Fjölskylduleiðsögn í Safnahúsinu

Fjölskylduleiðsögn í Safnahúsinu

Sunnudaginn 3. mars kl. 14 verður fjölskylduleiðsögn í Safnahúsinu við Hverfisgötu. Gengið verður um sýninguna Sjónarhorn – ferðalag um íslenskan myndheim sem geymir allskonar forvitnilega gripi úr sex mismunandi söfnum.

Þema leiðsagnarinnar er dýrin eins og þau birtast í gripum sýningarinnar. Til dæmis verða skoðaðir hlutir úr dýraafurðum, dýr á ljósmyndum, teikningum og málverkum og styttur af dýrum. Sjá má fugla- og eggjateikningar, kynjaskepnur í norrænni goðafræði og fleira eins og til dæmis uppstoppaða rjúpu og fálka á hraunnibbu.

Verið öll velkomin, enginn aðgangseyrir er að leiðsögninni.

Ljósmyndum safnað í 111 ár
Þriðjudaginn 5. mars kl. 12 flytur Inga Lára Baldvinsdóttir sviðsstjóri Ljósmyndasafns Íslands erindi í fyrirlestrasal safnsins. Fyrirlesturinn ber heitið Ljósmyndum safnað í 111 ár.

Söfnun ljósmynda varð hluti af starfsemi Þjóðminjasafns Íslands árið 1908 þegar sérstakt Mannamyndasafn var sett á fót sem safnheild innan safnsins. Ljósmyndir urðu síðan æ stærri hluti af safnkosti Þjóðminjasafnsins eftir því sem leið á 20. öldina. Nú þegar liðið er fram á 21. öldina eru ljósmyndir orðnar stærsti hluti safnkostsins í magni talið.

Í erindinu fjallar Inga Lára Baldvinsdóttir um Ljósmyndasafn Íslands í Þjóðminjasafni, þróun þess á þessari rúmu öld og fer yfir helstu viðfangsefnin í starfi þess.

Verið öll velkomin.

RELATED LOCAL SERVICES