Nálægt náttúruöflunum

Það eru fáir staðir á Íslandi sem betra er að sjá ólgandi brim eins og nálægt Reykjanestá, syðst og vestast á Reykjanesi. Tala nú ekki um á degi eins og í dag, strax eftir eftir óveðrið í nótt. En það eru fleiri staðir sem vert er að skoða þarna í nágrenninu, eins og hverasvæðið við Gunnuhver, Reykjanesvita, Valahnúkamöl, Brimketil og brúnna milli heimsálfanna. Það tekur rétt tæpar tuttugu mínútur að koma á svæðið í bíl frá Keflavíkurflugvelli, og um klukkutíma frá Reykjavík, til að komast í annan heim, heim hinna sterku náttúruafla.  

3400 Síðasti Geirfuglinn horfir frá ströndinni undir Valahnjúk í átt að Eldey, þar sem sá síðasti í heiminum var drepinn fyrir 178 árum. Bronsstyttan er eftir Bandaríska listamanninn Tod McGrain.

Ólgandi Atlantshafið í Kirkjuvogsbás.

Brúin milli heimsálfa, er upp af Sandvík, rétt norðan við gufuaflsvirkjunina. Þar er hægt að ganga milli heimsálfa í bókstaflegri merkingu, því þarna mætast Evrasíu- og Norður- Ameríkuflekarnir, og það kostar ekkert nema tveggja mínútna göngutúr.

Reykjanes 22/02/2022  12:29 – 13:32 : A7R III – A7C : FE 1.8/135mm GM – FE 1.4/24mm GM

Ljósmyndir og texti : Páll Stefánsson