Svart stál af ís

Það eru miklar líkur á því að Katla, ein af stærstu og virkustu megineldstöðvum Íslands fari að gjósa fljótlega. Kötlueldstöðin sem er 30 km í þvermál og rís hæst yfir 1400 m / 4597 ft hæð yfir sjó og er staðsett undir Mýrdalsjökli, syðsta jökli landsins. Ísinn, jökulinn yfir eldstöðinni er 550 m / 1800 ft þykkur að meðaltali. Einkennisgos Kötlu eru basalt sprengigos, með mikilli gjósku. Katla hefur gosið að meðaltali á 40 til 80 ára fresti síðan Ísland byggðist fyrir tæpum 1200 árum, nema núna. Síðast gos eldstöðin árið 1918, fyrir 103 árum, því eru miklar líkur á gosi á allra næstu árum. Katla er fræg að endemum fyrir þær miklu hamfarir, ægistórum jökulhlaupum sem fylgja í kjölfar eldgosana. Ótrúlegt magn af vatni, ís, aur og ösku berst niður á Mýrdalssandinn og eyðir öllu sem verður í vegi jökulhlaupsins. En það var allt hljótt í gær við rætur Kötlujökuls, skriðjökuls sem rennur austur úr Mýrdalsjökli. Örfáir ferðamenn að virða fyrir sér svartklæddan jökulinn, þakinn ösku frá gosinu 1918, og úr Eyjafjallajökli rétt vestan við Kötlu, en hann gaus stóru gosi árið 2010. Katla er líka nafnið á átta þátta Netflix-seríu sem var frumsýnd nú í júní í leikstjórn Baltasars Kormáks (4), Barkar Sigþórssonar (3) og Þóru Hilmarsdóttur (1). 

Voru þig snögg að spotta franska ferðamanninn við jaðar Kötlujökuls á myndinni?

Vestur-Skaftafellsýsla 11/08/2021  14:40 : A7RIV 2.8/100mm

Ljósmynd og texti : Páll Stefánsson