Listasafn Íslands 2.10. 2121 – 13.2.2022

Nú um stundir stendur yfir sýning á Listasafni Íslands þar sem farið er yfir feril Guðmundar Thorsteinssonar eða Muggs eins og flestir þekkja hann.

Muggur var afkastamikill listamaður þrátt fyrir stutta ævi en hann náði að skapa einstakan og persónulegan myndheim. Þekktasta verk hans er sennilega sagan um Dimmalimm en hana samdi hann fyrir systurdóttur sína árið 1921 þegar hann var á leið frá Ítalíu til Íslands á flutningaskipi.

Kristín G. Guðnadóttir, sýningarstjóri, sagði að það væri kominn tími til að sýna Íslendingum verk Muggs á ný. „Það eru næstum 40 ár síðan við héldum sýningu með verkum hans. Okkur fannst kominn tími til að sýna Íslendingum verk hans,“ sagði hún. „Hann gerði miklu meira en bara myndskreytingar.“

Á sýningunni er leitast við að gera öllum þáttum myndsköpunar Muggs skil. Hann var hugmyndaríkur maður og teiknaði landslagsmyndir, sveitasælu og þjóðlíf Íslendinga, ferðaminningar frá framandi löndum eins og skemmtanalíf í New York og sveitalíf í Noregi. Eins teiknaði hann þjóðsagna- og ævintýraheim þar sem fínir prinsar og prinsessur búa í fallegum köstulum, tröll dvelja í myrkri og trúarheima þar sem Kristur læknar sjúka.

Hann nýtti sér alls kyns miðla til að koma hugmyndaheimi sínum frá sér í verk. Hann notaði allt frá blýöntum, krít og pennum, að vatnslitum og olíulitum. Þess utan gerði hann klippimyndir, saumaði út, bróderaði og skar út í tré. Hann lét sér ekki nægja að skapa list með höndunum, heldur var hann líka leikari og söngvari. Hann lék á sviði og söng gamanvísur en hann fór einnig með aðalhlutverkið í kvikmyndinni Saga Borgaraættarinnar sem var frumsýnd árið 1920.

Hann fæddist á Bíldudal 1891 en fjölskyldan fluttist til Kaupmannahafnar árið 1903 þegar hann var 12 ára. Þar lærði hann við Konunglega listaháskólann frá 1911-1915. Hans stutti listaferill spannaði aðeins rétt um tíu ár en hann lést úr berklum árið 1924, aðeins 33 ára gamall. Hann var fjölbreyttur listamaður sem einkenndist af natúralisma og húmor.

Verkin á sýningunni eru bæði í einkaeigu og úr safneign Listasafns Íslands en safnið fékk 46 myndverk eftir Mugg að gjöf árið 1958, frá danska listmálaranum og prófessornum Elof Risbye (1892-1961).

Sýningin stendur til 13. febrúar 2022.

-HDB