Ógnin frá Íslandi

Ljósmyndir og texti Björn Rúriksson

Ekki eru nema rúm tvö hundruð ár síðan að ELDGOS Á ÍSLANDI, sem varaði í átta mánuði, skók allt norðurhvel jarðar. Öll vitum við að í Skaftáreldum dó um fimmtungur allra Íslendinga, nær tíu þúsund manns. En það er ekki fyrr en nýlega sem okkur varð ljóst að þetta gos hafði ægilegar afleiðingar víða um heim, jafnt í nágrannalöndunum sem landsvæðum víðs fjarri.

Við rannsókn heimilda hefur komið í ljós að Skaftáreldar, eða gosið sem erlendis er gjarnan kennt við Laka, varð beint og óbeint um sex milljónum manna að aldurtila. Milljónir manna dóu í Evrópu og Ameríku, þar á meðal frumbyggjar víða um Norður-Ameríku. Á aðra milljón Japana létu lífið og mikill fjöldi fólks í Kína. Þetta hófst allt á sunnudegi austur í Skaftafellssýslum. Séra Jón Steingrímsson lýsir þessu í hinni stórmerku dagbók sinni:

„Árið 1783 þann 8. júní, sem var hvítasunnuhátíð, í heiðríku og spöku veðri um dagmálabil, kom upp fyrir norðan næstu byggðafjöll á Síðunni svart sandmistur og mokkur svo stór, að hann á stuttum tíma breiddi sig yfir alla Síðuna.“ Síðan lýsir séra Jón því hvernig dýr hættu að geta étið, vesluðust upp og drápust. Fólkið dó, ýmist í andnauð eða eftir að hafa borðað mat sem eitraðist af gosinu. Á næstu vikum opnuðust margar sprungureinar og þegar mest gekk á er talið að 6.000 rúmmetrar af glóandi hrauni hafi ollið fram á hverri sekúndu, en það er um tvítugfalt meðalrennsli Ölfusár. Lakasprungan varð 27 km á lengd og í henni voru a.m.k. 135 gígar af öllum stærðum og gerðum.

Á þessum tíma upplýsingarinnar var mikið skrifað af dagbókum og annálum um öll lönd. Dagblöð komu út í mörgum borgum heims og fluttu fregnir af veðri og breytingum í náttúrunni. Af öllum þessum gögnum má sjá hvaða afleiðingar gosið á Íslandi hafði á líf manna á hinum ólíklegustu stöðum, hvernig það færði krumlur sínar yfir eitt landið af öðru.Alls staðar dimmdi til langframa og alls staðar varð sólin sem blóð við sólarlag. Gjóskuskýið náði Noregi, Skotlandi og Færeyjum þann 10. júní, eða tveim dögum eftir upphaf gossins. Grá öskuþokan var komin til Englands 22. júní og þann 24. huldi þokan alla Evrópu,allt austur til Adríahafs. Í júlímánuði voru sólarleysið og gosaskan farin að hafa afleiðingar í Rússlandi, Síberíu og í Kína. Fregnir um óvenjumikla þurrka bárust frá Indlandi og Yangtze svæðinu í Kína, þar sem miklir kuldar geisuðu að auki um allt landið sumarið 1783. Gráaþokan, eins og hún gjarnan nefndist,hafði mikil áhrif á náttúru Sýrlands og Egyptalands þetta sumar og urðuárlegar Monsúnrigningar að engu. Afleiðingin varð mikill vatnsskortur og hungursneyð. Í janúar 1785 hafði sjötti hluti þáverandi íbúa Egyptalands ýmist flúið land eða látið lífið.

Á austurströnd Bandaríkjanna varð veturinn 1784 fimm gráðum kaldari á Celsius en venja var. Í höfninni í Charleston í Virginíu mátti fara um á skautum. Ísflár flutu niður Mississippi og íshröngl var á Mexíkóflóa. Þegar verst lét huldi gosaskan, eða gjóskan í efri loftlögum fjórðung allrar jarðarinnar, eða allt norðurhvelið niður að 30° breiddargráðu. Áhrifin á umhverfi og veðurfar urðu mikil og afdrifarík næstu tvö árin. Þar sem gráa þokan varð þrálát í Evrópu og víðar, er talið að allt að þúsund kíló af brennisteinssýru (H2SO4) hafi fallið á hvern einasta ferkílómetra lands fyrstu fimm mánuði Skaftáreldanna.

Atburðarásin hafði áhrif á uppskeru í Evrópu í mörg ár. Hungursneyð sem fylgdi í kjölfarið olli mikilli þjóðfélagsólgu og uppþotum. Um ein milljón Frakka lést af hungri á þessum tíma. Það er líka almennt viðurkennt að franska byltingin hafi átt rætur sínar í afleiðingum Skaftáreldanna.
Ekki er talið ólíklegt að gos af þessari stærðargráðu á Íslandi í dag myndi hafa gríðarleg áhrif um allan heim með því mögulega að stöðva allt flug á norðurhveli jarðar í heilt ár og gott betur! Mannsaldrar eru liðnir frá Skaftáreldum og tíminn, þótt langur sé, læknar öll sár. Aðstæður við Laka voru á sínum tíma eins fjandsamlegar öllu lífi og hugsast getur. Eitraðar gufur svifu yfir landinu sem þá var í sköpun, en nú, ríflega tveimur öldum síðar, þekja mjúkar gamburmosabreiður hrjúft hraunið og gígveggir og hrauntraðir veita öllu lífi skjól. Gígarnir við Laka og hraunin um-hverfis eru einn listigarður náttúrunnar. Þar eru mosagrónar gígskálar af öllum stærðum og gerðum og ýmist tærar eða blágrænar tjarnir í nokkrum þeirra. Sums staðar dafnar fallegur lággróður í skjóli gígveggjanna.

Grein í Land og sögu á bls. 40 sjá hér

Ljósmyndir og texti © Björn Rúriksson