Ásgerður Búadóttir 1920-2014

Ásgerður Búadóttir 1920-2014

Ásgerður Ester Búadóttir (4. desember 1920 – 19. maí 2014) var frumkvöðull nútíma veflistar á Íslandi. Hún var sæmd fálkaorðunni árið 1993, og auk þess naut hún heiðurslauna Alþingis frá árinu 1995. Ásgerður tók þátt í samtals 70 samsýningum og hélt 15 einkasýningar bæði hér á landi og út um allan heim.

Ásgerður fæddist árið 1920 í Borgarnesi, og var hún næst yngst fimm barna þeirra Ingibjargar Teitsdóttur og Búa Ásgeirssonar. Þriggja ára gömul fluttist hún svo til Reykjavíkur, þar sem hún ólst upp. Ásgerður var gift Birni Th. Björnssyni, listfræðingi og rithöfundi, og áttu þau þrjú börn saman.

Árið 1942 innritaðist hún í Handíða- og myndlistaskóla Reykjavíkur þar sem hún lærði að teikna og mála. Því næst stundaði hún nám við málaradeild Vilhelms Lundstrøm í Konunglegu listaakademíunni í Kaupmannahöfn til ársins 1949. Á meðan hún var úti kviknaði áhugi að gera eitthvað annað en að teikna og mála, en þá uppgötvaði hún ullina. Eftir að hafa séð listvefnað í fyrsta sinn kviknaði áhugi hennar á því listformi, og haustið 1949 fjárfesti hún í litlum vefstól sem hún flutti síðan með sér heim til Íslands. Ásgerður var sjálfmenntuð í veflist, en vefnaður var hvorki kenndur við Handíða- og myndlistaskólann né Konunglegu listaakademíuna.

Sjá fleiri greinar um myndlistamenn klikka hér

RELATED LOCAL SERVICES