Á Reynisvatnsási er verið að byggja 50 íbúðir í bæði raðhúsum og einbýlis-húsum og er meðalstærð þeirra um 200 m².

Búseti stendur fyrir byggingu 18 raðhúsaíbúða sem eru í fjórum raðhúsalínum á tveimur hæðum. Tíu húsanna eru á bilinu 145-148 m² að stærð en hin átta, sem eru með bílskúr, eru 176 m². Vinnu miðar vel og er búið að afhenda helming húsanna en framkvæmdir standa yfir við hinn hlutann. Afhending þeirra er ráðgerð í tveimur áföngum 2018 í lok febrúar og í nóvember.

„Hluti íbúa sem eru fluttir inn bjuggu áður í Grafarholti en vildu stækka við sig og fá betri tengingu við skóla og íþróttastarf. Markhópurinn okkar er fjölskyldu- og barnafólk,“ segir Hlynur Örn Björgvinsson, tækni- og gæða-stjóri hjá Búseta. Hann segir staðsetninguna frábæra; stutt í skóla, á íþróttasvæði Fram og á Úlfarsfell, auk þess sem á næstu árum muni rísa bæði sundlaug, bókasafn og menningarmiðstöð á svæðinu.