Tvö hundruð tuttugu og sjö ára

Ein af elstu byggingum landsins er Dómkirkjan í Reykjavík, vígð árið 1796. Fyrsta alvöru byggingin sem er byggð í Reykjavík eftir að ákveðið þar skyldi höfuðborg landsins vera. Skálholtsskóli, eini skóli landsins með fullorðnisfræðslu og Skálholtsbiskup skildu flytja til Reykjavíkur. Kirkjan sem stendur við Austurvöll, við hlið Alþingishússins sem var byggt tæpri öld síðar, var byggð eftir teikningum danska byggingameistarans, A. Kirkerups. Í tilefni 200 ára árstíðar Dómkirkjunnar, ritaði Sr. Þórir Stephensen bók um kirkjuna, hér eru brot… tekin af heimasíðu Dómkirkjunar.

Þegar komið er inn í forkirkjuna blasir við tafla yfir dyrum og er á ritað erindi eftir sr.Hallgrím Pétursson í ramma sem Ríkharður Jónsson, myndhöggvari gerði: “Þá þú gengur í Guðs hús inn…” Á veggjum forkirkju eru gipsmyndir eftir Albert Thorvaldsen. Sýna þær guðspjallamennina Lúkas og Jóhannes, en honum var Víkurkirkja helguð.

Yfir altarinu blasir við altarismynd G.T. Wegeners, hirðmálara frá 1847, Upprisa Drottins. Þetta er áhrifamikið listaverk og eru eftirmyndir hennar víða í kirkjum landsins. Undir myndinni er letrað: Svo sem Drottinn hefur uppvakið Krist svo mun hann oss uppvekia.Loftið yfir kórnum er markað bláum flötum með gylltum stjörnum. Yfir gluggunum eru átta englamyndir, sem eins prýða prédikunarstólinn. Altarið er klætt rauðu flaueli sem prýtt er silfurskrauti sem Halldór Kristinsson, silfursmiður gerði 1956 og ´58. Fyrir miðju er silfurkross og umhverfis vínviður og eru þrúgurnar myndaðar af íslenskum glerhöllum, agat. Skírnarfontur Alberts Thorvaldsen er einn mestu dýrgripa þjóðarinnar. Hann kom í Dómkirkjuna árið 1839 og ber ártalið 1827 en þá var hann gerður í Rómaborg þar sem listamaðurinn starfaði lengi. Á framhlið fontsins er mynduð skírn Jesú af Jóhannesi skírara, á norðurhlið eru sömu persónur á barnsaldri með Maríu Guðsmóður og á suðurhlið er Jesús að blessa börnin. Á bakhlið er letrað á latínu: Reisti smíð þessa í Róm suður Albert Thorvaldsen ættjörðu sinni, Ísalandi, gefandi hana af góðum hug. (Jónas Hallgr.) Prédikunarstóll Dómkirkjunnar er mikil listasmíð af hendi Winstrups sem og umgjörð altarismyndarinnar. Stíllinn er ný-barrok og fellur ásamt öðrum skreytingum vel að nýklassískum stíl kirkjunnar. Á prédikunarstólinn er letrað: Sælir eru þeir sem heyra Guðs orð og varðveita það.

Þegar Icelandic Times / Land & Saga átti leið um, til að sjá og mynda kirkjuna, kom mest á óvart hve stríður straumur af ferðamönnum áttu leið um, og dáðust af þessari einföldu, en fallegu Lútersku kirkju.

Horft inn kirkjuna frá anddyri

Dómkirkjan við Austurvöll, Alþingishúsið til hægri

Prédikunarstólinn er listasmíði eftir Winstrup

Skírnarfontur og altaristafla, sjá megintexta

Horft inn kirkjuna frá anddyri

Ljósmyndir & text : Páll Stefánsson

Reykjavík 08/09/2023 : A7C, RX1R II : FE 1.8//20mm G, 2.0/35mm Z