þóra Einarsdóttir með hádegistónleika

Þriðjudaginn 2. mars kl. 12 mun Þóra Einarsdóttir, sópran, koma fram á hádegistónleikum ásamt Antoníu Hevesi, píanóleikara.  Yfirskrift tónleikanna er Ást og rómantík og aríur fluttar eftir Händel, Puccini og Lehár.

Takmarkað sætaframborð er í boði og nauðsynlegt er að bóka sæti í síma 585-5790. Tónleikunum verður streymt í beint á netinu auk þess sem upptakan verður aðgengileg áfram að tónleikunum loknum, á bæði heimasíðu Hafnarborgar og á Facebook-síðu safnsins.

Þóra Einarsdóttir er meðal fremstu söngvara þjóðarinnar. Hún hefur hlotið fjölda viðurkenninga og unnið til verðlauna á ferli sínum. Þóra Einarsdóttir stundaði söngnám við Söngskólann í Reykjavík og við óperudeild Guildhall School of Music and Drama. Hún lauk MA í Listkennslu frá Lhí árið 2015.
Þóra hóf starfsferil sinn við Glyndebourne Festival Opera að námi loknu þá aðeins 23. ára. Auk fjölda hlutverka við Íslensku óperuna hefur Þóra sungið við Ensku Þjóðaróperuna, Opera North, Opera Factory, óperuhúsin í Wiesbaden, Mannheim, Nürnberg, Darmstadt, Berlín, Basel, Genf, Lausanne, Prag, Salzburg, Bologna og Malmö. Meðal hlutverka Þóru eru Pamina í Töfraflautunni, Súsanna í Brúðkaupi Figarós, Ilia í Idomeneo, Despina í Così fan tutte, Zerlina í Don Giovanni, Euridice í Orfeo ed Euridice, Cleopatra í Júlíus Cesar, Elmira í Croesus, Adina í Ástardrykknum, Marie í Dóttir herdeildarinnar, Gilda í Rigoletto, Mimi í La Bohème, Michaela í Carmen, Sophie í Rosenkavalier, Xenja í Boris Godunov, Adele í Leðurblökunni, Ännchen í Freischütz, Woglinde og Waldvogel í Niflungahringnum, Tatiana í Evgeny Onegin og Lucia í The Rape of Lucretia. Hún hefur m.a. sungið hlutverk í nýjum óperum eftir Harrison Birtwhistle, Simon Holt, Sunleif Rasmussen og Gregory Frid og er frammistaða hennar í hlutverki Ragnheiðar eftir Gunnar Þórðarson enn í fersku minni. Á Listahátíð 2018 fór hún með hlutverk Anne í óperunni Brothers eftir Daníel Bjarnason, hún fór með hlutverk Súsönnu í Brúðkaupi Fígarós hjá ÍÓ 2019 og hún mun flutti Vier Letzte Lieder eftir Strauss tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands haustið 2018 og með Pólsk-baltnesku Fílharmóníuhlómsveitinni í Gdansk árið 2000.
Þóra hefur lagt áherslu á ljóðasöng og átt í samstarfi við vel flesta af helstu píanóleikurum landsins og tekið þátt í flutningi fjölda kirkjulegra verka auk þess að koma fram við margvíslega viðburði. Auk fjölda tónleika á Íslandi hefur hún komið fram á tónleikum víða ásamt þekktum hljómsveitum, m.a í Barbican Hall, Royal Albert Hall og Royal Festival Hall í London, Konzerthaus Berlin, Berliner Dome, Philharmonie am Gasteig, Kennidy Center í Washington og Weil Recital Hall í New York.
Þóra hefur sungið inn á fjölda hljóðritana bæði hér heima og erlendis. Hún söng hlutverk Mimí í fyrstu heildarútgáfu á óperunni Vert-Vert eftir Offenbach sem kom út hjá Opera Rara í London. Hún hefur hlotið fjölda viðurkenninga og verið sæmd hinni íslensku fálkaorðu og Dannebrog- orðunni. Hún hlaut íslensku tónlistarverðlaunin (söngkona ársins) 2016 og 2017.
Þóra Einarsdóttir hefur starfað við Listaháskóla Íslands undanfarin ár sem Prófessor og fagstjóri söngbrautar og tók hún nýverið við starfi sviðsforseta tónlistar og sviðslista við skólann.

Antonía Hevesi, píanóleikari, hefur frá upphafi verið listrænn stjórnandi hádegistónleika í Hafnarborg, þar sem hún hefur fengið marga af fremstu söngvurum landsins til liðs við sig. Hádegistónleikar eru að venju á dagskrá Hafnarborgar fyrsta þriðjudag hvers mánaðar yfir vetrartímann.