Stúfur er mættur

Ein af skemmtilegustu hefðum í íslenskum samtíma eru jólasveinarnir þrettán, auk foreldra þeirra Grýlu, sem er skass og Leppalúða sem er ekki mikil bógur. Nöfn þeirra koma fyrst fram á prenti árið 1860 í í fyrstu útgáfu af Þjóðsögum Jóns Árnasonar. Röðin, hvernig þeir koma til byggða úr óbyggðum, og gefa góðum börnum eitthvað fallegt í skóinn, er frá skáldinu Jóhannesi úr Kötlum. Kvæðið hans, Jólin koma, kom út árið 1932, og hefur allar götur síðan mótað hugmyndir íslenskra barna um jólasveinana, og Grýlu og Leppalúða. Fyrstur kemur Stekkjastaur 12.desember, síðan Giljagaur, Stúfur, Þvörusleikir, Pottasleikir, Askasleikir, Hurðaskellir, Skyrgámur, Bjúgnakrækir, Gluggagægir, Gáttaþefur, Ketkrókur, og síðastur þann 24 desember, á aðfangadag kemur Kertasníkir. 

Í yfir þrjátíu ár hefur Þjóðminjasafn Íslands, boðið jólasveinunum í heimsókn, til að gleðja bæði börn og fullorðna. Í morgun var fjölbreyttur hópur grunnskólanema að syngja og spjalla við Stúf, meðal annars nýir íslendingar, flóttamannabörn frá Sýrlandi, sem eru í námi í Háteigsskóla. Heimsóknin sem er streymt, byrjar klukkan 11 á hverjum morgni frá 12 desember og fram á aðfangadag. 

Reykjavík  14/12/2021 11:36 – A7C : FE 2.5/40mm G

 

Ljósmynd og texti : Páll Stefánsson