Vesturgatan í Vesturbænum

Í byrjun síðustu aldar, skiptist Reykjavík í þrjá hluta, miðbæ, austur- og vesturbæ. Hinir efnameiri bjuggu í miðbænum, í Kvosinni og neðst í Þingholtunum. Hinir bjuggu annars staðar eins og á Vesturgötunni, en eins og nafnið ber með sér, gengur hún vestur úr Kvosinni frá Aðalstræti og í sjó fram við Ánanaust, rétt um kílómetra löng. Fyrst hét gatan Hlíðarhúsastígur eftir Hlíðarhúsum, koti sem stóð þar sem veitingastaðurinn Naust er núna. Seinna fékk hún nafnið Læknisgata, vegna þess að Landlæknir bjó á Hlíðarhúsavöllum við götuna á stórri lóð. Rétt fyrir aldamótin 1900 fær þessi íbúðargata nafnið sem hún ber í dag, Vesturgata. Gatan er mjög fjölbreytt, þarna eru falleg stássleg hús austast, næst miðbænum, síðan kemur óvenjulegur grautur um miðbik götunnar, stór reisuleg hús, og eldri timburhús. Vestast er síðan verið að umbreyta götunni,  byggja ný stórhýsi, færa hluta hennar inn á 21. öldina. Icelandic Times / Land & Saga brá sér í myndaferð í vesturbæ Reykjavíkur, því Vesturgöturnar eru fimm, á Ólafsfirði, Akranesi, Hafnarfirði, Keflavík og auðvitað í Reykjavík.

Vesturgatan um þarsíðustu aldamót

Málaður húsgafl á gatnamótum Vesturgötu og Seljavegs

Vestast á Vesturgötunni

Allir byggingastílar leyfðir

Horft austur á byrjun Vesturgötu í Kvosinni

Horft af Vesturgötunni, norður Norðurstíg að Reykjavíkurhöfn

Horft vestur Vesturgötu

Reykjavík 28/03/2023 : A7R IV : FE 2.8/100mm GM

Ljósmyndir og Texti: Páll Stefánsson