað- og sturtuhúsi. Þannig verður augljóst hvar upphafið að Laugaveginum er, en svo er ekki í dag.“
Meginmarkmiðið var að endurheimta landgæði og styrkja ímynd Landmannalauga sem stórbrotið náttúrusvæði og raska þannig sem minnst náttúru og lífríki svæðisins. Tjaldstæðið yrði flutt norður fyrir Námshraun og staðsett í skjóli við hraunkantinn þar sem byggð yrði upp þjónustuaðstaða og gistiskálar. Hugmyndin er að byggingarnar yrðu byggðar úr ljósu timbri sem féllu vel að líparítinu sem er einkennandi á svæðinu.

ulfarsdalur1Þjónustukjarni í Úlfarsárdal
Hvað varðar Úlfarsárdal var um að ræða samkeppni í tengslum við samþættan leik- og grunnskóla með aðstöðu fyrir frístunda- og félagsstarf, menningarmiðstöð og almenningsbókasafn, sundlaug og íþróttahús auk íbúðabyggðar. Þar unnu VA arkitektar samkeppnina með Landmótun sem samstarfsaðila. Áherslur landslagsarkitektanna hjá Landmótun voru að lóðin yrði aðlaðandi dvalar- og útivistarsvæði og að byggingarnar féllu sem best inn í landið auk þess sem lögð var áhersla á gott aðgengi, bæði frá íbúðarbyggðinni og dalnum. Á meðal markmiða við tillöguna má nefna að nýta hæðarmun í lóð á jákvæðan hátt til að skapa mismunandi rými, að aðgreina gangandi og akandi umferð og að svæðaskipta lóðinni miðað við aldur og getu.
Mikilvægt þykir að bygging og lóð séu samofin útivistarsvæðum dalsins og að þar verði pláss fyrir nánari útfærslur og þróun sem tekur mið af þörfum hverju sinni. Meginaðkoma að skóla, menningarmiðstöð og íþróttamannvirkjum verður út frá rúmgóðu aðkomutorgi sem verður miðpunktur hverfisins. Þar verða setstallar og rampar hluti af torginu sem mynda sólríkt dvalarsvæði með góða yfirsýn yfir dalinn og íþróttavelli.

Verk_Borgartun02Rauðir ljósastaurar
Víða á Íslandi má sjá verk starfsmanna Landmótunar. Má þar nefna lóð Háskólans í Reykjavík, Akratorg í miðbæ Akraness og Borgartúnið þar sem þrílitar gangstéttir og rauðir ljósastaurar setja mikinn svip á svæðið. Mikil samvinna er við önnur fyrirtæki þegar kemur að stærri verkefnum svo sem arkitekta, verkfræðinga og ljósahönnuði.
Hvað varðar Borgartúnið segir Áslaug að upphaflegu hugmyndina megi rekja til þess að Martha Schwartz, sem er alþjóðlegt nafn í landslagsarkitektaheiminum, kom til landsins árið 2008 og vann með Hornsteinum hugmyndavinnu um yfirbragð svæðisins. Þær hugmyndir voru m.a. hafðar til hliðsjónar en starfsfólk Landmótunar sá síðan um að útfæra Borgartúnið eins og það er í dag.
„Lögð var áhersla á að nota mynstur til að tengja þessa götu saman en hún var mjög samhengislaus,“ segir Áslaug. „Ákveðið var að vera með steyptar hellur í þremur litum og fá eftirtektarvert og svolítið sérstakt útlit á einfaldan hátt.“
Hvað rauðu ljósastaurana varðar er um að ræða LED-lýsingu. „Þessi lína af rauðum staurum tengir saman alla götuna en þar standa mjög ólíkar byggingar.“

verk2Fjölbreytt verkefni
Landmótun var stofnað í kringum Skipulag Miðhálendis Íslands sem var eitt stærsta skipulagsverkefni sem ráðist hafði verið í á Íslandi. Stofan hefur síðan unnið að margvíslegum verkefnum og þar hefur byggst upp talsverð þekking og reynsla í gegnum tíðina.
Í tilefni 20 ára afmælisársins var gefin út bókin Að móta landi í 20 ár þar sem starfsfólk stofunnar miðlar á ýmsan hátt af reynslu sinni, „sjálfum okkur og öðrum til gagns og skemmtunar“ eins og segir í formála.