Málverk tveggja tíma

Málverk tveggja tíma – Tilurð Errós og D-sýningaröðin, sýningaopnun 31. okt.

Mótunarár Errós frá 1955 til 1964 eru umfjöllunarefni sýningarinnar Tilurð Errós sem verður opnuð í Listasafni Reykjavíkur, Hafnarhúsi, laugardaginn 31. október kl. 16. Við sama tækifæri verður opnuð sýningin, Við erum ekki hrædd, á verkum eftir Úlf Karlsson í sýningaröð sem kennd er við D-sal Hafnarhúss. Hér mætast verk tveggja listamanna sem báðir hafa fundið hugmyndum sínum meginfarveg í málverki þó allt að sextíu ár skilji að elstu og yngstu verkin.

Borgarstjórinn í Reykjavík, Dagur B. Eggertsson, opnar sýningarnar að listamönnunum viðstöddum.

errroE-3350-storVið opnun sýningarinnar verður veitt viðurkenningu úr Listasjóði Guðmundu S. Kristinsdóttur sem Erró stofnaði til minningar um Guðmundu frænku sína. Sjóðnum er ætlað að efla og styrkja listsköpun kvenna.

Sýningunni Tilurð Errós er fylgt úr hlaði með sýningarskrá með texta eftir Danielle Kvaran sýningarstjóra sýningarinnar, en hún gegnir sérfræðingsstöðu við Listasafn Reykjavíkur – Errósafn.

Sýningin nýtur stuðnings frá Alvogen á Íslandi en fyrirtækið festi nýlega kaup á verkum eftir Erró sem munu skipa veglegan sess í nýbyggingu fyrirtækisins í Vatnsmýri.

Tilurð Errós
Tilurð Errós birtir mynd af listamanni sem mitt í hringiðu myndlistaheimsins, mest í Parísarborg, gerði ýmsar tilraunir og fetaði sig áfram í listinni. Á sýningunni má sjá hvernig hann hverfur frá tjáningarfullu málverki til samtíningsverka og samklippimynda, sem hann er einkum þekktur fyrir á síðari árum.

Fyrstu klippimyndirnar gerði Erró í Jaffa í Ísrael árið1958. Þar blandar hann saman teikningu og úrklippum úr dagblöðum. Það var hins vegar í París á árunum 1959-60 sem hann byrjaði að færa klippimyndir yfir í málverk á sinn einstaka hátt. Það var þó ekki fyrr en árið 1964, þegar hann sökkti sér niður í flæði dægurmenningarmynda í New York, að þessi vinnsluaðferð verður kerfisbundin og klippimyndin verður lykill að sköpun og gerð allra verka hans. Þessi næstum tíu ára langi meðgöngutími er rifjaður upp á sýningunni Tilurð Errós.

Úlfur Karlsson: Við erum ekki hrædd–D 23
Það er Listasafni Reykjavíkur jafnframt heiður að kynna nýja sýningu á verkum eftir ungan listamann, Úlf Karlsson (f. 1988) í D-sal Hafnarhúss, sem nefnist Við erum ekki hrædd. Úlfur stundaði myndlistarnám við Valand listaháskólanum í  Gautaborg þaðan sem hann útskrifaðist árið 2012. Hann hefur að undanförnu sýnt áhugaverð máverk í smærri sölum borgarinnar og verið þátttakandi í nokkrum samsýningum m.a. sýningunni Nýmálað sem sett var upp í Listasafni Reykjavíkur, Hafnarhúsi á þessu ári. Úlfur vinnur mest kraftmikil og áleitin málverk og innsetningar þar sem marglaga sögur og atvik mynda veröld sem vísar í bæði raunveruleikann og heim fantasíu.

Sýningin er hluti af sýningaröð sem nefnd er eftir D-sal Hafnarhússins og var haldin í safninu á árunum 2007-2011. Nú verður haldið áfram þar sem frá var horfið en markmið sýningarraðarinnar er að vekja athygli á listamönnum sem hafa ekki áður haldið einkasýningar í stærri söfnum landsins. Sýning Úlfs er sú 23. í þessari röð – D 23. Sýningarstjóri er Yean Fee Quay.

Berghildur Erla Bernharðsdóttir
Kynningarstjóri Listasafns Reykjavíkur
Sími 590-1200 / 694-5149

Listasafn Reykjavíkur
Sími 590-1200
[email protected]
Hafnarhús
Opið daglega 10–17, fimmtudaga 10–20

Kjarvalsstaðir
Opið daglega 10–17

Ásmundarsafn
Opið maí–sept 10–17 / okt.–apríl 13–17