samhljomarSamhljómur 16 strengja
Sunnudaginn 30. nóvember kl. 20 kemur Strengjakvartettinn Siggi fram á tónleikum tónleikaraðarinnar Hljóðön í Hafnarborg. Þar verður hugmyndum um kvartettformið velt upp og sameining hljóðfæranna fjögurra í einn hljóðheim hugleidd. Á efnisskrá eru verk eftir Giacinto Scelsi, Naomi Pinnock og frumflutningur bæði Strengjakvartetts nr. 2 eftir Atla Heimi Sveinsson og nýs verks eftir Unu Sveinbjarnardóttur.
Strengjakvartettinn Siggi kom fyrst fram á tónleikum samnorrænu tónlistarhátíðarinnar UNM sem haldin var árið 2012. Þar strauk kvartettinn strengi, jafnt sem statíf og hljóðfærabúka við góðan orðstír. Hópurinn er skipaður Unu Sveinbjarnardóttur og Helgu Þóru Björgvinsdóttur, fiðluleikurum, Þórunni Ósk Marínósdóttur, víóluleikara og Sigurði Bjarka Gunnarssyni, sellóleikara.
Hljóðön er tónleikaröð tileinkuð tónlist 20. og 21. aldar þar sem hugmyndaauðgi og listræn glíma tónskálda leiða áheyrendur inn á áður ókunnar slóðir. Nafn tónleikaraðarinnar skírskotar til smæstu merkingargreinandi hljóðeiningar í hljóðkerfi tungumála, grunneiningar sem púsla má ólíkt saman svo úr verði tilraun til merkingar. Hafnarborg efnir hér til tónleikaraðar þar sem ætlunin er að kynna ólík verk samtímatónskálda úr fremstu röð. Í forgrunni verða verk sem fá best notið sín við þær aðstæður og miklu nánd sem býðst í sal Hafnarborgar og telja má sérstakan í flóru tónlistarsala á höfuðborgarsvæðinu. Tónleikaröðin er styrkt af tónlistarsjóði mennta- og menningarmálaráðuneytis og tónlistarsjóði Ernst von Siemens. Listrænn stjórnandi Hljóðanar er Þráinn Hjálmarsson.

Aðgöngumiðar á tónleikana eru seldir í afgreiðslu Hafnarborgar, á opnunartíma safnsins og klukkustund fyrir tónleika. Hægt er að panta miða í s. 585-5790. Almennt miðaverð er kr. 2500, fyrir eldri borgara og námsmenn kr. 1500
Nánari upplýsingar veita:
Áslaug Friðjónsdóttir, upplýsingafulltrúi, s. 585-5790
Þráinn Hjálmarsson, listrænn stjórnandi, s. 697-7611
Una Sveinbjarnardóttir, fiðluleikari, s. 698-9203