Sigmundur Davíð Gunnlaugsson vill leysa vandamálið með Landspítalann

„Sæll Sigmundur og velkominn í viðtal hjá Landi og Sögu. Þú hefur haft sterkar skoðanir á skipulagsmálum og meðal annars staðsetningu Landspítalans. Er þetta ekki löngu afgreitt mál?“

„Þetta eru þau rök sem maður heyrir oftast, það sé búið að eyða svo miklum tíma og fjármunum í undirbúninginn og þess vegna þurfi að gera þetta svona, sem þýðir í raun að mistökin hafi verið svo lengi í undirbúningi að þeim megi ekki breyta og því síður afstýra. Staðreyndin er hins vegar sú að því fyrr sem mistök eru leiðrétt þess minna verður tjónið. Kostnaður við undirbúning er ekki nema brotabrot af framkvæmdakostnaði. Þó spítalinn hafi verið í undirbúningi í marga áratugi, þá hafa hugmyndirnar breyst verulega á þeim tíma. Þannig að síðast þegar hugað var að uppbyggingu Landspítalans á árunum frá 2003 til 2005 hafi áætlanir verið allt aðrar en lagt var upp með og jafnframt aðrar en þær sem nú eru fyrirhugaðar. Enda hefur þekkingu fleygt fram um hvernig eigi að haga byggingu spítala. Miklabrautin og Hringbraut eru í stöðugri þróun sem ekki sér fyrir endann á. Sem dæmi um hvernig hugmyndir þróast má nefna hús sem í daglegu tali er nefnt Tanngarður en heitir held ég Læknagarður, það hús átti að vera hluti af gríðarlega stóru komplexi Landspítalans fyrir um 40 árum. Húsið var byggt 1978, enn í dag stendur brunagaflinn ber og steypustyrktarjárn upp úr jörðinni, sem minjar um liðinn tíma. Nú er ætlunin að byggja við þetta hús sem hluta af nýrri byggingu og skipulagi Landspítalans. Það finnst mér ekki góð hugmynd. Nær hefði verið að nota þetta tækifæri sem felst í því hvað framkvæmdin hefur dregist til að hugsa málið upp á nýtt.“

 

Skipulagið

„Nú ef ég byrja aðeins á skipulaginu sjálfu þá finnst mér það ekki gott. Þarna stendur til að byggja gríðarlega stóra kassa, mjög þröngt, sem passa engan veginn inn í skipulag, nánast í gamla miðbænum. Gert er ráð fyrir gríðarstórum og ósmekklegum, ferköntuðum kössum með þröngum vindgöngum, sem fólki er ætlað að hlaupa um og á milli. Þetta er ekki beinlínis aðlaðandi staður að koma á og því finnst mér hann ekki henta sjúkrastofnun, hvað þá þjóðarsjúkrahúsi. Menn eru sífellt að gera sér betur grein fyrir hvað umhverfið skiptir miklu máli. Rannsóknir hafa meðal annars sýnt að umhverfið getur haft veruleg áhrif á heilsu- og batahorfur sjúklinga. Það að þjóðarsjúkrahúsið sé byggt upp með þessum ómanneskjulega hætti er því mjög óskynsamlegt svo ekki sé minnst á samgöngukerfið. Sú staðreynd að þetta er ekki lengra komið á 40 árum felur í sér fjölmörg tækifæri, ekki einungis vegna umhverfisins heldur einnig til að uppfæra nýjustu þekkingu um hvernig best sé að hanna spítala. Bent hefur verið á að nýlega hafa verið byggð nokkur stór sjúkrahús í Svíþjóð og Danmörku á stærð við þetta sem reynst hafa með afbrigðum vel, og þá iðulega utan við bæinn í grænu umhverfi sem valið er með því markmiði að sjúklingum, aðstandendum og starfsfólki líði sem best. Sjálfur hef ég nefnt hugsanlega staðsetningu við Korpúlfsstaði og Vífilsstaði. Hér við Hringbraut er ómögulegt að taka við allri þeirri umferð sem nauðsynleg er fyrir starfsemina. Þá segja menn það er þá bara ágætt til að venja fólk við að nota ekki einkabíla. Þeir sem að þessum áætlunum koma gera beinlínis ráð fyrir því að einungis 25-33% af þeim sem koma á spítalann komi með bílum. Með öðrum orðum, það er beinlínis verið að nota þetta verkefni, þjóðarsjúkrahúsið, til að þvinga fólk til að nota ekki bílana sína. En hver verður afleiðingin?

Auðvitað gera allir menn með heilbrigða skynsemi sér grein fyrir því að auðvitað munu miklu fleiri en 25-33% allra einstaklinga sem koma á spítalann, koma í bíl. Og hver verður þá afleiðingin? Þetta mun einfaldlega þýða það að það verða endalaus vandræði með bílastæði með tilheyrandi aðflæðis- og fráflæðisvanda, ekki einungis við spítalann heldur í öllu hverfinu sem umlykur hann.

Kosturinn við að byggja svo stóran vinnustað við ytri mörk borgarinnar er auk þess sá að það yrðu byggðar nýjar samgönguæðar í stað þess að troða vinnustaðnum á gamla miðbæinn þar sem samgönguæðar eru nánast fullnýttar og munu augljóslega ekki ráða við stóraukna umferð, jafnvel miðað við bjartsýnustu spár. Teppun umferðar að þjóðarsjúkrahúsi er ekki einungis óþægileg heldur beinlínis yfirvofandi vá. Því er nauðsynlegt að spítalinn sé utan þéttustu byggðarinnar þar sem álagið á samgönguæðarnar er mest. Þar hafa verið nefndir ýmsir staðir, svo sem Vífilstaðir og Keldur.“

 

Hönnun spítala

„Hafa ekki orðið miklar breytingar á hönnun spítala frá því að byrjað var að hanna Landspítalann við Hringbraut?“

„Jú, og því er hörmulegt ef við látum þetta tækifæri til framfara og hagræðingar fram hjá okkur fara, því framfarirnar eru gríðarmiklar eins og við sjáum í löndunum í kring um okkur. Það er kannski ekki gott að líkja spítala við verksmiðju en eins og verksmiðjuhús eru byggð fyrir flæðilínur er í dag gerð krafa um að uppbygging spítala sé með þeim hætti að starfsfólk og sjúklingar þurfi ekki að eyða óþarfa tíma til ferða innan spítalans. Með því að skipuleggja spítala frá grunni má því spara verulega fjármuni. Auk viðbótarkostnaðar á þetta enn frekar við um sjúkrastofnanir því þar er verið að tefla um líf og heilsu fólks. Menn segja að það sé svo hagkvæmt að nota gömlu byggingarnar. Þetta eru forsendur sem löngu eru fallnar úr gildi. Þó ekki væri nema vegna kostnaðarins við að lagfæra öll þessi gömlu hús. Ef við horfum til húsa svipaðra Landspítalanum þar sem komið hafa upp myglu-, raka- og steypuskemmdir, þar hafa menn verið að yfirgefa heilu stórhýsin svo sem Glitnishúsið við Kirkjusand, sem stendur autt og rætt er um að rífa. Kársnesskóli í Kópavogi þar sem rakaskemmdir fundust og ákveðið var að rífa skólann og byggja nýjan. Orkuhúsið, sem er nýleg bygging og var dýrasta bygging landsins þegar hún var byggð, nú ræða menn í alvöru um að rífa bygginguna. Fleiri dæmi má nefna, Tryggingastofnun er að fara úr sínu húsnæði og það er kaldhæðnislegt að velferðar- og heilbrigðisráðuneytið er flúið úr sínu húsnæði og komið í leiguhúsnæði vegna raka og myglu. Það húsnæði sem verst er farið og frægast fyrir raka og myglu er núna notað sem rök fyrir því að ekki skuli byggja á nýjum og betri stað. Kostnaðaráætlanir við viðgerðir á húsinu eru fullkomlega óraunsæjar og varlega reiknað verður kostnaðurinn a.m.k. nokkur hundruð þúsund á hvern fermetra. Augljóst er að fyrirhuguð húsaþyrping mun aldrei vinna jafn vel saman og heildstæður spítali sem byggður er frá grunni til að bestri nýtingu og hámarks öryggi sé náð.“

Það rifjast upp fyrir blaðamanni Lands og Sögu að gamall bóndi í Skagafirði líkti fyrirhugaðri byggingu Landspítalans við torfbæ. „Í hvert skipti sem fjölskyldan stækkaði var bætt við nýrri burst.“ Sigmundur sagði þetta nákvæmlega sama dæmið.

Um landsbyggðina

„Það er ekki eins og nýjasta tækni í hönnun spítala sé óþekkt á Íslandi sbr. spítalinn á Akureyri.“

„Það er rétt en hitt er annað að það þarf að nýta betur heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni og hverfa frá þessari þéttingarstefnu sem hefur verið ríkjandi hér frá aldamótum eða hér um bil, sum sé að þjappa þessu öllu saman á einn stað, það er Landspítalann. Því var t.d. ranglega haldið fram að sameining Landspítala og Borgarspítala myndi leiða til hagræðingar. En hver var raunin? Útgjöld til heilbrigðismála snarjukust í kjölfar sameiningarinnar. Menn töldu líka rétt að þjappa öllum aðgerðum á Landspítalann en nýta ekki sjúkrastofnanir og þá kosti sem fyrir voru á landsbyggðinni. Þetta byggðist meira og minna á röngum forsendum, sparnaður sem varð á einum stað jók kostnað undir öðrum liðum til dæmis ferðalög sjúklinga o.s.frv. Þessi samþjöppun gerir Landspítalanum sífellt erfiðara fyrir vegna álags sem felst í því að sinna minni aðgerðum sem ættu betur heima annars staðar. Fyrir utan beinan ferðakostnað er ýmis afleiddur kostnaður, t.d. þegar einstaklingar og fyrirtæki ákveða hvar þau ætli að fjárfesta hugsa menn til þess hvernig þjónustu sé að vænta, svo sem menntunar, og síðast en ekki síst heilbrigðisþjónustu. Þannig að með þjöppunarstefnunni er verið að veikja grunnstoðir samfélaganna á landsbyggðinni. Það er ekki bara félagslega ranglátt heldur óhagkvæmt.“

Kynntur til leiks

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson stundaði nám í hagfræði og stjórnmálafræði við Háskóla Íslands, Kaupmannahafnarháskóla og við Háskólann í Moskvu. Að því námi loknu nam hann hagræn áhrif skipulagsmála við Oxfordháskóla. Sigmundur hefur rannsakað og bent á hvernig aðlaðandi umhverfi og verndun menningararfs geta haft mikil og jákvæð efnahagsleg áhrif. Sigmundur hefur góðfúslega fallist á að Land og Saga fái að birta viðtöl við hann um skipulagsmál víðs vegar í borginni og munu þau birtast í næstu blöðum.

Viðtalið að þessu sinni er um Landspítalann.

Viðtalið tók Sigurður Þórðarson