Þinn staður okkar umhverfi við Flensborgarhöfn

Þinn staður okkar umhverfi við Flensborgarhöfn
Sami staður, nýr tími
Fimmtudag 28. maí kl. 20

 

ami1Fimmtudaginn 28. maí kl. 20 verður haldin málstofa um endurnýjun hafnarsvæða. Á meðal þátttakenda eru Gísli Gíslason hafnarstjóri Faxaflóahafna, Anna María Bogadóttir arkitekt og Róbert Guðfinnsson athafnamaður frá Siglufirði. Hjálmar Sveinsson borgarfulltrúi og formaður umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur leiðir umræðuna.

Málstofan er haldin í tengslum við sýninguna Þinn staður okkar umhverfi við Flensborgarhöfn en það er opin vinnustofa um nýtt skipulag við Flensborgarhöfn. Í Sverrissal Hafnarborgar geta gestir kynnt sér stóran uppdrátt af Flensborgarhöfn og jafnframt notað hann sem grunn fyrir eigin hugmyndir. Þar má einnig sjá eldri kort og uppdrætti, ljósmyndir, greinargerðir og ýmis önnur gögn sem tengjast skipulagi Hafnarfjarðar við höfnina. Vinnustofan tengist undirbúningsvinnu Hafnarfjarðarbæjar vegna nýs skipulags á svæðinu við smábátahöfnina sem er skilgreint sem blanda af hafnarsvæði og verslunar- og þjónustusvæði. Bæjarbúar og aðrir fá tækifæri til að kynna sér skýrslur og annað efni sem notast er við í skipulagsgerð og til þess að koma hugmyndum sínum á framfæri.

Í tengslum við vinnustofuna  verður fjölbreytt viðburðadagskrá þar sem leitast er við að efla umræðu og kynna forsendur skipulags, efnt verður til gönguferða um bæinn og haldnar verða kynningar og opnir fundir. Dagskráin er þétt og eru menn hvattir til að nýta þetta einstaka tækifæri til að auka skilning og þekkingu og koma skoðunum sínum á framfæri.

ami2Viðburðir framundan:
Fimmtudag 4. júní kl. 20
Flensborgarhöfn – mannlíf og atvinnulíf
Magnea Guðmundsdóttir verkefnastjóri skipulagsvinnu og starfsmaður Hafnarfjarðarhafnar leiða göngu um svæðið. Rekstraraðilar á svæðinu taka þátt og segja frá. Gengið frá Hafnarborg.

Sunnudag 7. Júní kl. 16
Sjómannadagurinn
Ólafur Ingi Tómasson, formaður skipulags- og byggingaráðs, segir frá skipulagsvinnu við smábátahöfnina.

Fimmtudag 11. Júní kl. 17
Samtal hönnuða og íbúa um skipulag Flensborgarhafnar.

Umsjón með verkefninu hefur Magnea Guðmundsdóttir arkitekt en hún hefur unnið að undirbúningi skipulags Flensborgarhafnar fyrir skipulags- og byggingarsvið Hafnarfjarðarbæjar. Sjá nánar hér.

Nánari upplýsingar:
Áslaug Friðjónsdóttir, Hafnarborg, s. 585-5790
Magnea Guðmundsdóttir, s. 866-3090