Menningarbærinn Siglufjörður

Siglufjörður, nyrsti bær Íslands, sem stendur við samnefndan 7 km langan fjörð, rétt vestan við Eyjafjörð fyrir miðju norðurlandi, er ansi merkilegur bær heim að sækja. Siglufjörður er sannkallaður menningarbær, sumar sem vetur. Þarna er til dæmis Síldarminjasafnið, eitt virtasta safn landsins, og það eina sem hefur hlotið evrópsku safnaverðlaunin. Þarna er líka Saga – Fotografica sögulegt safn um íslenska ljósmyndun, stofnað fyrir tíu árum af Baldvini og Ingibjörgu (BECO) sem reka stærstu ljósmyndavöruverslun landsins í Reykjavík. Í Alþýðuhúsinu er vinnustofa, og gallerí Aðalheiðar S. Eysteinsdóttur, en hún rekur líka Kompuna fyrir tónleika, listasmiðjur og veislur. Í Ráðhúsinu á Siglufirði er Listasafn Fjallabyggðar, en þar eru sýnd verk eftir helstu listamenn þjóðarinnarinnar á fyrri helmingi aldarinnar, en 1980 færðu hjónin Arngrímur og Bergþóra Siglfirðingum málverkasafn þeirra hjóna, sem á þeim tíma var talið eitt fjölbreyttasta og vandaðasta listaverkasafn í einkaeigu á landinu.  Síðan er það Þjóðlagasetrið á Siglufirði, í einu af elstu húsum Siglufjarðar. Þarna eru íslensk þjóðlög kynnt á aðgengilegan hátt, en séra Bjarni Þorsteinsson (1861-1938), prestur og hálfgerður faðir Siglufjarðar stóð að söfnun þjóðlaga í lok 19. aldar og byrjun þeirrar tuttugustu. Fyrstu vikuna í júlí er haldin alþjóðleg þjóðlagahátíð á Siglufirði. Listrænn stjórnandi hennar er Gunnsteinn Ólafsson. 

Horft af höfninni að Siglufirði, Hafnarhyrna í bakgrunni

Styttan af Gústa Guðsmanni við Aðalgötuna vígð 2018, eftir Ragnhildi Stefánsdóttur myndhöggvara.

Íbúar Siglufjarðar eru í dag um 1.300, en voru flestir tæplega 4000 um miðjan sjötta áratuginn. Þá var Siglufjörður fjórði fjölmennasti bær landsins, og um 20% af útflutningstekjum Íslands komu frá þessum síldarbæ, þá.

Frá Síldarminjasafninu á Siglufirði

 

Siglufjörður : 2018-2022  : A7R IV, A7R III RX1R II – FE 1.4/24mm GM, FE 1.2/50 GM, FE 1.8/135mm GM

Ljósmyndir & texti : Páll Stefánsson