• Íslenska

Mikið framboð menningar og þjónustu við ferðamenn

Mikið menningarframboð er í Reykjavík allan ársins hring og eru í borginni söfn, leik- og tónlistarhús þar sem ferðamenn geta kynnt sér sögu borgar og þjóðar og notið myndlistar og tónlistar og hvers kyns annarra listviðburða. Sumarið í ár verður sérlega líflegt en í júní fer fram Listahátíð í Reykjavík sem teygja mun anga sína víða um borg með stórum listviðburðum á heimsmælikvarða auk fjölbreyttrar dagskrár fyrir fjölskyldufólk og úrvals viðburða og sýninga í almenningsrými. Hátíðin mun án efa setja mikinn svip á borgina.

Guðmundur Einarsson frá Miðdak. þeistarreykjabunga

Af nógu öðru er að taka. Snemma í maí verður elsta hús Reykjavíkur við Aðalstræti 10 opnað almenningi með nýrri sumarsýningu þar sem til dæmis verður hægt að skoða myndir frá Reykjavík árið 1918 en það ár varð Ísland frjálst og fullvalda ríki. Því er nú fagnað og minnst með ýmsum hætti að 100 ár eru liðin frá þeim tímamótum, til dæmis með sumarsýningu Listasafns Reykjavíkur í Hafnarhúsi og á Kjarvalsstöðum. Þar verða verk eftir listamenn sem mótað hafa íslenska listasögu allt frá upphafi 20. aldarinnar. Sýningin ber heitið: Einskismannsland: Ríkir þar fegurðin ein? / No Man´s Land: Where Beauty Alone Reigns?

 

Einskismannsland: Ríkir þar fegurðin ein? / No Man´s Land: Where Beauty Alone Reigns?

Ýmsar hátíðir

„Á Sjóminjasafninu úti á Granda verður í júní opnuð ný og viðamikil grunnsýning sem lýsir þróun sjávarútvegs og áhrifum hans á Íslendinga í gegnum tíðina,“ segir Arna Schram, yfirmaður menningar- og ferðamálasviðs borgarinnar. „Íslendingar kunna vel að njóta menningar og lista og á síðasta ári var tekið í notkun nýtt menningarhús, sem einnig er úti á Granda, Marshall- húsið, en þar má finna nútímalistasafn, listamannarekið gallerý og sýningarrými með verkum eftir Ólaf Elíasson. Húsið var á árum áður síldarverksmiðja og byggt í kringum 1948 að hluta til með fjármagni í gegnum Marshall-aðstoð Bandaríkjamanna. Það hafði staðið ónotað í þó nokkur ár þegar ákveðið var að endurgera það og gefa því nýtt hlutverk sem menningarhús.

Fjölmörg önnur söfn og sýningar eru í miðborginni en þau sem þegar hafa verið nefnd, svo sem Landnámssýningin (Settlement Exhibition) við Aðalstræti, en hún er mjög vinsæl og vel sótt af okkar erlendu gestum.

Miðað við hvað við erum fámenn þá held ég að við getum verið stolt af því hvað fjölbreytnin og framboðið er mikið. Allan ársins hring eru hátíðar af fjölbreyttum toga svo sem tónlistarhátíðir, matarhátíðir, hönnunarhátíð, kvikmyndahátíð, Gay Pride, Barnamenningarhátíð, Menningarnótt og danshátíð.“

Arna nefnir að í borginni sé fjöldi áhugaverðra útilistaverka. Eitt stærsta þeirra er sjálf Harpa, tónlistarhús Íslendinga, sem stendur við höfnina í Reykjavík og hefur hlotið fjölda viðurkenninga fyrir hönnun, útlit og hljómburð. Arna nefnir einnig fleiri verk svo sem verk eftir listamanninn Ólöfu Nordal en eitt þeirra heitir Þúfa og er skammt frá Marshallhúsinu við Granda. Þúfa er grasi vaxinn hóll með steinþrepum sem leiða upp á topp hólsins. „Ég á fjölmörg uppáhalds útilistaverk, eitt þeirra er Geirfuglinn sem er einnig eftir Ólöfu Nordal en hann stendur í Skerjafirði og horfir í átt að álverinu í Straumsvík. Geirfugl er útdauð tegund en talið er að síðustu tveir geirfuglarnir hafi verið drepnir við Ísland árið 1844.“

Reykjavík loves

Arna segir að 97% af öllum erlendum ferðamönnum sem koma til landsins staldri við í Reykjavík og dvelji þar í lengri eða skemmri tíma. „Þeir eru þá jafnvel að njóta menningar og lista en auðvitað hefur samfélagið og lífið í Reykjavík notið fjölgunar erlendra ferðamanna mað fleiri veitingastöðum, börum og líflegra miðbæjarlífi. Stór hluti sjálfsaflafjár menningarstofnana borgarinnar kemur frá erlendum gestum. Það þýðir að við höfum getað styrkt rekstur og starf okkar safna og við sem Íslendingar njótum þess. Þetta er dæmi um jákvæð áhrif ferðaþjónustunnar.“

Arna segir að Reykjavíkurborg vinni að því með nágrannasveitafélögunum að dreifa erlendum ferðamönnum um höfuðborgarsvæðið undir heitinu „Reykjavík loves“. „Þannig viljum við freista þess að samræma markaðssetningu sveitarfélaganna og dreifa álagi betur um svæðið vegna síaukinnar fjölgunar ferðamanna til borgarinnar. “

Arna segir að ef ferðamenn vilji fá mikið fyrir lítið þá geti þeir keypt gestakort – City Card – sem fást meðal annars í menningarhúsum og í Upplýsingamiðstöð ferðamanna í Ráðhúsi Reykjavíkur. „Þá geta ferðamenn heimsótt söfn, menningarhús, sundlaugar og farið í strætisvagnaferðir á hagstæðara verði en ella.“
Hægt er að nálgast upplýsingar um menningu og aðra afþreyingu í borginni á vefnum: Reykjavikloves.is