Tækifæri fyrir aukin samskipti

Thomas H. Meister, sendiherra Þýskalands á Íslandi

Samskipti Íslands og Þýskalands á hinum ýmsu sviðum hafa verið töluverð á umliðnum árum og áratugum. Thomas H. Meister, sendiherra Þýskalands á Íslandi, segir ýmis tækifæri til að auka þessi samskipti enn frekar, til hagsbóta fyrir báðar þjóðirnar.

DSC_0007Náttúran, hrjúft landslagið, víðernið og óbyggðirnar eiga stóran þátt í miklum áhuga Þjóðverja á Íslandi. Landið er svo ólíkt hinu þéttbýla og iðnvædda Þýskalandi, að sögn Thomasar H. Meister, sendiherra Þýskalands á Íslandi. Hann segir að þýskir ferðarmenn séu nokkuð frábrugðnir til að mynda breskum og bandarískum ferðamönnum sem sækja Ísland heim. Þjóðverjar komi aðallega yfir sumartímann en aðrir hafi hins vegar í auknu mæli heimsótt landið einnig yfir vetrartímann. Þar að auki dvelji Þjóðverjar alla jafna lengur í landinu en ýmsir aðrir. Hann segir það reyndar vera þekktara en frá þurfi að segja, að Þjóðverjar séu almennt áhugasamir um Ísland. Hins vegar sé jafnframt ánægjulegt hvað áhugi Íslendinga á Þýskalandi hafi aukist mikið á síðari árum, sérstaklega fyrir fjársestingu í nýjum atvinnugreinum.

Meister segir að það sé ekki einungis náttúran sem veki áhuga Þjóðverja á Íslandi. Góður árangur íslenskra fyrirtækja, stofnana og aðila sem vinni að því að kynna landið, sem og almennt vönduð fjölmiðlaumfjöllun, eigi sinn þátt í þeirri þróun sem orðið hefur. Þjóðverjar viti nú vel að hér sé fjölmargt fleira en Gullni hringurinn, hálendið og Mývatn. Íslendingum hafi með eftirtektarverðum hætti orðið verulega vel ágengt á hinum ýmsu sviðum menningarinnar. Þannig hafi fjölmargir íslenskir listamenn skapað sér nafn í Þýskalandi og víða um heim. Allt hafi þetta áhrif til að vekja áhuga á landinu og stuðli þannig að því að fjölga þeim Þjóðverjum sem sækja Ísland heim. Jafnframt aukist enn frekar möguleikarnir á auknum samskiptum milli landanna almennt. „Það er einmitt eitt af mínum verkefnum sem sendiherra hér á landi að vinna að því að auka samskiptin. Þau eru töluverð og hafa verið það lengi, en ég tel næsta víst að það séu ýmis tækifæri sem hægt væri að nýta enn betur,“ segir Meister.

Góðar aðstæður á Íslandi
Thomas H. Meister er hagfræðingur að mennt. Hann hefur starfað í þýsku utanríkisþjónustunni í rúma þrjá áratugi og verið með aðsetur víða um heim. Hann var til að mynda sendiherra Þýskalands í Nýja Sjálandi áður en hann tók við sem sendiherra hér á landi á árinu 2012. Þá hefur hann starfað í Afríku, Norður- og Suður-Ameríku, Þýskalandi sem og víðar í Evrópu.

„Ég tel að aðstæður á Íslandi séu almennt góðar. Ef litið er á hinar ýmsu hagstærðir þá er flest jákvætt. Verðbólga er mjög lág, atvinnuleysi er lítið en hagvöxtur með því mesta sem gerist í Evrópu. Það eru vissulega ýmis verkefni óleyst eftir efnahagserfiðleikana árið 2008. Ekki er hins vegar annað að sjá en að Íslendingar hafi almennt tekist á við þau mál með ábyrgum hætti, ekki þannig að það stefni efnahagslífinu í tvísýnu, heldur hægt og yfirvegað. Ég tel næsta víst að það muni takast að leysa þessi mál. Þó ýmis verkefni séu því enn óleyst þá er ljóst að batinn í efnahagslífinu hefur verið traustur og reyndar eftirtektarverður. Þá standa hinar þrjár stoðir efnahagslífins, fiskveiðar og vinnsla, ferðamannaþjónusta og álframleiðsla, traustum fótum, auk þess sem íslensk fyrirtæki á hinum ýmsu sérsviðum, svo sem gagnaveitur, hugbúnaðarfyrirtæki og orkufyrirtæki, hafa náð athyglisverðum árangri. Í efnahagslegu tilliti er heildarmyndin fyrir Ísland því almennt séð mjög góð.“

Meister segist telja það rétta stefnu í íslenskum atvinnu- og efnahagsmálum, að setja ekki öll eggin í sömu körfuna. Náttúruvernd sé mikilvæg, meðal annars fyrir ferðamannaiðnaðinn, en það verði einnig að horfa til þess sem aðrir þættir atvinnulífsins þarfnast. Heppilegast sé að beina þessu tvennu ekki gegn hvoru öðru. Betra sé að taka á þessum málum af ábyrgð en slá þó ekkert af þeim kröfum sem eðlilegt er að leggja til grundvallar. Íslendingum hafi almennt tekist vel til í þeim efnum.

Vill sjá enn meiri samskipti landanna

„Íslendingar og Þjóðverjar eru að ýmsu leyti líkar þjóðir. Íslensk stjórnvöld starfa almennt til að mynda með mjög svipuðum hætti og þýsk stjórnvöld. Þetta á við um efnahagsmálin. Stjórnvöld í báðum löndunum leggja höfuðáherslu á jöfnuð í hagstjórninni, ekki þannig að það komi ekki í hlut barna eða barnabarna að greiða uppsafnaðar skuldir. Í báðum löndum er lögð áhersla á að laða að erlenda fjárfestingu og heilt yfir litið er enginn munur á afstöðu þjóðanna til pólitískra málefna samtímans. Það á við um Úkraínu, Mið-Austurlönd, Austurlönd fjær, þróunina í Suður-Ameríku og víðar. Í þessum efnum er nánast enginn munur á afstöðu þjóðanna.“

Að sögn Meisters er þó ákveðinn mismunur á hugarfari Íslendinga, annars vegar, og Þjóðverja, hins vegar, svona almennt séð. Íslendingar séu mjög kurteist fólk. Þar með sé hann ekki að segja að Þjóðverjar séu það ekki. Þeir séu hins vegar alla jafna meira blátt áfram en Íslendingar. Þá sýni kannanir að Íslendingar séu almennt hamingjusamir en að Þjóðverjar hafi hins vegar tilheigingu til að vera frekar daprir í samanburði. Telur hann næsta víst að sagan eigi sinn þátt í að skýra þann mun sem þarna er á.

Fyrirmynd í menntamálum
Meister segir ánægjulegt að áhugi Íslendinga á Þýskalandi hafi aukist. Berlín hafi auðsjáanlega ákveðið aðdráttarafl fyrir Íslendinga, sem hafi í sífellt auknum mæli heimsótt borgina, enda sé þar sérstaklega mikið í boði á hinum ýmsu sviðum lista og menningar, sem íslenskir listamenn hafi sjálfir reyndar tekið töluvert þátt í. Fleira gæti þó komið til.

„Samtök iðnaðarins hér á landi telja að þörf sé á að því að auka áhuga ungs fólk fyrir því að leggja stund á iðnmenntun, þar sem þeim sem það gera hafi fækkað mjög. Í Þýskalandi hefur í langa tíma verið í boði nám, sem gæti orðið fyrirmynd hér á landi. Þetta er kallað „duale Berufsausbildung“, og er einstakt í heiminum. Nemendur stunda hefðbundið nám en samhliða því læra þeir ákveðna iðn. Þeir geta því útskrifast í hefðbundnu bóknámi en janframt með full réttindi sem rafvirkjar, smiðir eða í hvaða annarri iðn sem þeir óska sér. Þetta er kerfi sem hefur gengið mjög vel í Þýskalandi, sem gefur bæði góða menntun og góða starfsþjálfun. Íslendingar gætu hugsanlega tekið sér þetta til fyrirmyndar.“

Hann segist vilja nefna annað sem sé einstakt á heimsvísu og sem Þjóðverjar séu almennt stoltir af, og Íslendingar gætu hugsanlega horft til. „Þetta er það sem kallað er „Mittelstand“, og er líklega hvergi annars staðar í heiminum eins öflugt og í Þýskalandi. Þetta eru lítil og meðalstór fyrirtæki, sem hafa verið í eigu fjölskyldna í jafnvel aldir, og sem er enn stjórnað af afkomendum stofnendanna. Það fari yfirleitt ekki mikið fyrir þessum fyrirtækjum í fjölmiðlum en þau séu engu að síður sterk stoð í efnahagslífinu, og stuðli þannig að aukinni i fjölbreytni á vinnumarkaði. Hugsanlega gætu Íslendingar horft til þessa kerfis.“ Að sögn Meisters er „Mittelstand“ (eða miðstétt) kannski frekar afleiðing af öflugri verkmenntun en kerfi eða forsenda sem slík. Hann segir segir að það sé ef til vill engin tilviljun að stærstu fyrirtæki heims í flokki, sem gjarnan er kallaður „hidden champions“, séu þýsk.

Meister segir að það séu því ýmis tækifæri fyrir auknum samskiptum Íslendinga og Þjóðverja á hinum ýmsu sviðum, jafnt í atvinnulífinu sem og á mennta- og menningarsviði. „Liður í því að auka þessi samskipti gæti verið ef fleiri íslensk ungmenni myndu leggja stund á þýsku í framhaldsskólum og notfæra sér tækifæri til verknáms þar, en svo virðist sem nokkuð hafi dregið úr því frá því sem áður var. Það gæti verið ágætis byrjun,“ segir Thomas H. Meister.