Ís og land – Ljósmyndir frá Íslandi og Grænlandi 1999-2017

 

Ís og land – Ljósmyndir frá Íslandi og Grænlandi 1999-2017

 

Ís og land er yfirskrift sýningar sem opnuð verður í Ljósmyndasafni Reykjavíkur laugardaginn 12. maí kl. 15:00. Ljósmyndirnar tók hinn þekkti þýski ljósmyndari Olaf Otto Becker á Íslandi og Grænlandi á árunum 1999-2017.

Áhrifamiklar og ægifagrar landslagsljósmyndir Olafs Ottos Beckers fjalla um breytingaferli í náttúrunni sem orsakast af loftslagsbreytingum og öðrum manngerðum áhrifum. Í verkum hans sameinast persónuleg og listræn nálgun á heimildaljósmyndun sem vekur upp spurningar um félagslega og menningarlega þætti í samtímanum.

Á sýningunni  „Ís og land – Ljósmyndir frá Íslandi og Grænlandi 1999–2017“ er stillt saman verkum úr margverðlaunuðum ljósmyndaverkefnum Beckers, sem einnig eru gefin út sem ljósmyndabækur. Annars vegar úr „Under the Nordic Light: A Journey Through Time: Iceland 1999–2011“ þar sem ásýnd íslensks landslags og hvernig það breytist með tímanum er í miðpunkti og hins vegar úr þremur verkefnum hans frá Grænlandi: „Broken Line“ (2007), „Above Zero“ (2009) og hinu nýútkomna „Ilulissat–Sculptures of Change—Greenland 2003–2017“. Öll fjalla þau um áhrif hnattrænnar hlýnunar og hvernig við erum vitni að henni með því að horfa upp á bráðnun jökla.

 

Olaf Otto Becker fæddist í Þýskalandi árið 1959. Hann nam upplýsingahönnun, heimspeki og stjórnmálafræði. Frá árinu 2003 hefur hann unnið sjálfstætt að eigin verkefnum og birtast landslagmyndir hans reglulega í tímariti New York Times.  Þær eru einnig sýndar um allan heim á alþjóðlegum ljósmyndahátíðum, söfnum og galleríum. Einnig er þær að finna í fjölda einkasafna og í opinberum söfnum.

Í Kubbnum verður sýnd upptaka af fyrirlestri ljósmyndarans um þessi tilteknu ljósmyndaverkefni.

Sunnudaginn 13. maí kl. 13:15 verður boðið upp á sýningarspjall með Olaf Otto Becker.

Sýningunni lýkur 16. september 2018. 

Sjá nánar á: https://borgarsogusafn.is/is/ljosmyndasafn-reykjavikur/syningar/olaf-otto-becker-og-land-ljosmyndir-fra-islandi-og-graenlandi

Ljósmyndasafn Reykjavíkur

Tryggvagötu 15, 6. hæð, 101 Reykjavík