Richard Serra – síðasta sýningarhelgi

serra_click

Richard Serra, Vesturey I, II, III, 1991. Ljósmynd: Berghildur Erla Bernharðsdóttir.

Nú fara að verða síðustu forvöð til að sjá sýninguna Áfanga eftir bandaríska listamanninn Richard Serra en henni lýkur sunnudaginn 20. september.

Á sýningunni eru teikningar og grafísk verk sem Serra gerði í tengslum við umhverfislistaverkið Áfanga sem hann gerði í Viðey árið 1990. Að auki eru myndbönd af uppsetningu verksins út í Viðey og viðtal við listamanninn.

Áfangar er umhverfislistaverk sem leggur undir sig alla Vestureyju og setur sterkan svip á ásýnd hennar og umhverfi. Verkið er úr stuðlabergi og vísar þannig til jarðsögu eyjarinnar en í henni má finna stuðlabergsinnskot og aðrar stórbrotnar bergmyndanir. Verkið samanstendur af 18 stuðlabergsdröngum sem standa tveir og tveir saman og mynda hring um eyjuna.

Á sýningunni í Hafnarhúsi eru 19 teikningar sem Serra gerði af Áföngum árið 1990 með olíukrít á pappír og gaf Listasafni Íslands. Auk þeirra eru 30 grafísk verk – ætingar og þrykk – frá 1991 sem eru í eigu Landsbanka Íslands. Þessi verk eru ekki hugsuð sem skýringarmyndir eða myndskreytingar af umhverfisverkinu, heldur eru þau tilraun til að umbreyta því í nýtt tungumál.

Richard Serra (f. 1939), er einn virtasti myndlistarmaður samtímans. Mörg leiðandi söfn hafa haldið einkasýningar á verkum hans, m.a. Metropolitan Museum í New York árið 2010 og MoMA, sem hefur heiðrað hann með tveimur yfirlitssýningum, árin 1986 og 2007. Verk hans hafa verið sýnd tvisvar á Feneyjatvíæringinum og fjórum sinnum á Documenta sýningunni í Kassell, Þýskalandi. Og þannig má lengi telja enda hefur Serra verið lýst sem risa í myndlist samtímans  („giant of modern art“).

Listasafn Reykjavíkur

Sími 590-1200
[email protected]
Hafnarhús
Opið daglega 10-17, fimmtudaga 10-20

Kjarvalsstaðir
Opið daglega 10-17

Ásmundarsafn
Opið maí – sept 10-17 / okt. – apríl 13-17