Ný samgöngumiðstöð í Vatnsmýri

Ný samgöngumiðstöð í Vatnsmýri

Hvar sem komið er í Evrópu er samgöngumiðstöð í hjarta borgarinnar, sem er þá jafnan aðaljárnbrautarstöð viðkomandi borgar með góðum tengingum við kerfi sporvagna, strætisvagna og annarra áætlunarbifreiða. Nauðsynlegt er að höfuðborg Íslands hafi samgöngumiðstöð nærri miðborginni sem þjóni almenningssamgöngum inn og út úr borginni í lofti og á láði og bjóði líka upp á góðar tengingar við hin margvíslegu samgöngukerfi höfuðborgarsvæðisins.

Hópferðabílar og flugvélar í röðum við tölvugerða mynd af samgöngumiðstöð í Vatnsmýri. Hótel Loftleiðir eru lengst til vinstri á myndinni.

Aðalsamgöngumiðstöð sem þessi hefði lykilþýðingu við uppbyggingu ferðaþjónustu og myndi um leið styrkja byggðina miðsvæðis í Reykjavík og þá margháttuðu atvinnustarfsemi sem þar er til staðar, verslun og þjónustu, auk háskólanna tveggja, Landspítalans, stjórnsýslunnar o.s.frv.

 

Afstöðumynd sem sýnir legu nýrrar flugstöðvar norðan við Hótel Loftleiðir.

Eldri samgöngumiðstöðvar
Hugmyndir um slíka miðstöð í Reykjavík eru síður en svo nýjar af nálinni. Á fyrsta skipulagsuppdrætti Reykjavíkur var gert ráð fyrir aðaljárnbrautarstöð í Norðurmýrinni, en eins og kunnugt er varð aldrei neitt úr áformum um lagningu járnbrauta hér á landi. Miðstöð strætisvagna var um áratugaskeið á Lækjartorgi og þar rétt fyrir norðan, við Kalkofnsveg, var Bifreiðstöð Íslands (BSÍ), sem var miðstöð áætlunarflutninga út úr bænum og um leið hópferðaafgreiðsla. Aðalskiptistöð strætisvagna var síðar flutt á Hlemm og BSÍ fór í Vatnsmýrina.
Flugið eru líka almenningssamgöngur, en til tíðinda dró í flugstöðvarmálum Reykvíkinga þegar afgreiðslubygging Loftleiða eyðilagðist í stórbruna í ársbyrjun 1962. Í kjölfarið hóf félagið byggingu eigin flugstöðvar þar sem Hótel Loftleiðir risu síðar. Skömmu eftir að framkvæmdir hófust var tekin ákvörðun um að CL-44 skrúfþotur myndu leysa DC-6B vélar félagsins af hólmi, en ekki var hægt að notast við Reykjavíkurflugvöll fyrir skrúfþoturnar. Þegar þá var komið sögu hafði kjallari flugstöðvarinnar verið byggður og var ákveðið að byggingin yrði endurhönnuð sem hótel. Þar hóf Hótel Loftleiðir starfsemi sína vorið 1966.

Útlitsteikning sem sýnir forhlið samgöngumiðstöðvarinnar.

Eftir sameiningu Loftleiða og Flugfélags Íslands 1973 skaut hugmyndin um flugstöð á þessum stað aftur upp kollinum og í deiliskipulagstillögu frá árinu 1985 var gert ráð fyrir nýrri flugstöð sunnan og vestan við flugturninn á Reykjavíkurflugvelli og skrifstofur Flugmálastjórnar.

Nefnd sett á laggirnar
Sturla Böðvarsson samgönguráðherra skipaði undirbúningshóp í ársbyrjun 2004 til að kanna möguleika á byggingu einnar allsherjar samgöngumiðstöðvar í Reykjavík. Hópurinn var settur saman í kjölfar viðræða ríkis og borgar um málefnið og var hugmyndin sú að samgöngumiðstöðin myndi þjóna jafnt flugi innanlands- og utanlands, langferðabílum og yrði með góðum tengingum við almenningssamgöngukerfi höfuðborgarsvæðisins. Sér í lagi var horft til staðsetningar norðan við Hótel Loftleiðir. Frumtillögur að skipulagi og útliti stöðvarinnar gerði Teiknistofa Halldórs Guðmundssonar ehf. Þá voru einnig kannaðir möguleikar á því að breyta hluta Hótels Loftleiða í samgöngumiðstöð.


Gert var ráð fyrir því að mannvirkið yrði reist og rekið í einkaframkvæmd. Fyrirhuguð staðsetning norðan við Hótel Loftleiðir er í legu norðaustur-suðvestur brautar Reykjavíkurflugvallar, sem á seinni árum er stundum nefnd neyðarbraut. Í skýrslu nefndarinnar er bent á að ekki sé unnt að loka flugbrautinni fyrr en fundist hafi önnur leið til að veita það öryggi sem sem brautin tryggir, en í þágildandi deiliskipulagi svæðisins sagði það sama. Í Keflavík er braut í sömu stefnu, sem hefur ekki verið notuð um árabil. Brýnt er að hún verði tekin í notkun til að tryggja öryggi á suðvesturhorni landsins, nú þegar neyðarbrautinni hefur verið lokað.

Samgöngumiðstöð á þessum stað myndi liggja nærri Nýju-Hringbrautinni og Bústaðavegi og því í góðri tengingu við stofnbrautakerfi borgarinnar. Til að nýta lóðina sem best væri ef til vill ráð að hafa bílastæðin á nokkrum hæðum, ellegar að hluta til neðanjarðar. Þá yrði að gera ráð fyrir stækkunarmöguleikum samgöngumiðstöðvar í framtíðinni og um leið fjölgun bílastæða og aðkomusvæðis fyrir hópferðabifreiðir og strætisvagna. Samgöngumiðstöð yrði um leið verslunarmiðstöð eins og aðrar slíkar miðstöðvar erlendis.
Frá því að þessar tillögur voru lagðar fram fyrir fjórtán árum hefur orðið sprenging í fjölda erlendra ferðamanna hingað til lands. Þeir voru 360 þúsund árið 2004 en eru nú á þriðju milljón. Hagkvæmni samgöngumiðstöðvar ætti því að hafa aukist til muna á undanförnum fjórtán árum.

Skortur á háleitri framtíðarsýn?
Þegar nefnd samgönguráðherra skilaði skýrslu sinni var gert ráð fyrir því að Bifreiðastöð Íslands (BSÍ) í Vatnsmýri yrði brátt að víkja vegna annarra framkvæmda. Síðan þá hefur skipulagi verið breytt og nú er áformað að miðstöð almenningssamgangna við BSÍ.
Inn í þessa umræðu blandast deilur um framtíð Reykjavíkurflugvallar, en vegna þeirra hefur húsakostur við völlinn verið í niðurníðslu og nýverið hefur verið rætt um bráðabirgðahúsnæði fyrir afgreiðslu Flugfélags Íslands á núverandi stað, þ.e. vestan flugvallarins.


Þær hugmyndir sem nú eru uppi eru því engan veginn jafnháleitar og fyrri áætlanir um allsherjar samgöngumiðstöð, en rétt er að taka fram að staðsetning hennar norðan við Hótel Loftleiðir var hugsuð óháð framtíð flugvallarins. Á meðan flugvöllur er enn í Vatnsmýri yrði þó til mikilla bóta að miðstöð almenningssamgangna í borginni yrði á einum stað, hvort heldur sem um er að ræða á landi eða í lofti.
Hér er líka um samkeppnismál að ræða. Miklu skiptir að fyrirtæki sem annast samgöngur búi við eins jöfn skilyrði og frekast er kostur. Þannig verði tryggt að öll fyrirtæki í hópferðaflutningum og leigubifreiðastöðvar eigi aðgang að samgöngumiðstöðinni og að ekkert fyrirtæki njóti forgangs umfram annað. Sama gildir um afgreiðslu fyrir bílaleigur í samgöngumiðstöðinni – miklu skiptir að öll fyrirtæki keppi á jafnræðisgrundvelli.
Bygging einnar allsherjar samgöngumiðstöðvar í Reykjavík er eitt stærsta hagsmunamál íslenskrar ferðaþjónustu og um leið ein aðalforsenda fyrir uppbyggingu góðra almenningssamgangna hér á landi.

Myndirna frá Öskuhlið eru teknar í júlí 2018.

Á Reykjavíkurflugvelli. Deilur um framtíð Reykjavíkurflugvallar hafa óhjákvæmilega blandast inn í umræður um byggingu samgöngumiðstöðvar í Vatnsmýri.
Hótel Loftleiðir. Þar sem miðálma Hótel Loftleiða stendur nú var upphaflega gert ráð fyrir flugstöð.

Baðstöndin í Nauthólsvík

 

Björn Jón Bragason