Sunnudag 8. nóvember kl. 15, Ásmundarsafn
Viltu vita meira um geiminn? Fjölskyldudagskrá í tengslum við sýninguna Geimþrá

Dagskrá fyrir börn og fullorðna í tengslum við sýninguna Geimþrá í Ásmundarsafni. Á sýningunni hefur kúlunni í safninu verið breytt í stjörnuver.  Þar er hægt að horfa upp í geiminn og sjá hin ýmsu fyrirbæri alheimsins. Umsjón með stjörnuverinu hefur Frímann Kjerúlf Björnsson, myndlistarmaður og eðlisfræðingur, en hann mun segja gestum frá hinum ýmsu fyrirbærum geimsins.

asmundasafnclickÁ sýningunni Geimþrá eru verk eftir Ásmund Sveinsson (1893–1982), Gerði Helgadóttur (1928–1975), Jón Gunnar Árnason (1931–1989) og Sigurjón Ólafsson (1908–1982). Leiðarstef sýningarinnar er sameiginlegur áhugi þeirra á himingeimnum og vísindum tengdum honum. Ásmundur hreifst fyrst og fremst af framförum geimvísindanna, á meðan Sigurjón var áhugamaður um stjörnufræði. Gerður Helgadóttir kannaði dulspekilegar víddir geimsins en Jón Gunnar skoðaði hann frá sjónarhorni vísindaskáldskapar. Verkin á sýningunni eru flest frá 6. og 7. áratugnum og vísa til tækniframfara þess tíma, í framtíðarsýn geimvísinda, en einnig til vísindaskáldskapar sem þá var orðin þekkt grein innan bókmennta og kvikmynda.

Dagskráin hefst kl. 15. Aðgangseyrir á sýninguna er kr. 1.400, ókeypis fyrir gesti 18 ára og yngri og Menningarkortshafa.