Slá á þráðinn

Slá á þráðinn

Síminn kom til Íslands árið 1906, með sæstreng frá Skotlandi í gegnum Færeyjar. Fjölmenntu bændur til Reykjavíkur það ár til að mótmæla lagningu símalínu þvert í gegnum sveitir landsins. Þeir höfðu tröllatrú að þetta væri gömul og dýr tækni að leggja símastaura upp að hverjum bæ, hringinn í kringum Íslands. Tæknin yrði fljótlega þráðlaus, enda kom það líka á daginn, reyndar áttatíu árum seinna. Á Íslandi í dag eru 110.000 með virkar fastlínuáskriftir, stór hluti fyrirtæki, og hvorki meira né minna en hálf milljón farsímanúmer í notkun hjá þjóð sem telur rúmlega 360 þúsund. Í dag eru símar ekki bara símar, þetta eru snjalltæki og myndavél í einum pakka. Google segir að á síðasta ári hafi verið teknar 1.4 trilljónir mynda, og 99,9% á snjallsíma. Það eru fleiri myndir en voru teknar fyrstu 180 ár ljósmyndunarinnar. 

Gamli símaklefinn frá Lækjartorgi er nú staðsettur á Árbæjarsafni. Það er enginn símasjálfsali í notkun á Íslandi í dag.
Mikið er þetta fallegt sagði þessi Pólska frú, og reif upp farsímann til að ná þessu augnabliki á filmu, efst í Elliðaárdalnum.
Síminn er orðin meira en bara sími, þeir bestu eru með framúrskarandi myndavél með mörgum linsum.

Reykjavík 17/02/2022  10:20-14:15 – A7R III – A7C : FE 1.4/24mm GM – FE 1.8/135mm GM

Ljósmyndir og texti : Páll Stefánsson