Vetrarhátíð 2022
Dagana 3 til 6 febrúar er haldin Vetrarhátíð í Reykjavík. Þar verður Ljósaslóð Vetrarhátíðar í lykilhlutverki, en það er gönguleið frá Hallgrímskirkju niður Skólavörðustíg og þaðan á Austurvöll. Öll leiðin er vörðuð ljóslistaverkum frá 18:30 til 22:00 alla daga Vetrarhátíðarinnar. Annað á dagskrá er eins og Útilistaverk í Perlufestinni, upplýst frá 14:30 til 22:00 en Perlufestin er höggmyndagarður í suðvesturhorni Hljómskálagarðsins, þar má finna höggmyndir eftir sex konur sem voru frumkvöðlar í höggmyndalist á Íslandi. Ofbirta verk sem er kastað á Hallgrímskirkju, Verkið er unnið í þrívíddarforriti þar sem ljósbrotum er kastað tilviljunarkennt á kirkjuna, svo útkoman verður aldrei fyrirsjáanleg. Lifandi Votlendi í Ráðhúsi Reykjavíkur er gagnvirkt listaverk unnið af Signal Festival í Prag, í samvinnu við PrusaLab. Gestir sýningarinnar standa fyrir þeirri áskorun að bjarga deyjandi vistkerfi, með þáttöku og fjáröflun. Allur ágóði rennur til Votlendissjóðs, sjálfseignarstofnunnar sem hefur það hlutverk að draga úr losun koltvísýrings og endurheimta votlendi, og það líf sem þrífst þar.

Allt að verða tilbúið fyrir Vetrarhátíð í Reykjavík, verið að lýsa brúnna yfir Tjörnina. Rétt sunnan við brúnna eru Útilistaverk Perlufestarinnar, sem eru hluti af hátíðinni. Hér er horft yfir Reykjavíkurtjörn að Tjarnargötu, en nyrst við hana stendur Ráðhús Reykjavíkur (ekki í mynd) þar sem verkið Lifandi Votlendi er sýnt. Landakotshæðin í bakgrunni.

Það voru afskaplega ljúfir tónar sem hljómuðu úr Hljómskálanum við Reykjavíkurtjörn. Húsið sem var byggt fyrir 100 árum, árið 1922 sérstaklega fyrir tónlistarstarfsemi. Hljómskálinn hefur mikið menningarsögulegt gildi, hann var friðaður árið 2017.Reykjavík 02/02/2022  20:19 – 21:16 – A7R III : FE 1.4/85mm GM

Ljósmyndir og texti : Páll Stefánsson