Harry Bilson

Samtal um samtímann

Viðtal við Harry Bilson listamann

Harry Bilson (f. 1948) tekur á móti blaðamanni á vinnustofu sinni á Korpúlfsstöðum. Þetta er staður þar sem sköpunarkrafturinn ræður ríkjum, málverk standa á víð og dreif um rýmið, sem er bæði bjart og hátt til lofts. Frá útvarpinu streyma lágværir klassískir tónar og daufur reykelsis ilmur fyllir loftið. Út um gluggann blasir Úlfarsfellið við. „Þetta er uppáhalds vinustofan mín til þessa“ tilkynnir Harry mér um leið og hann réttir mér bolla með róandi tei og vísar mér til sætis í þriggja metra fjarlægð. Ég nota tækifærið og þakka honum fyrir að samþykkja að hitta mig á þessum síðustu og verstu tímum.
Talið berst óhjákvæmilega að Covid-19 faraldrinum sem nú skekur heimsbyggðina og Harry greinir mér frá því hvernig faraldurinn hefur haft áhrif á sig.

Haraldur Bilson og Þorstína Björg Þorsteinsdóttir.

Harry: Ég og konan mín eigum hund í Cornwall í Englandi sem býður eigenda sinna. Að öðru leyti þá truflar samgöngubannið mig ekki, enda er ég ánægður á meðan að ég get málað. Sú staðreynd að fólki virðist leiðast gerir mig í raun dapran vegna þess að nú er einmitt tækifærið og gera allt það sem fengið hefur að sitja á hakanum. Sjálfur ætla ég að nýta tímann og rifja upp íslenskuna mína, því þrátt fyrir að ég eigi íslenska móður þá flutti ég fimm ára til Englands og missti íslenskuna fljótlega niður.

Blaðamaður: Þú átt heimili bæði á Englandi og Íslandi, en hefur búið á fjölmörgum stöðum í heiminum í gegnum tíðina. Er það lífstíll hjá þér að flakka um heiminn?

Harry: Nei, þetta æxlaðist bara svona og tengist því að ég hef verið starfandi listamaður í yfir fimmtíu ár. Ég hef ferðast og búið um víða veröld vegna vinnu minnar og það má því segja að heimurinn sé heimili mitt.

Blaðamaður: Þú byrjaðir ungur að mála og ert í rauninni sjálfmenntaður í listinni, hvernig kom það til?

Harry: Ég hef verið mjög heppinn að geta unnið eingöngu að listsköpun. Að vísu vildu foreldrar mínir ekki að ég yrði listamaður og hvöttu mig þess í stað til þess að læra hagfræði. Hugur minn stefndi þó í aðra átt. Í fyrstu gat ég ekki lifað af listinni einni saman og vann því ýmiss verkastörf samhliða henni. Sum þessara starfa voru svo þreytandi að við lok vinnudags vildi ég frekar fara að sofa en að mála. Ég sýndi á ýmsum stöðum en það var einn ákveðinn staður sem veitti mér brautargengi og það var Bayswater Road í London. Þar safnaðist fólk saman á sunnudögum til þess að skoða málverk sem hengd höfðu verið á grindverk meðfram götunni. Þessi staður veitti mér tækifæri til þess að hitta fólk hvaðanæva að úr heiminum og skapa tengslanet. Hann opnaði einnig augu mín fyrir því að það þýðir ekki að bíða eftir því að aðrir komi til þín, heldur þarft þú að teygja þig til annarra.

Blaðamaður: Hvernig myndir þú lýsa þinni eigin list?

Harry: Ég hef gert ýmsar tilraunir með stíla og farið allt frá ofurraunsæi til abstrakt listar. Ég býst við að ég sé þekktur fyrir ákveðinn stíl í dag, en ég er ekki bundinn honum. Ég mála fyrst og fremst það sem ég hrífst af eins og andstæðum í litum og óvenjulegum myndbyggingum; ásamt því að húmorinn er aldrei langt undan. Í mínum huga er merking ekki eitthvað sem listamaðurinn miðlar til áhorfandans og þar við situr. Þvert á móti hef ég lært að fólk túlkar verkin mín á svo mismunandi hátt að mig hefði aldrei getað órað fyrir því. Í gegnum tíðina hef ég aftur á móti tileinkað mér að vanda titlana á verkum mínum og eru þeir oftar en ekki tvíræðir. Ég legg áherslu á titla vegna þess að ég sé þá sem mikilvægan hlekk á milli verksins, áhorfandans og mín sjálfs.

Harry sýnir mér nokkur nýleg verk, en það er nýjasta myndin hans sem fangar athygli mína. Hún ber nafnið The Quarantree og sýnir dökkt tré í náttúrunni. Ef vel er að gáð má sjá tvo svartþresti á toppi trésins í nákvæmlega ráðlægðri tveggja metra fjarlægð frá hvor öðrum.

Harry: Það er ekki ætlun mín að særa neinn með þessu verki. Hinsvegar hefur það ávallt gagnast mér að fást við slæma hluti með því að setja þá í kómískt samhengi. Eins undarlega og það kann að hljóma, þá kann það sem er að gerast í heiminum í dag vera það að náttúran sé að taka stjórnina af höndum okkar vegna þeirra óganga sem við stefnum í með allri þessarri ofgnótt í framleiðslu á óþarfa hlutum.

Blaðamaður: Náttúran hefur vissulega notið góðs að ýmsum viðbrögðum stjórnvalda við faraldrinum, eins og til dæmis minnkandi flugsamgöngum.

Harry: Já því, en einnig öllu sem viðkemur framleiðni eins og mengandi iðnaði. Það er áhugavert að hugsa til þess að töluvert hefur dregið úr hnattrænni hlýnum á þessum stutta tíma.

Harry: Það var bandarískur vísindamaður að nafni Carl Sagan sem bað Nasa um að láta Voyager gervihnöttinn taka ljósmynd af jörðinni á ferð sinni að ystu mörkum sólkerfisins. Þetta var snilldar hugmynd þar sem að þessi ljósmynd sýnir okkur svart á hvítu hversu lítilvægleg jörðin er í stóra samhenginu og það sama má segja um mannkynið.

Blaðamaður: Hugsanlega er það hugmyndin um að maðurinn sé yfir náttúruna hafinn og eigi þar að leiðandi að nýta hana eftir eigin geðþótta sem er að gera út af við jörðina. Við þekkjum þó ekki náttúruna eins vel og við viljum vera láta.

Harry: Vandamálið er vissulega einnig tengt hugmyndinni um mikilvægi okkar. Mikilvægi sem er til staðar þrátt fyrir að við höfum lítið vægi í hinu kosmíska samhengi. Allt er jafn mikilvægt og allt er samtengt. Sumt fólk á fáránlega mikið af peningum eða heldur að það sé mikilvægara en aðrir og kemur jafnvel fram við annað fólk í samræmi við það. Raunin er sú, að allt fólk hefur sama vægi. Vonandi munu þessir erfiðu tímar verða til þess að fólk átti sig betur á þeirri staðreynd.

Tími okkar Harry er á þrotum og ég verð að viðurkenna að þegar ég kveð hann, þá örlar fyrir örlítilli von í hjarta mínu um að eftir heimsfaraldurinn skapist tækifæri til þess að byggja heim sem er í betra jafnvægi við náttúruna. Að minnsta kosti er ég sannfærð um að listræn hugsun muni fleyta okkur í áttina þangað.

Fyrir þá sem vilja kynna sér verk eftir Harry þá má nálgast þau á heimasíðunni hans Bilson direct. Verkin eru til sölu í Reykjavík, bæði í andyri Hörpunnar tónlistar- og ráðstefnuhúss og í Gallerí Fold á Rauðarárstíg.

Harry Bilson

Texti og Ljósmyndir: Helga Kjartansdóttir