List í Ásmundarsal

List í Ásmundarsal

Árið 1933, reisti Ásmundur Sveinsson (1893 – 1982) myndhöggvari sér hús og vinnustofu að Freyjugötu á Skólavörðuholtinu. Húsið sem hann teiknaði sjálfur, er eitt af þeim fallegri í Reykjavík. Þar er nú listagallerí og kaffihús. Í Gryfjunni eru  ljósmyndararnir Hallgerður Hallgrímsdóttir og Veronika Geiger með opna vinnustofu, en þær eru að vinna að sýningu sem opnar þann 17. júní. Í Ásmundarsal er íslenska listakonan Melanie Ubaldo (f:1992 í Filippseyjum) með frábæra sýningu sem heitir Trapo, sérsniðin fyrir salinn. Melanie segir um sýninguna; ,,Litríku, kringlóttu, lófastóru tuskurnar sem mamma og hinar konurnar í fátækrahverfinu okkar á æskuárum mínum á Filippseyjum saumuðu, úr afgangsefnum, eru sérstakur innblástur afbyggingar- fagurfræði minnar. Þessar tuskur eru kallaðar trapo á móðurmáli mínu filipísku.” Næsta sýning Melanie er í Listasafni Akureyrar í ágúst. Hún útskrifaðist frá Listaháskóla Íslands í fyrra, og hefur fengið fjölda viðurkenninga fyrir list sína, eins og Hvatningarverðlaun Íslensku myndlistarverðlaunanna árið 2022. Verk hennar má meðal annars finna í safneign Listasafns Íslands, Listasafni Reykjavíkur, Gerðarsafni í Kópavogi og Hafnarborg í Hafnarfirði. Sýningunni líkur 11. júní.

Trapo, sýning Melanie Ubaldo
Í Gyrfjunni eru ljósmyndararnir Hallgerður Hallgrímsdóttir og Veronika Geiger með opna vinnustofu til 11. júní
Ásmundarsalur, húsið var allt gert upp af miklum myndarskap fyrir örfáum árum
Horft inn í kaffihúsið
Trapo, sýning Melanie Ubaldo
Trapo, sýning Melanie Ubaldo

 

Ljósmyndir & texti : Páll Stefánsson

Reykjavík 29/05/2023 : A7C, RX1R II : 2.0/35mmz, 2.8/21mm Z