Þjóðveldisbærinn Opnar dyr að fortíðinni

Þjóðveldisbærinn
Opnar dyr að fortíðinni
Neðan Sámsstaðamúla í Þjórsár­dal er Þjóðveldisbærinn sem reistur var í tilefni af 1100 ára afmæli Íslandsbyggðar og er hann opinn gestum og gangandi alla daga á tímabilinu frá 1. júní – 1. september kl. 10:00 – 12:00 og 13:00 – 18:00. Við gerð Þjóðveldisbæjarins var það einkum haft í huga að byggja eins nákvæmlega og unnt var með hliðsjón af bæjarrústum sem fundist höfðu við fornleifauppgröft á Stöng sem er innar í dalnum. Tilgangurinn með smíði bæjarins var að gera hann að eins konar safni sýnishorna af smíð og verkmennt sem vitað er með öruggri vissu að hefur verið iðkuð á þjóðveldisöld. Talið er að í vikurgosi úr Heklu árið 1104 hafi vart færri en 20 bæir í Þjórsárdal farið í eyði. Meðal þeirra var fornbýlið Stöng neðan við Gjána í Þjórsárdal. Við uppgröft norrænna fornleifafræðinga á staðnum árið 1939 fékkst mikill fróðleikur um hvernig skipan bæjarhúsa og útihúsa hefur verið á seinni hluta 11. aldar. Fljótlega eftir að Þjóðhátíðarnefnd hóf störf sín kom fram sú hugmynd að fá Hörð Ágústsson „fornhúsafræðing“ til að sjá um smíði líkans sem byggðist á rannsóknum hans á fornum húsakosti. Jafnframt var stefnt að því að reistur yrði bær í fullri stærð fyrir þjóðhátíðarárið 1974. Svo fór að smíði Þjóðveldisbæjarins hófst það ár en ekki var lokið við að reisa hann fyrr en árið 1977. Kostnaður við gerð bæjarins var greiddur af forsætisráðuneytinu, Landsvirkjun og Gnúpverjahreppi. Þjóðveldisbænum var valinn staður í grennd við rústir Skeljastaða og skiptist hann í skála, stofu, búr, anddyri, klefa og kamar. Skálinn var aðalhúsið á bænum. Þar unnu menn ýmis dagleg störf, en öðru fremur var skálinn svefnstaður heimilisfólksins. Hins vegar er talið að stofan hafi verið allt í senn, vinnustaður kvenna, dagstofa og veisluhús. Bærinn ber þess vitni að húsakynni fornmanna voru ekki ómerkilegir moldarkofar, heldur vandaðar og glæsilegar byggingar.

thodveldis-pic-1Árið 2000 var vígð lítil torfklædd stafkirkja við Þjóðveldisbæinn í Þjórsárdal. Kirkjan var smíðuð með hliðsjón af kirkju sem fannst við fornleifarannsóknir á Stöng 1986 – 1998, en við smíði hennar var einnig stuðst við ýmsar aðrar heimildir um kirkjur á fyrstu öldum kristni á Íslandi. Kirkjan er útkirkja frá Stóra – Núpsprestakalli. Sömu aðilar kostuðu smíði kirkjunnar og gerð Þjóðveldis­bæjarins, þ.e. forsætis­ráðuneytið, Landsvirkjun og Gnúpverjahreppur. Þjóðveldisbærinn og kirkjan eru eign íslenska ríkisins og fer forsætisráðuneytið með yfirstjórn og eigendaforræði yfir þeim. Lengst af byggðist rekstur Þjóðveldisbæjarins á innkomnum aðgangseyri og aðstoð frá Landsvirkjun og Gnúpverja­hreppi eftir atvikum. Með máldaga sem forsætisráðuneytið, Þjóðminjasafn Íslands, Skeiða- og Gnúpverjahreppur og Landsvirkjun gerðu með sér árið 2002 um rekstur og viðhald Þjóðveldisbæjarins var með formlegum hætti gengið frá málefnum bæjarins með því að ráðuneytið leggur árlega 2/3 til rekstrar og viðhalds bæjarins auk endurbóta og Landsvirkjun leggur fram 1/3 árlega. Þar með lauk því óvissuástandi sem ríkt hafði um hann frá upphafi.
Einnig kveður máldaginn á um að Landsvirkjun leggi sem fyrr til ígildi tveggja stöðugilda fyrir það tímabil sem Þjóðveldisbærinn er opinn gestum í því skyni að veita þeim nauðsynlega fræðslu og þjónustu eins og Landsvirkjun hefur gert frá því starfsemi í bænum hófst. Þjóðminjasafnið leggur til ráðgjöf og aðra faglega aðstoð vegna viðhalds bæjarins og þeirrar starfsemi sem þar fer fram án endurgjalds, og Skeiða og Gnúpverjahreppur leggur til alla nauðsynlega aðstoð vegna skipulagsmála sem tengjast Þjóðveldisbænum og annast allar merkingar og uppbyggingu gönguleiða. Jafnframt leggur hreppurinn til fjármagn þegar sérstaklega stendur á. Varðveisla og dagleg stjórn Þjóðveldisbæjarins og kirkjunnar er í höndum hússtjórnar sem hefur umsjón með bænum og ber ábyrgð á allri starfsemi í honum, rekstri og fjármálum. Í samræmi við máldaga fyrir kirkju Þjóðveldisbæjarins annast hússtjórnin umsjá kirkjunnar, rekstur og viðhald. Hússtjórnin er skipuð til fjögurra ára í senn.

Þjóðveldisbærinn er í Þjórsárdal, undir Sámsstaðamúla við Búrfellsstöð.
Ef ekið er frá Selfossi um Suður­landsveg er beygt inn á þjóðveg 30 í átt að Flúðum. Af þeim vegi er beygt inn á þjóðveg 32, Árnes, sem liggur inn í Þjórsárdal. Frá Suðurlandsvegi er ennig hægt að beygja inn á veg 26, Landveg, vestan við Hellu. Vegurinn liggur upp Holt og Land, um Galtalæk, austan við Þjórsá hjá Búrfelli. Skammt frá Sultartangavirkjun er beygt inn á veg 30 í átt að Búrfellsstöð.

Þjóðveldisbærinn
Þjórsárdal • 801 Selfossi/Skeiða- og Gnúpverjahreppi
  +354 488 7713
www.thjodveldisbaer.is