Tískuföt úr selskinni og listmunir úr beini, horni og tönnum

 

Ravens

 Tískuföt úr selskinni og listmunir úr beini, horni og tönnum

Hjónin Guðrún Eyjólfsdóttir og Jóhann Brandsson bjuggu um árabil í Kulusuk á austurströnd Grænlands og á sumrin ráku þau þar minjagripaverslun, voru með svefnpokagistinu og kajakleigu.

Þegar Guðrún er spurð hvað hafi heillað hana við Grænland segir hún: „Það er þetta tímaleysi og frelsistilfinning sem maður upplifir þar. Svo er náttúrufegurðin þar ótrúleg.“

Guðrún og Jóhann opnuðu árið 2007 verslunina Kulusuk Art í Reykjavík þar sem þau seldu vörur frá Grænlandi svo sem skinnhúfur og skinnhanska en vörurnar komu frá handverksfólki í bænum Tasiilaq sem er einnig á austurströndinni. Þá voru seldar m.a. töskur úr selskinni frá Great Greenland. „Við fórum líka að selja handgerða, grænlenska listmuni sem hefur gengið ótrúlega vel að selja en margir, þar á meðal erlendir ferðamenn, eru áhugafólk um list Inúíta.

Vörur frá Great Greenland

Nafni verslunarinnar, sem er nú við Laugaveg, var breytt í Ravens og er þar að finna vandaðar grænlenskar sem og íslenskar vörur. Vörur frá Great Greenland eiga þar sérstakan sess en Great Greenland verkar selskinn á Grænlandi, selur annars vegar hluta þess m.a. til erlendra hönnuða en fær hins vegar hönnuði til að hanna fyrir sig dömulínu á hverju ári. Danski hönnuðurinn Jesper Høvring er þekktur víða um heim og er það hann sem á heiðurinn af nýjustu línunni – svo sem pelsum og jökkum m.a. úr selskinni og ull og mokkajökkum úr lambaskinni. „Þetta eru vandaðar og góðar vörur, frágangurinn er flottur og mér finnst gaman að vera með þessar vörur. Það lyftir upp gæðastandard verslunarinnar að vera með þessar vörur.“ Þá fást í versluninni selskinnsskór frá danska fyrirtækinu ETHNO.

Hálsmen í grænlenskum stíl

„Þessar grænlensku vörur eru ekta,“ segir Guðrún. „Ég veit að ég kaupi ekki eitthvað plat frá heimamönnum á Grænlandi. Sífellt færri búa í þorpunum og margir eru látnir eða fluttir af þeim sem ég byrjaði að versla við á sínum tíma.“

Úrval handgerðra muna frá Grænlandi fæst í Ravens og eru flestir eftir handverksfólk og listamenn frá austurströndinni. Munirnir eru skornir út í bein, hreindýrahorn og tennur.

Hálsmen úr plastperlum eru vinsæl á Grælandi og í versluninni fæst úrval slíkra hálsmena. Þess má geta að efsti hluti kvenþjóðbúningsins grænlenska er úr litríkum plastperlum en áður var hann skreyttur m.a. með fiskbeinum og skeljum.

Vinsælt hefur verið að skreyta híbýli sín með ýmsum skinnum og hjá Ravens fást selskinn og hreindýraskinn sem og gærur og hrosshúðir af íslenskum dýrum.

„Grænland er ævintýraheimur og höfum við fjölskyldan átt mörg góð ár þar.“