Sumarið 1783 urðu gríðarlegar náttúruhamfarir á Íslandi,.
 

Jón varð fyrir því láni sem barn og unglingur að læra að lesa og skrifa og síðar að fara í Hólaskóla. Ludvig Harboe og Jón Þorkelsson fóru um landið að kanna menntun þjóðarinnar. Þeir hittu Jón og var hann látinn lesa fyrir þá. Þeir borguðu skólagjöld fyrir Jón í Hólaskóla.

Snemma byrjaði Jón að tóna og prédika eins og prestur. Hann gerði sér kirkjur og kapellur úti á túni við vissar þúfur. Jón dreymdi drauma og var ráðning þeirra að hann yrði prestur.

Jón giftist Þórunni Hannesdóttir Scheving. Hún átti jarðir í Mýrdalnum sem varð til þess að þau fluttu búferlum þangað. Síðar fluttu þau að Prestbakka á Síðu. Þá var Jón orðinn prestur og var hann þangað sendur af Guði. Því hörmungarnar sem dundu þar yfir 5 árum eftir að hann flutti voru með þeim hætti að það hefði enginn getað farið í sporin hans Jóns. Eldmessan er t.d. dæmi þess.

IT-12-icelandic issue 12 icelandictimes„Sumarið 1783 urðu gríðarlegar náttúruhamfarir á Íslandi, einhver mestu eldgos sem orðið hafa á jörðinni síðustu árþúsundirnar. Eyjar risu úr hafi, jarðeldar löguðu úr jöklum, og hraun vall úr 25 km langri gossprungu suðvestur af Vatnajökli þar sem síðar heita Lakagígar. Hraunin lögðust yfir 580 ferkílómetra af landi, eitruð aska dreifðist yfir mestallt Ísland, og gosmóða mengaði himinhvolfið. Gosinu og móðunni fylgdu kuldar og harðindi – Móðurharðindin. Móðunnar var vart allt austur í Síberíu, á meginlandi Evrópu sá víða á gróðri sökum eitraðra lofttegunda, og í Skotlandi olli gosið uppskerubresti.“ (Björn Þorsteinsson o.fl.1991:249)

Ætt og æska Jóns Steingrímssonar

Jón Steingrímsson var fæddur föstudaginn 10. september 1728 á Þverá í Blönduhlíð í Skagafirði. Fæðing hans var 6 vikur fyrir vetur. Foreldrar Jóns voru Steingrímur Jónsson og Sigríður Hjálmarsdóttir. Föðurafi Jóns var Jón Steingrímsson (Guðmundssonar) lögréttumaður í Skagafirði. Föðuramma Jóns var Ingiríður Aradóttir (Guðmundssonar). Móðurafi Jóns var Hjálmar Stefánsson (Rafnsson). Móðuramma Jóns var Helga Guðmundsdóttir (Guðmundssonar). Jón var strax skírður af Birni Skúlasyni presti í Flugumýrarþingum. Guðfeðgin Jóns hétu Páll Skúlason og Guðný Stefánsdóttir sem var móðurafa systir Jóns. (Kristján Albertsson.1985:29-30).

4. Screen Shot. Tjarnargigur Craterlake.Þegar Sigríður móðir Jóns var ófrísk af Jóni, dreymdi hana draum. Draumurinn var að hún gengi með hvíthyrndan hrút. Hann ætti eftir að eyðileggja heilar sveitir í landinu. Hún hafði miklar áhyggjur af þessum draumi og  ákvað að segja Páli Skúlasyni drauminn. Páll réði drauminn og sagði henni að hún gengi með sveinbarn. Hann yrði yfirmaður eins og hrúturinn sem væri höfuð og herra hjarðar sinnar. Sveinbarn þetta myndi eyða einhverju slæmu þar sem hann myndi búa í framtíðinni. (Kristján Albertsson. 1973:32-33)

Foreldrar Jóns, Steingrímur og Sigríður bjuggu á Þverá.  Þegar Jón var á tíunda aldursári  dó faðir hans á 37. aldursári. Daginn áður en hann dó hafði hann orðið fyrir miklum fjárskaða. Um nóttina vakti fjósadrengur Jón sem Ásmundur hét og sagði honum að faðir hans væri dauður. Hann sagði einnig. „Guði sé lof, nú má ég lifa og láta sem ég vil“ (Kristján Albertsson.1973:41). Jón átti fjóra bræður, Þorstein, Pálma, Helga og Steingrím. Þegar faðir Jóns dó gekk móðir Jóns með yngsta drenginn Steingrím. Hann dó þegar hann var 11 ára. (Kristján Albertsson.1973:42) Árið eftir að faðir Jóns dó flutti fjölskyldan að Ystugrund.

Fyrsta minningin, skólagangan og draumfarir

Þegar Jón var 4 ára  varð sólmyrkvi. Þessi atburður var að vorlagi og Jón segir frá því að þegar sólin formyrkvaðist þá varð dimmt eins og það væri nótt. (Kristján Albertsson.1973:34)

Jón fór snemma að lesa. Það gekk frekar stirðlega fyrst, því hann hafði lært svo margt utanbókar. Móðir Jóns fór með hann til séra Jóns Magnússonar og lærði hann þar bæði settskrift og fljótaskrift. Einnig kenndi séra Jón honum latínu.  (Aðalsteinn Eiríksson. 1985:9)

Þegar Jón var sjö ára fór hann með föður sínu til gegninga. Pabbi hans kenndi honum að gefa lömbum og að brynna þeim. Þeir fóru út í haga og pabbi hans kenndi honum að halda kindunum í haga. Pabbi hans hafði smíðað litla varreku sem hann notaði til að brjóta ofan af fyrir kindunum. (Kristján Albertsson. 1973:39) Stundum fór frænka Jóns með honum sem hét Guðfinna. Í eitt skipti sem þau voru saman í gegningum fældist hesturinn og fleygði þeim  af baki. Lágu þau í roti þar lengi vel. Þegar farið var að leita að þeim um kvöldið fundust þau  ráfandi og blóðug.

Snemma fór Jón að tóna og prédika eins og prestur. Hann stóð uppá stóru keri í búrinu og tónaði.  Móður hans leiddist þessar embættisgerðir sonar síns. Hann gerði sér þá  kirkjur og kapellur út á túni við vissar þúfur. (Kristján Albertsson.1973:40)

Jón fór að dreyma undarlega drauma. Dreymdi hann að hann væri í stríði við Tyrki og var það alltaf í kirkjugörðum. Dreymdi hann að hann fékk bæði högg og sár frá Tyrkjunum. Sagði hann presti sínum draumana. Réði prestur draumana: „Djöfullinn er farinn að freista þín og skelfa; með betri hlut en þú nærri getur er guð að benda þér, og stunda þú að lifa sem best. Þetta er ráðningin: Þú átt að verða prestur og meiri en ég, þar þér þótti kirkjugarðarnir margir vera, en munt eiga að berjast við einhverja balstýruga menn.“ (Kristján Albertsson.1973:46)

Jón fótbrotnaði á annan í páskum,  sama dag og hann hafði sagt móður sinni ósatt um að hann væri veikur og gæti þess vegna ekki komið með henni í kirkju. Gert var að fótbrotinu og hann komst ekki á fætur fyrr en á uppstigningardag og þá með staf. (Kristján Albertsson.1973:46-47)

Ludvig Harboe og Jón Þorkelsson fóru um landið að kanna menntun þjóðarinnar. Jón var látinn lesa fyrir þá. Þeir sendu hann í Hólaskóla. Staðarhaldarinn Skúli Magnússon ætlaði ekki að taka snáða í skólann vegna fátæktar en Ludvig og Jón borguðu þá skólagönguna fyrir Jón. (Aðalsteinn Eiríksson.1985:13)

Á námsárunum fór Jón oft suður á land í ýmsum erindagjörðum. Hann var m.a. að kaupa fisk  og flytja norður í land. (Aðalsteinn Eiríksson. 1985:16) Oft seinna meir þá fór hann í erindagjörðir víða um land vegna kaupa á fiski.

Frá Hólum brautskráðist hann sem stúdent árið 1750. Fór hann þá til móður sinnar. Þrisvar þennan vetur prédikaði hann og fyrstu prédikunina flutti hann á allraheilagramessu. Presturinn spáði því að Jón yrði góður prédikari. (Kristján Albertsson. 1973:83)

Fljótlega eftir brautskráninguna  varð hann djákni á Reynisstað í Skagafirði. Staðarhaldarinn á Reynisstað var Vigfús Jónsson. Hann lést tæpum þremur árum eftir að Jón gerðist djákni þar.

20. Screen Shot. Part of the Laki fissureJón og Þórunn

Þórunn var ekkja Jóns Vigfússonar.  Þau Jón eignuðust 4 börn. Guðlaug dó ung en þrjú komust til fullorðins ára. Það voru Vigfús, Karitas og Jón.

Jón og Þórunn feldu hugi saman. Jón missti djáknaembættið vegna þess að þau Þórunn áttu von á barni áður en þau giftu sig. Segir Jón frá fyrstu samfundum þeirra og segir frá „að undir kom fyrir tíman barnfuglinn Sigríður dóttir mín.“ (Kristján Albertsson. 1973:109)

Jón og Þórunn Hannesdóttir Scheving giftu sig 29 sept. 1753. Séra Halldór gaf þau saman. Þremur dögum áður trúlofaði séra Halldór þau. Brúðkaupsveislan stóð yfir í hálfan mánuð. 90 manns voru í brúðkaupsveislunni. Þegar veislan stóð sem hæst voru veitingarnar búnar og horfði til vandræða. Þá veiddust 60 laxar í ánni við bæinn og vissi enginn um að þar hafi veiðst svona mikið áður. (Árni Hermannsson o.fl. 2000:223) Í veislunni daginn eftir að Jón og Þórunn voru gefin saman segir séra Jón Magnússon við Jón. „Aldrei varstu Jón, verðugur þess að eiga hana Þórunni Hannesdóttur, þó það verði nú svo að vera“  Bróðir Þórunnar sagði þá „Stendur þú ei betur með honum frænda þínum? Sá er fuglinn verstur, er í sjálfs sín hreiður drítur.“ (Kristján Albertsson.1973:113)

Jón og Þórunn  hófu sinn búskap á Frostastöðum. Þau eignuðust 5 dætur. Sigríði, Jórunni, Guðnýju, Katrínu og Helgu. Fyrstu tvær dæturnar voru fæddar í Skagafirði.

Árið 1755 ákváðu Jón og Þórunn að flytja búferlum að Hellum í Mýrdal. Þórunn átti jarðir í Mýrdalnum.Fór Jón ásamt bróður sínum Þorsteini yfir í Mýrdalinn ásamt vinnumanni til að undirbúa að fjölskyldan flytti búferlum. Ferðin var mesta þrekraun. Þegar þeir voru staddir á Biskupsþúfu tjölduðu þeir og um nóttina varð mjög vont veður. Það snjóaði svo mikið að tjaldið fór á kaf. Það var mikið lán að snjórinn hefði ekki sligað tjaldið. Þegar þeir komu að Hamarsholti, sem er efsti bær í Vestur-Hreppum, þá þökkuðu þeir Guði fyrir að hafa komist til mannabyggða. Þeir börðu á dyr í Hamarsholti og var kallað að innan hverjir væru þarna á ferð. Þeir báðu um gistingu og var þeim vísað í hesthúsið. Síðar hitti Jón bóndann frá Hamarsholti. Þá hafði bóndinn misst allt sitt fé í fjárpest og Jón seldi honum eina kind og gaf honum eitt lamb. (Kristján Albertsson.1973:120-123)

Þegar þeir voru á leið yfir í Mýrdalinn var gos í Kötlu. (Aðalsteinn Eiríksson. 1985:16). Íverustaður Jóns og Þorsteins um veturinn var skemmukofi sem var höggvinn inn í bergið. (Aðalsteinn Eiríksson. 1985:23). Vinnumaðurinn Jón Þorgeirsson fór til Vestmannaeyjar og lést þar um veturinn. (Kristján Albertsson. 1973.:120)

Fyrsta veturinn sem Jón var í Mýrdalnum  lærði hann formennsku til sjós.  Hann var formaður í 5 ár. Hann fékk sér góðan bitamann sem Sveinn hét og réru þeir marga róðra. Á þessum fimm árum varð aldrei óhapp og þakkaði Jón Guði fyrir varðveisluna.

Næsta vor flutti Þórunn og fjölskylda til Jóns og þau hófu búskap á Hellum. Búskapurinn á Hellum gekk mjög vel. Með búskapnum og sjósókninni  drýgði Jón tekjur sínar með silungsveiði og fuglatekju.  Ári síðar fluttu svo móðir Jóns, systkinin hans og  Jórunn dóttir Jóns og Þórunnar yfir í Mýrdalinn. Pálmi bróðir hans flutti svo aftur norður tveimur árum síðar.

Laki

Lakagigar

Læknis- og prestsstörf

Þegar Jón bjó á Hellum byrjaði hann að stunda læknisstörf. Hann lærði læknisfræði og skurðlækningar síns tíma. Dvaldi oft fólk hjá Jóni og Þórunni vegna þessa. Einnig var Jón oft sóttur til að hlynna að sjúkum um nálega allt Suðurland. Hann tók ekki fé fyrir ferðir sínar og oft gaf hann fólki meðulin því lítið var um peninga til að borga fyrir þau.  Bjarni Pálsson landlæknir lét Jón fá öll þau sjúkragögn sem með þurfti. Jón stundaði læknisstörf í 17 ár. (Aðalsteinn Eiríksson.1985:25)
 
Þegar þau hjón höfðu dvalið á Hellum í fimm ár  var Jón vígður  til prests í Sólheimaþingi. Vígsluathöfnin fór fram í Skálholti. (Ráðning drauma stráksins í Skagafirði hafði ræst). Þau sæmdarhjón fluttu að Felli sem var við bakka Klifanda. (Aðalsteinn Eiríksson. 1985:26). Á Felli vann hann að miklum endurbótum á jörðinni. Þóttu verk hans það mikið afrek að hann var sæmdur af konungi “medalliu” og peningaverlaunum fyrir verk sín. Einnig var honum veitt viðurkenning fyrir læknisstörf og mannúðarverk. Jón var fyrsti Íslendingurinn sem var sæmdur “medalliu” og var viðurkenningin afhent á Þingvöllum. Þar voru staddir Skálholtsbiskup, stiftamaður og flest stórmenni þjóðarinnar. (Aðalsteinn Eiríksson. 1985:27)

Í ýmsum raunum lentu  Jón og Þórunn. Börn Þórunnar sem hún átti með Jóni Vigfússyni, ólust upp hjá þeim. Jón Scheving fóstursonur Jóns  var óstöðugur, brúkaði pretti og var ekki skilvís. Hann var sendur til Kaupmannahafnar og fékk allan sinn föðurarf. Þessi ráðstöfun var gerð í von um að Jón sæi að sér. Kom Jón aftur til Íslands næsta vor og seldi hluta af jörð móður sinnar sem var í Skagafirð. Einnig seldi hann eignir sem hann og bróðir hans áttu saman. Eftir það fór Jón til Danmerkur. Jón Steingrímsson  fór á fund sýslumanns og gat aftrað sölunni áður en eignin var þinglýst nýjum eiganda. Jón þurfti s.s að kaupa jörðina í Mýrdal aftur til sín svo Vigfús fóstursonur hans gæti búið þar. Þegar Jón Scheving fréttir þetta þá fór hann til Björns Árnasonar og lét hann hafa peninga til að skrökva því að hann hefði drepið Jón fyrri mann Þórunnar fyrir bón Jóns og Þórunnar. (Kristján Albertsson. 1973:155-160) Fór fram rannsókn og  var Björn Árnason fluttur til Íslands til yfirheyrslu. Og kom þá í ljós að Björn og Jón höfðu slegist kvöldið áður en Jón lést og sennilega hafa slagsmálin  haft áhrif á dauða Jóns Vigfússonar. (Kristján Albertsson.1973:163-164) Jón fór á fund Skúla fógeta og sagði Skúli honum þá þessi tíðindi og var miklu fargi létt af Jóni.

Þegar Jón var búinn að vera prestur Mýrdælinga í 17 ár þá ákvað hann að finna sér léttara starf en samt tekjumeira. Þá fékk hann starf á Kirkjubæjarklaustri. Þetta var árið 1778. Fluttist hann og fjölskyldan að Prestbakka og gekk allt mjög vel fyrstu fimm árin. (Aðalsteinn Eiríksson 1985:30)

Jón sagði: “Hér lifðu menn í sælgæti matar og drykkjar, sumir orðnir svo matvandir, einkanlegast þjónustufólk, húsgangslýður og letingjar, að ei vildu nema þá allra bestu og krydduðu fæðu. Drykkjuskapur og tóbakssvall fór að sama lagi, að á einu ári upp gekk hér í gildi, heimboð og þess kyns brennivín upp á 4000 fiska, eftir sem ég með öðrum vitanlega samreiknuðum, er svo hátt steig, að prestar fundust þeir hér, sem ei þóttust geta framflutt með reglu og andakt guðsþjónustugjörð nema fyrir brennivíns tilstyrk, hverjum og svo urðu síðan sín hús í eyði látin, og margra annarra sem féllu á sömu sveif.” (Kristján Albertsson. 1973:344).

Jón sagði líka frá því að margir vissu ekki hversu ríkir þeir væru af sauðpeningi en þó að sumir vissu hvað þeir ættu af sauðpeningi þá fannst Jóni tíundargjörð og afdráttur til kóngs, kirkju og prests hafa minnkað miðað við hvað allt gekk vel.

Jóni bárust fréttir af undarlegum fyrirbærum s.s. vatnsskrímslum í Feðgakvísl í Meðallandi. Eldingu hafði lostið niður í fjárhús og varð lamb fyrir eldingunni. Klukknahljóð heyrðust í lofti og pestarflugur höfðu sést á Síðu. (Aðalsteinn Eiríksson. 1985:35) Þær voru dökkrauðar, gular og svartröndóttar. Þær voru “svo stórar og digrar sem þumalfingursliður er á karlmanni.” (Kristján Albertsson.1973:345). Óvenjumikið var um að lömb og kálfar fæddust vansköpuð.  Jóni fannst þetta allt benda til að þetta væri fyrirboði stórtíðinda og taldi hann að það boðaði eitthvað slæmt. (Kristján Albertsson.1973:345) Jón sagði að Guð hafi bent sér og fleirum, bæði í vöku og svefni að þeir skyldu búa sig undir yfirhangandi og ókomið straff. (Kristján Albertsson. 1973:346)

3. Screen Shot. One of many amazing cinder cones of the Laki fissure.Jarðskjálftakippir og eldgos

Það áraði vel á vormánuðum í Skaftafellsýslu 1783. En á norðurlandi var kuldatíð og hafís var landfastur. Á uppstigningadag, 29. maí byrjuðu jarðskjálftakippir í Skaftafellssýslu

8. júní á hvítasunnuhátíð var veður mjög gott í byrjun dags. “Þá kom upp fyrir norðan næstu byggðarfjöll á Síðunni svart sandmistur og mökkur svo stór, að hann á stuttum tíma breiddi yfir alla Síðuna og nokkuð af Fljótshverfinu, svo þykkt að dimmt varð í húsum og sporrækt á jörðu.” (Kristján Albertsson.1973:346). Þannig lýsti Jón fyrsta degi gossins sem átti eftir að hafa afdrifarík áhrif á alla Íslendinga og áhrifin teygðu sig út fyrir landsteinanna.

Fyrstu dagana eftir gos var mikil úrkoma. Þrátt fyrir mikla úrkomu minnkaði árstraumurinn í Skaftá. Rigningarvatnið var skolleitt og virðist  hafa verið eitrað. Brunablettir komu á nýrúið fé. Göt komu á njólablöð og plöntur. Fólk sveið í augun og á bert hörundið. Einnig áttu margir, sérstaklega þeir sem voru veikir erfitt með andardrátt. (Aðalsteinn Eiríksson.1985:53)

20. júlí, sem var sunnudagur, var hraunstraumurinn aðeins í tveggja kílómetra fjarlægt frá kirkjunni á Síðu. Fólk streymdi til kirkju og óttaðist að það yrði í síðasta skipti sem það gæti sótt kirkjuna því hraunstraumurinn stefndi í áttina að kirkjunni þeirra.
 
Þegar fólkið kom að kirkjunni var þykk hitasvækja og þoka svo að kirkjan sást varla fyrr en fólkið var alveg komið að henni. Á meðan fólkið var í kirkju gekk mikið á. “Skruggur með eldingum svo miklar kippum saman, að leiftraði inn í kirkjuna og sem dvergmál tæki í klukkunum, en jarðhræringin iðugleg” (Kristján Albertsson. 1973:362)

Jón hóf upp raust sína og bað Drottin um miskunn og náð. Hann sagði: “Sú stóra neyð, sem nú var á ferð og yfirhangandi, kenndi mér nú og öðrum að biðja Guð með réttilegri andtakt, að hann af sinni náð vildi ei í hasti eyðileggja oss og þetta sitt hús, þá var og svo hans almættiskraftur mikill í vorum breyskleika.” (Kristján Albertsson.1973:362)  Allir voru að biðja um náð Guðs.  Fólkið virtist óskelft inni í kirkjunni. Allavega fór enginn á meðan á messunni stóð. Guðþjónustugjörðin var jafnlengi  og venjulega.

Á meðan á messunni stóð stöðvaðist hraunið í farvegi Skaftár hjá Systrastapa sem er skammt vestan við Kirkjubæjarklaustur. Fram í október hélst gosið óslitið en síðan slitrótt fram í febrúar næsta ár.

Jón talaði um að prjónaskapur konu sinnar hafi bjargað búi þeirra á þessum erfiðu tímum. 20 manns var í heimili þeirra og prjónaði Þórunn fyrir allt sitt heimilisfólk. Prjónaskapur hennar var mjög vel gerður og  þéttur. Það var leitun að svona góðum  prjónaskap. (Árni Hermannsson o.fl. 2000:232)

Danir söfnuðu mat og peningum

Danir söfnuðu mat og peningum fyrir nauðstadda Íslendinga. Var sent skip um haustið til Íslands en það þurfti að snúa við og hafa vetursetu í Noregi. Um vorið 1784 komst skipið svo loksins til Íslands. Jón fékk sextíu ríkisdali til að ráðstafa sjálfur og sex hundruð ríkisdali í innsigluðu böggli sem hann átti að færa sýslumanni í Vestur-Skaftafellssýslu. Sýslumaðurinn í Vík og klausturshaldarinn á Kirkjubæjarklaustri áttu að skipta þessum peningum á milli þeirra sem ætluðu yfir í Múlasýslu til skepnukaupa. Á leið sinni austur brá Jón sér í læknisferð og á meðan braut klausturshaldarinn upp innsiglið á bögglinum og lét einn bónda hafa 8 ríkisdali og sjálfur tók hann 20 ríkisdali. Svo skipaði hann Jóni að fara með afganginn til sýslumanns. (Aðalsteinn Eiríksson. 1985:90)

Á leiðinni  sátu fyrir Jóni flestallir sóknarmenn hans og báðu hann að útvega sér peninga. Þannig að Jón var í miklum vanda staddur. Vorið 1786 kom fyrirskipun frá stjórninni til biskups og stiftamtmanns að þeir skyldu finna hæfilega refsingu fyrir Jón vegna þess að hann hafi ekki komið bögglinum innsigluðum til skila. Jón hafði miklar áhyggjur af þessu en sem betur fer var dómurinn vægur. Jón átti að biðjast afsökunar opinberlega og borga 5 ríkisdala sekt sem átti að fara til fátækra presta. (Aðalsteinn Eiríksson. 1985:101)

Jón taldi að peningar af söfnunarfénu hafi orðið til hjálpar. Hann keypti sér bát og net fyrir þá 60 ríkisdali sem hann fékk. Á næstu árum notaði hann þennan búnað einkunn til að veiða sel sem synti upp í árósana. (Aðalsteinn Eiríksson. 1985:92)

Þórunn dó 4. okt. 1784. Þá var það þröngt í búi hjá Jóni. Vinur hans Pétur Sveinsson lét hann hafa sauð vegna útfararkostnaðar Þórunnar. Árið 1787 giftist Jón, Margréti Sigurðardóttir. Annaðist Margrét Jón í veikindum  hans. Hagur Jóns vænkaðist að nýju. Dætur hans giftust allar prestum í Vestur-Skaftafellssýslu. Jón lést 11 ágúst 1791. Hann var jarðsunginn á Kirkjubæjarklaustri frá sóknarkirkju sinni. Bein hans hvíla langt frá skagfirsku þúfunum þar sem hann messaði sem lítill drengur en stutt frá þeim stað sem margir báðu Drottinn um hjálp í eldmessunni frægu. (Aðalsteinn Eiríksson. 1985:101).

14. Screen Shot. The destructive fury in the summer of 1783 where glowing fountains reigned.Skaftáreldar og Móðuharðindin

“Gosið átti upptök sín á suðvesturhluta gossprungunnar, þar sem hét Varmárdalur. Varmárdalur og Skaftárgljúfur, sem voru allt að 200 m. djúp, fylltust af hrauni, sem breiddi síðan úr sér á láglendinu á Síðu og eyddi mörgum bæjum.” (Vefsíða: Lakagígar) Gossprungan var um 25 km löng. Hraunið fór yfir 580 ferkílómetra lands.

Áhrif gossins voru gífurleg. Mikið land fór undir hraun. Fólk missti jarðir sínar og hús undir hraunið. Veðráttan breyttist og kólnaði. Óvenjumikið var um hafís. Mistur og móða lá yfir öllu landinu um sumarið svo varla sást til sólar. Aska og eiturefni bárust um allt land og jörð var sviðin, grasið visnaði og heyfengur brást. Skepnurnar dóu vegna heyskorts og flúoreitrunar. (Árni Daníel Júlíusson o.fl. 1991:212) Mannfall var mikið. Sumarið 1785  hafði fimmti hver Íslendingur látist eða um 10 þúsund manns. (Björn Þorsteinsson o.fl. 1991:252). Meira að segja það varð uppskerubrestur á Norður-Skotlandi og kuldatíð var víða um heim vegna Skaftárelda.

Móðan náði víða um heim. Öskuryk barst yfir til meginlands Evrópu og mistur sást í lofti í Kína. (Vefsíða: Skaftáreldar). Einnig náði móðan  alla leið til Síberíu og einnig til Ameríku og Afríku.

Tomas Jefferson (Varð síðar forseti Bandaríkjanna) var mikill áhuga maður um veðurfræði. Hann hélt nákvæma skrá yfir hitastigið á þessum árum. Síðsumar 1783 kólnaði og næstu þrjú árin var mjög kalt. Höfnin í New York lokaðist í 10 daga vegna ísa og sleðafært var um mörg sund sem aldrei áður hafði gerst svo vitað væri. (Vefsíða: Skaftáreldar)

Benjamín Franklin var sendiherra Bandaríkjanna í Frakklandi og bjó hann í París. Hann sagði að þykk bláleit móða skyggði á sólina um alla Evrópu. (Vefsíða: Skaftáreldar)

Í Þýskalandi var sumarið 1783 nefnt bláa sumarið. Þoka og mistur grúfði sig yfir landið allt sumarið. (Vefsíða: Skaftáreldar)

Um sumarið 1783 var undarleg móða eða reykjarþoka í lofti bæði á Englandi og megnilandi Evrópu. Sólin um hádegisbil var ekki bjartari en tungl sem var bak við ský. Sólin var svo rauð og fölleit. (Aðalsteinn Eiríksson. 1985:71)

Gosinu lauk 7. febr. 1784. Móðurharðindunum lauk sumarið 1785. Bólusótt herjaði á landsmenn og það var ekki fyrr en 1787 sem fólki fór að fjölga á ný.  Þá fóru jarðir í Vestur-Skaftafellssýslu að byggjast á nýjan leik. (Árni Daníel Júlíusson o.fl. 1991:212)

Lokaorð

Guð hafði útvalið Jón Steingrímsson sem sendiboða sinn. Ég sé þráð í allri ævisögu hans sem er undirbúningur að því starfi sem Guð hafði útvalið hann í. Jón lærði að lesa og skrifa. Hann fór í skóla. Hann giftist Þórunni sem átti jarðir í Mýrdalnum. Þess vegna flytja þau í Mýrdalinn í áttina að þeim stað sem Guð ætlaði að nota Jón. Hann hlynnir að sjúkum. Hann var örlátur á matargjafir og alla þá hjálp sem þurfti með. Svo gerist hann prestur og  1773 er hann orðinn prófastur fyrir Vestur-Skaftafellsýslu. Eftir langa veru í Mýrdalnum flyst hann yfir á Síðu. Hann sést að á Prestbakka og gerist prófastur í öllu Skaftafellsþingi árið 1779. Fimm fyrstu árin á Prestbakka   gekk vel hjá Jóni. Honum þótti samt lýðurinn fjarlægast Guð. Svo dynur á ógn og skelfing og þá var Jón rétti maðurinn á réttum stað til að standa með fólkinu.

Ýmsar hörmungar og erfiðleikar þurftu Jón og Þórunn að ganga í gegnum. Það hlýtur að hafa verið sárt þegar Jón sonur Þórunnar bregst þeim Jóni og  fær mann til að skrökva því að þau hefðu beðið hann að drepa Vigfús föður Jóns Scheving. Jón varð fyrir illgirni og rógi allt frá barnæsku. Margir áttu í deilum og málaferlum við Jón. Sumt var lítilmannlegt en sumt var gert af stráksskap þegar menn rökuðu allt taglið af reiðhesti Jóns eða skáru alla hnappana af prestshempunni nema efsta og neðsta. Margir öfunduðust út í Jón og fannst honum margir ofsækja hann fyrir vikið.

Jón var með ríkari mönnum fyrir Skaftárelda. Hann lúrði ekki á ríkidæmi sínu heldur hjálpaði öllum eins og hann gat. Þegar Þórunn dó, hjálpar vinur hans honum með útfararkostnað.
Heimildir

Aðalsteinn Eiríksson.1985. Jón Steingrímsson og móðurharðindin 2. útg. Reykjavík, Námsgagnastofnun.

Árni Hermannsson o.fl. 2000. Íslands-og Mannkynssaga NB 1. Reykjavík, Nýja bókafélagið ehf.

Árni Daníel Júlíusson, Jón Ólafur Ísberg og Helgi Skúli Kjartansson. 1991. Íslenskur Sögu Atlas 3. útg. Reykjavík, Iðunn.

Björn Þorsteinsson og Bergsteinn Jónsson.  1991. Íslandssaga til okkar daga. Reykjavík, Sögufélagið.

Kristján Albertsson. 1973. Jón Steingrímsson. Ævisaga og önnur rit. Reykjavík, Helgarfell.

Vefsíða um Skaftárelda 1783: https://www.islandia.is/hamfarir/jardfraedilegt/eldgos/skaftareldar.html

Vefsíða um Lakagíga: https://www.nat.is/travelguide/lakagigar_ferdavisir.htm

https://rosaadalsteinsdottir.blog.is/blog/rosaadalsteinsdottir/entry/549495/