Sumarsólstöðuganga í Viðey

Sumarsólstöðuganga í Viðey
Sunnudagur 21. júní kl. 20:00 – 22:30

Viðey, sunnudagur 21. júní kl. 20:00
Í ár verður gengin sólstöðuganga í þrítugasta og fyrsta sinn í Reykjavík en þetta verður fimmta árið í röð sem gangan fer fram í Viðey. Þór Jakobsson veðurfræðingur mun leiða gönguna eins og fyrri ár.

Videy kvoldstemning-135Þór mun segja okkur frá sólstöðum, sólstöðumínútunni, hátíðum og hefðum í tengslum við sólstöður. Í ár fáum við einnig til liðs við okkur Margréti Leifsdóttur heilsumarkþjálfa til þess að deila með gestum heilræðum um heilsusamlegt og innihaldsríkt líf fyrir líkama og sál. Við munum ganga um sögulegar slóðir á austur hluta Viðeyjar og staðnæmast í fjöruborðinu við varðeld og hefja upp raust okkar og syngja saman áður en við göngum til baka að ferjunni. Við varðeldinn verður hægt að kaupa léttar veitingar fyrir þyrsta göngugarpa. Gönguleiðin er hæfileg en mælt er með góðum skóm og skjólgóðum jakka.

Eins og venja er í sólstöðugöngum verða þátttakendur hvattir til að leggja til málanna en í margmenni er ávallt einhver sem lumar á skemmtilegum fróðleik.

Hin árlega sólstöðuganga hér á landi hefur verið kölluð „meðmælaganga með lífinu og menningunni“. Þá hvíla menn sig á deilumálum og ganga saman í friði og spekt um fallega náttúru. Til þess er Viðey afar ákjósanlegur vettvangur.  Hugmyndin er að einn góðan veðurdag verði sólstöðuhátíð og sólstöðgöngur haldnar samdægurs um alla jörð og að á sólstöðum verði sameiginleg friðar og fagnaðarhátíð mannkynsins.

Siglt verður frá Skarfabakka kl. 20.00 og siglt til baka kl. 22.00. Gjald í ferjuna fram og til baka er 1.100 kr. fyrir fullorðna, 900 kr. fyrir eldri borgara og 550 kr. fyrir börn 7–15 ára í fylgd fullorðinna. Börn 6 ára og yngri sigla frítt.
Við minnum á að handhafar Menningarkorts Reykjavíkur fá 10% afslátt í Viðeyjarferjuna og handhafar Gestakortsins sigla frítt.

Tengiliður: Ágústa Rós Árnadóttir 820-1977