Langþráðir ljóssins geislar
Fjarðarselsvirkjun í Seyðisfirði er elsta starfandi virkjunin á Íslandi; stofnsett 1913 og er enn lítt breytt frá upphafi. Hún er ein af þremur til fjórum virkjunum sem mörkuðu afgerandi tímamót á öldinni sem leið en hún var meðal annars fyrsta riðstraumsvirkjunin og frá henni var lagður fyrsti háspennustrengurinn. Aukinheldur var Fjarðarselsvirkjun aflstöð fyrstu bæjarveitunnar.
Fjarðarsel var hjáleiga jarðarinnar Fjarðar sem var landnámsjörð Bjólfs. Seyðisfjarðarkaupstaður, sem er í rúmlega eins km fjarlægð, er einnig í landi Fjarðar. Í Fjarðarseli var stundaður hefðbundinn búskapur um aldir með sauðfé, kýr og hross.
Á seinni hluta 19. aldar færðist mjög í vöxt að fólk sem átti erindi til Seyðisfjarðar hefði þar viðkomu og margir gistu þar áður en þeir lögðu á Fjarðarheiði. Þekktasti íbúi Fjarðarsels var Guðný Tómasdóttir sem var ein af sögukonum Sigúsar Sigfússonar þjóðsagnasafnara. Hún náði 97 ára aldri og lifði öll börn sín, sem urðu átta talsins, og báða eiginmenn.

stodvarhus rarik-6_1

Stöðvarhúsið vinstra megin ár en sumarbúsatður í eigu RARIK hægra megin.

Forsagan
Mikill uppgangur var í atvinnulífi á Seyðisfirði um aldamótin 1900 og íbúafjölgun hröð. Stafaði það meðal annars af umsvifum kaupmanna sem höfðu mikil viðskipti við bændur á Fljótsdalshéraði en einnig höfðu norskir síldveiðimenn komið sér þar upp bækistöðvum og voru með ýmis umsvif. Bæjarfélagið var vel statt fjárhagslega og var fyrst til að hrinda af stað ýmsum framfaramálum. Meðal annars var þar lögð fyrsta vatnsveita í kaupstað á Íslandi árið 1906.
Fjarðará kemur af Fjarðarheiði. Að austanverðu er heiðin brött og fellur áin þar í mörgum fallegum fossum. Þegar niður á undirlendið kemur rennur hún um 2 km til sjávar í gegnum kaupstaðinn. Snemma var farið að líta til Fjarðarár til virkjunar og árið 1907 var leitað eftir tilboðum erlendis frá í virkjun til lýsingar fyrir Seyðisfjarðarkaupstað. Tilboð barst frá Kaupmannahöfn en bæjarstjórninni þótti það of hátt. Raflýsing yrði tvöfalt dýrari en olíulýsingin sem var fyrir. Var málinu því skotið á frest. Rúmlega fjórum árum síðar, 1912, barst tilboð í virkjun Fjarðarár sem fallist var á. Var það frá þýska fyrirtækinu Siemens & Schuckert.

gamli timinn rarik

Gamli tíminn.

Vígsla virkjunarinnar
Fjarðarselsvirkjun var vígð árið 1913 og var henni vel tekið af bæjarbúum enda stærsta framfarasporið af mörgum sem stigin voru á Seyðisfirði í aldarbyrjun. Haldin var sérstök rafljósahátíð og ort að minnsta kosti sjö kvæði af því tilefni. Eitt þeirra, eftir Karl Jónasson, hófst á þessa leið:
Á kvöldin þegar húma fer í heimi
svo handa sinna enginn greinir skil
og himinljósin guðs í víðum geimi
oss gefið fá ei lengur birtu og yl,
vér þolum ekki þá í myrkri að híma
en þráum ljóssins geisla skinið bjart,
og nægir ekki lengur lítil skíma:
oss löngu síðan birtu-þráin snart.

fjardalsels virkjun rarik

Fjarðaselsvirkjun.

Kostnaðarsamt mannvirki
Það einkennir vatnsaflsvirkjanir að stofnkostnaður þeirra er hár en á móti kemur að þær endast lengi. Það áttu Seyðfirðingar eftir að reyna. Fjármögnun virkjunarinnar gekk erfiðlega. Ríkisábyrgð fyrir láni, sem Alþingi hafði samþykkt, virtist ætla að bregðast um tíma en fékkst þó um síðir, ekki síst fyrir harðfylgi þingmanns bæjarins, Jóhannesar Jóhannessonar. Síðan kom í ljós að kostnaður við framkvæmdirnar hafði farið verulega fram úr áætlun. Hefði það reynst bænum jafnvel ofviða ef ekki hefði komið til lán frá hafnarsjóði Seyðisfjarðar sem nam fjórðungi heildarkostnaðar. Bæjarbúar þurftu jafnframt að greiða hátt verð fyrir orkuna, þ.e. miðað við veitur nútímans. Tveimur dögum eftir að Fjarðarselsvirkjun var gangsett gaf Kristján X Danakonungur út lög um rafmagnsveitur í kaupstöðum á Íslandi. Í framhaldi af því kom reglugerð frá stjórnarráði Íslands um notkun rafmagns og meðferð rafstraums í Seyðisfjarðarkaupstað. Þar er meðal annars kveðið á um að bæjarfélagið hafi einkarétt á rafmagnssölu í bænum en beri jafnframt skylda til að sjá þeim fyrir rafmagni sem þess óska.

rafveita seydisfjardar

Frásögn Morgunblaðsins af vígslu Fjarðaselsvirkjunar.

Orkusala
Á þessum tíma gátu menn valið milli hemla og mæla við kaup á raforku fyrir heimili sín. Flestir völdu hemlana sem voru einfaldari að gerð. Ef raforkunotkunin fór upp fyrir tiltekið hámark gáfu þeir frá sér viðvörunarhljóð og rufu síðan strauminn. Flest fyrirtæki og sum heimili kusu að fá orkusölumæla. Þau greiddu fyrir þá orku sem þau notuðu skv. álestri, eins og nú tíðkast. Rafmagnið var einungis notað til lýsingar fyrst um sinn. En fljótlega var farið að nota það einnig til eldunar og húsahitunar. Að vísu var spenna oft lág í skammdeginu þegar vatn var lítið í Fjarðará en húsmæður höfðu lag á að dreifa notkuninni við suðu og bakstur og nýta þannig orkuna sem best. Möguleikar til húsahitunar komu að sérlega góðum notum í heimsstyrjöldunum tveimur þegar kolaverð margfaldaðist. Mest virði var þó rafmagnið fyrir atvinnulífið. Það sem fyrir var efldist og nýir möguleikar opnuðust.

 

Safnið
Fyrir 90 ára afmælið 2003 ákvað RARIK að leggja áherslu á það vægi sem virkjunin hefur í raforkusögu landsins og hafa hana til sýnis fyrir innlenda og erlenda gesti. Í því skyni var sett upp minjasýning í stöðvarhúsinu og stöðvarhúsið og næsta nágrenni lagfært. Nokkrum árum áður var virkjunarsvæðið endurskipulagt. Nálægð virkjunarinnar við Seyðisfjörð eykur einnig gildi hennar fyrir bæjarbúa og til dæmis eru hvammurinn og gilið hluti af útivistarsvæði Seyðfirðinga.
Heimild: Rarik