Listamannsspjall – Ráðhildur Ingadóttir

Listamannsspjall – Ráðhildur Ingadóttir
Sunnudag 28. janúar kl. 14

Sunnudaginn 28. janúar kl. 14 verður haldið listamannsspjall í tengslum við sýningu Ráðhildar Ingadóttur, Ultimate, Relative. Þá mun listamaðurinn Unnar Örn Auðarson ræða við Ráðhildi um og listsköpun hennar og efnistök sýningarinnar.

Ráðhildur hefur lengi fengist við hið óendanlega og eilífa í verkum sínum. Með sýningu sinni í Hafnarborg dregur hún upp svipmyndir af eigin heimi með upptökuvél, þar sem hún sækir í eigin reynslu og dregur fram minningar. Við greinum einstakling sem rennir augum sínum yfir fjölda upplifana og ristir fortíðina í nútíðina. Listamaðurinn er í sínum eigin heimi, á þeim stað þar sem hið lítilfjörlega mætir hinu stórmerkilega.

Ráðhildur Ingadóttir er fædd í Reykjavík árið 1959. Hún nam myndlist í Englandi á árunum 1981 – 1986. Ráðhildur hélt sína fyrstu einkasýningu í Nýlistasafninu árið 1986 og hefur síðan sýnt á Íslandi og í Evrópu í ríkum mæli og einnig unnið sem sýningarstjóri hér á landi og erlendis. Ráðhildur var gestakennari við Myndlista- og handíðaskóla Íslands og Listaháskóla Íslands á árunum 1992-2002 sem og við Konunglegu myndlistarakademíuna í Kaupmannahöfn. Hún var stjórnarmeðlimur í Nýlistasafninu frá 2000-2002. Ráðhildur var listrænn stjórnandi Skaftfells miðstöðvar myndlistar á Austurlandi 2013 og 2014. Hún hefur hlotið starfslaun, verkefnastyrki og ferðastyrki á Íslandi og í Danmörku. Ráðhildur býr og starfar í Kauppmannahöfn, á Seyðisfirði og í Reykjavík. Verk eftir hana eru í eigu Listasafns Íslands, Listasafns Reykjavíkur og Nýlistasafnsins.

Hafnarborg
Menningar- og listamiðstöð
Hafnarfjarðar

Strandgata 34
220 Hafnarfjörður
Ísland Opið alla daga kl. 12–17
Lokað á þriðjudögum.

www.hafnarborg.is
hafnarborg@hafnarfjordur.is
585 5790