MENN og Vörður

Tvær nýjar sýningar opnaðar í Hafnarborg

Laugardaginn 28. mars kl. 15 verða tvær nýjar sýningar opnaðar í Hafnarborg menningar- og listamiðstöð Hafnarfjarðar. Í aðalsal er það sýningin MENN með verkum eftir fjóra karllistamenn í fremstu röð, þá Curver Thoroddsen, Finn Arnar Arnarson, Hlyn Hallsson og Kristinn G. Harðarson. Sýningarstjóri er Ólöf K. Sigurðardóttir. Í Sverrissal verður opnuð sýningin Vörður með nýjum verkum eftir Jónínu Guðnadóttur.
Sýningin MENN beinir sjónum að stöðu karla við upphaf 21. aldar og þeim breytingum sem orðið hafa á högum þeirra í ljósi breyttrar stöðu kvenna. Í verkunum takast listamennirnir á við spurningar um stöðu karla innan fjölskyldu hvað varðar hugmyndir um þátttöku í heimilislífi, ábyrgð á afkomu og uppeldi barna. Verkin á sýningunni vekja upp áleitnar spurningar um karlmennsku og þau skilaboð sem karlar fá frá samfélaginu. Meginviðfangsefni sýningarinnar er þó sú nánd sem lesa má úr afstöðu listamannanna til fjölskyldu og barna. Þeir taka sér stöðu innan fjölskyldunnar, gera hana að viðfangsefni og búa hversdagslegu lífi listrænan búning. Viðfangsefið hefur lengi verið listamönnunum hugleikið, og þótt verkin hafi mörg skírskotun til annarra fagurfræðilegra eða listrænna viðfangsefna eru þau einkar áhugaverð í þessu samhengi nú árið 2015 þegar þess er minnst að öld er liðin frá því konur hlutu kosningarétt og mikil áhersla er á að skoða reynsluheim kvenna.
madur og barn-Finnur ArnarsonListamennirnir koma að viðfangsefninu hver með sínum hætti. Listamennirnir eiga að baki fjölda sýninga auk þess sem þeir hafa fengist við önnur verkefni, svo sem útgáfu, hönnun, tónlist og pólitík. Á sýningartímanum munu þeir taka þátt í leiðsögnum um sýninguna, sjá nánar hér.
Jonina Gudnadottir1Í tengslum við sýninguna verður efnt til málþings í Hafnarborg laugardaginn 18. apríl. Rannsóknarstofnun í jafnréttisfræðum við Háskóla Íslands (RIKK) skipuleggur málþingið en þar koma fræðimenn og samfélagsrýnar saman og ræða efni sýningarinnar í tengslum við rannsóknir á karlímyndum. Sýningin MENN hlaut styrk úr sjóði framkvæmdanefndar um  100 ára afmæli kosningaréttar kvenna.
Í Sverrissal verður opnuð sýningin Vörður með verkum eftir myndlistarkonuna Jónínu Guðnadóttur. Hún er þekkt er fyrir framlag sitt til íslenskrar leirlistar. Jónína hefur þróað sjálfstætt og afar persónulegt myndmál og nýtir það í listaverkum sem bera þekkingu hennar á leirnum gott vitni um leið og einstakt formskyn og hugmyndauðgi blasir við. Titillinn Vörður er sóttur til meginverks sýningarinnar. Í því leitar listakonan aftur til bernsku sinnar og mótunarára um miðja síðustu öld, sígur í brunn minninganna til atburða sem varðað hafa líf hennar og finnur þeim form í skúlptúr úr steinsteypu, gleri og fundnum efniviði. Á sýningunni verða persónulegar sögur að táknmyndum þess tíðaranda sem mótaði fyrstu kynslóð íslenska lýðveldisins. Í öðrum verkum á sýningunni er það kerfisbundinni framsetning náttúrufyrirbæra sem kalla á hugleiðingar um náttúruna og þá stöðu sem maðurinn hefur tekið sér gagnvart henni. Ferill Jónínu hófst upp úr miðjum sjöunda áratugnum en þá hafði hún lagt stund á myndlistarnám við Myndlista- og handíðaskóla Íslands og við Konstfack í Stokkhólmi. Hún hefur haldið fjölda sýninga hér heima og erlendis, starfaði með SÚM um tíma og var lengi þátttakandi í rekstri listamannarekinna sýningarrýma. Sundaginn 12. apríl fer Jónína yfir áhugaverðan listferil sinn ásamt þeim Pétrúnu Pétursdóttur og Ólöfu K. Sigurðardóttur.

Nánari upplýsingar veita:
Áslaug Íris Friðjónsdóttir, upplýsingafulltrúi Hafnarborgar s. 585 5790, gsm. 694 3457
Ólöf K. Sigurðardóttir, sýningarstjóri MENN s. 585 5790, gsm. 664 5791
Jónína Guðnadóttir, gsm. 895 6690

Dagskrá í tengslum við sýningarnar:
Sunnudagur 29. mars kl. 15
Listamannsspjall – Hlynur Hallsson
Fimmtudagur 2. apríl kl. 15
Listamannsspjall – Kristinn G. Harðarson
Sunnudagur 12. apríl kl. 14
Listamannsspjall – Jónína Guðnadóttir ræðir list sína og ferli við Ólöf K. Sigurðardóttur og Pétrúnu Pétursdóttur.
Laugardagur 18. apríl kl. 14
Hringborð – Málþing um sýninguna MENN í samstarfi við Rannsóknarstofnun í jafnréttisfræðum við Háskóla Íslands (RIKK).
Sunnudagur 3. maí kl. 15
Listamannsspjall – Finnur Arnar Arnarson
Fimmtudagur 7. maí kl. 20
Listamannsspjall – Curver Thoroddsen