Reynisfjara

Festum ekki náttúruundrið Reynisfjöru í sessi sem dauðagildru!

Fimm banaslys í Reynisfjöru á sjö árum er að sjálfsögðu fimm slysum of mikið og ákall um að bregðast við. Fjaran er náttúruundir og hefur aðdráttarafl í samræmi við það. En sama á við um Reynisfjöru og margt annað í umhverfi okkar að náttúruundur getur verið sakleysið uppmálað en lífsháskalegt ef því er ekki sýnd varúð og virðing við hæfi. Þetta gengur mörgum illa að skilja en þá verður að bregðast við með viðeigandi ráðstöfunum frekar en að loka fjörunni.

Reynisfjall gengur alveg fram að sjó. Sunnan við syðri enda þess eru drangar þrír allhávaxnir og  sker sem öll eru lág og oftast á kafi. Stærsti drangurinn er lengst frá landi og er almennt kallaður Langhamar; hann er þunnur mjög en langur nokkuð og mjög sérkennilegur því upp úr honum standa aðrir þrír drangar, býsna háir. Elstu gamlir menn segja að í þeirra minni hafi verið samfastir tveir vestari drangarnir á skeri þessu að ofanverðu og hefur drangurinn þá hlotið að líkjast helst þrímöstruðu skipi undir seglum.

Annar drangurinn er kallaður ýmist Háidrangur eða Skessudrangur og hefur sá samt ekki skessulegan vöxt því hann er hár mjög en mjór – að því undanteknu vera með stórt gat að neðanverðu. Toppurinn líkist helst höfði og hálsi og elstu menn segja að öðrum megin hafi á sínum tíma verið svo sem út stæði krepptur handleggur og gat verið í gegn þar sem olnbogi átti að vera.

Þriðji drangurinn heitir Landdrangur, svo nærri landi að oft má ganga má þurrum fótum út í hann frá landi. Ekki hefur hann neina merkjanlega mynd mannveru eða trölls.

Ljósmynd og texti steinipip