Íslenski sjávarklasinn á Grandagarði:

Telur framtíð íslensks sjávarútvegs afar heillandi

Íslenski sjávarklasinn á Grandagarði er drifkraftur nýrra hugmynda og stuðlar að öflugu samstarfi fyrirtækja og frumkvöðla í sjávarútvegi og haftengdri starfsemi. Með sterkari tengingum og samvinnu opnast ný tækifæri til nýsköpunar og atvinnusóknar til framtíðar. Svo langt aftur sem menn hafa getað aflað vitneskju um, hefur maðurinn lagt sig fram við að veiða og ala fisk með öllum tiltækum ráðum hverju sinni. Á því verður engin breyting og með öllum þeim tækniframförum sem hafa átt sér stað stendur íslenskur sjávarútvegur öflugri en nokkru sinni fyrr. Til viðbótar eru stórfelldar framfarir á sviði rannsókna og nýsköpunar sem opna á ný tækifæri, verðmætasköpun og enn frekari eflingu í greininni. Með þessum nýja sjávarútvegi er eðlilegt að kvikni áhugi hjá ungu fólki. Aukin sókn í haftengt nám á undanförnum árum sýnir fram á mikla vitundarvakningu, en betur má ef duga skal og er mikilvægt að viðhalda þessari þróun. Fjölbreytt námsflóra ásamt samvinnu skóla- og atvinnulífs er nauðsynleg forsenda þess að stuðla að áframhaldandi framförum í íslenskum sjávarútvegi.
Íslenski sjávarklasinn er fyrirtæki sem tengir saman frumkvöðla og fyrirtæki í sjávarútvegi og öðrum haftengdum greinum. Fyrirtækið stundar margvíslegar rannsóknir, greiningarvinnu og ráðgjöf til að byggja undir aðalstarfsemi sína sem er að stuðla að framgangi í nýsköpunarhugmyndum og stofnun nýrra fyrirtækja.
Íslenski sjávarklasinn sleit barnskónum í doktorsrannsóknum Þórs Sigfússonar við viðskiptafræðideild Háskóla Íslands. Í rannsókninni voru svokölluð veik tengsl í tengslanetum (netverki) frumkvöðla sérstaklega tekin til skoðunar og það athugað hvernig og að hvaða marki slík tengsl nýtast frumkvöðlunum við framgang verkefna sinna. Við rannsóknina komu fram vísbendingar um að frumkvöðlar úr tæknifyrirtækjum tengdum sjávarútvegi á Íslandi hefðu mun smærra tengslanet en frumkvöðlar úr öðrum alþjóðlegum tæknigeirum atvinnulífsins. Í kjölfarið var 20 frumkvöðlum úr tæknifyrirtækjum tengdum sjávarútvegi boðið til fundar til að ræða samstarf. Á fundinum kom í ljós að sáralítil tengsl voru milli fyrirtækjanna og frumkvöðla þeirra, þrátt fyrir að um væri að ræða fyrirtæki sem flest öll voru ekki í nokkurs konar samkeppni en voru engu að síður að vinna á sömu mörkuðunum með ólíkar tæknilausnir fyrir sjávarútvegsfyrirtæki. Þarna blasti því við augljóst tækifæri til stofnunar formlegs klasasamstarfs.

Fyrstu verkefnin

Íslenski sjávarklasinn varð formlegt rannsóknarverkefni við Háskóla Íslands árið 2010. Það rannsóknarverkefni fólst einkum í kortlagningu allrar starfsemi tengdri hafinu á Íslandi, allt frá fiskveiðum, vinnslu og fiskeldi, til líftækni- og hátækniframleiðslu, rannsókna, flutningastarfsemi og viðgerða- og viðhaldsþjónustu. Þessi víðtæka starfsemi fékk heitið „sjávarklasinn á Íslandi“ og skýrsla um þessa kortlagningu kom út árið 2011. Í kjölfarið var einnig unnið að víðtækri rannsókn á efnahagslegum umsvifum sjávarklasans á Íslandi árið 2010. Síðan þá hafa árlega komið út skýrslur á vegum Íslenska sjávarklasans um efnahagsleg umsvif sjávarklasans á Íslandi 2011, 2012 og 2013.
Í maí 2011 var haldinn opinn fundur þar sem kortlagning sjávarklasans á Íslandi var kynnt og sagt frá vísbendingum um að samstarfi innan sjávarútvegsins og annarra tengdra greina væri ábótavant, en bæta mætti úr því með formlegu klasasamstarfi og stofnun klasastjórnunarfyrirtækis. Hugmyndin mæltist vel fyrir og samstarfsaðilum fjölgaði hratt. Íslenski sjávarklasinn tók svo formlega til starfa í kjölfarið undir stjórn Þórs Sigfússonar.

Grandagardur

Þór Sifgússon, framkvæmdastjóri Íslenska sjávarklasans, og Eyrún Huld Árnadóttir, verkefnastjóri, ásamt hópi fulltrúa nýsköpunarfyrirtækja sem hafa starfsaðstöðu í Íslenska sjávarklasanum.

Alþjóðleg ráðgjöf á sviði haf- og sjávarútvegsmála

Frá formlegri stofnun klasasamstarfsins árið 2011 hefur verið ráðist í fjölmörg samstarfsverkefni á vettvangi klasans og þá hefur fjöldi nýrra fyrirtækja verið stofnaður fyrir tilstilli samstarfs ýmissa fyrirtækja og frumkvöðla innan hans. Dæmi um slík fyrirtæki eru Codland, Ocean Excellence og Ankra. Í nóvember 2012 átti Íslenski sjávarklasinn svo frumkvæði að stofnun North Atlantic Ocean Cluster Alliance sem eru heildarsamtök sjávarklasa í Norður-Atlantshafi. Íslenski sjávarklasinn leggur enda kapp á sterkar alþjóðlegar tengingar til uppbyggingar víðtæks þekkingarnets í haftengdum málefnum á Norður-Atlantshafi. Starfsemi klasa af þessu tagi nýtur sífellt meiri viðurkenningar sem öflugt þróunartæki. Með samstarfi ólíkra aðila gegnum formlegan klasa er stutt við viðskiptaþróun, verðmætasköpun og nýsköpun innan fyrirtækja, auk þess sem samstarfið fæðir af sér fjölda nýrra fyrirtækja þegar tækni og þekking áður ótengdra aðila mætist.
Unnið er með hugmyndir um að stofna öflugt fyrirtæki í alþjóðlegri ráðgjöf til fyrirtækja, stjórnvalda og alþjóðlegra stofnana á svið haf- og sjávarútvegsmála. Haft er eftir Þór Sigfússyni, framkvæmdastjóra Íslenska Sjávarklasans, að Íslendingar hafi getið sér gott orð víða um heim á sviði haf- og sjávarútvegsmála. Á þeirri reynslu verður byggt. Vöxtur í ráðgjafastarfsemi í haftengdum greinum, bæði í sjávarútvegi, fiskeldi og olíu, er stöðugt að vaxa svo tímabært er að stofna fyrirtæki í alþjóðlegri ráðgjöf fyrirtækja.

Vaxandi ásókn í sjávarútvegsfræði

Háskólinn á Akureyri hóf kennslu í sjávarútvegsfræði árið 1990 en nú hafa 170 sjávarútvegsfræðingar útskrifast þaðan. Námið er mjög fjölbreytt og rúmar mörg fræðasvið. Það var í upphafi skipulagt með hliðsjón af sambærilegu námi sem er í boði í Tromsö, Noregi. Markmið námsins er að mennta nemendur í undirstöðugreinum íslensks sjávarútvegs en því má skipta í þrjá megin hluta; auðlindina og nýtingu hennar, viðskipta og hagfræðigreinar og að lokum raungreinar. Námið er því mjög þverfaglegt og undirbýr nemendur fyrir krefjandi og skapandi starfsumhverfi. Um tíma átti námið undir högg að sækja með sögulegri lægð árið 2009 þar sem aðeins 15 nemendur voru á öllum námsárum. Þar á undan höfðu árgangar þó sveiflast töluvert. Frá árinu 2007 hefur markvisst verið unnið að því að styrkja námið og efla tengslin við atvinnulífið. Sú vinna, ásamt almennt auknum áhuga og aukinni námssókn, hefur borið ávöxt þar sem nú í haust innritaðist þriðji stóri árgangurinn í röð og heildarfjöldi nemenda hefur aldrei verið meiri, eða 83 talsins.
Sjávarútvegsfræðingar eru mjög eftirsóttir starfskraftar enda liggur í augum uppi að þörf íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja á vel menntuðu starfsfólki fer ekki dvínandi heldur þvert á móti og við það bætist sá uppgangur sem nú hefur verið í greininni á sviði rannsókna og nýsköpunar.