Lakagígar, Þjóðgarðurinn Skaftafell

Gígaröð á 25 km langri gossprungu vestan Vatnajökuls.
BjornRur_064_01 Gigur 2.MNLakagígar

Lakagígar í Vestur-Skaftafellssýslu urðu hluti af þjóðgarðinum Skaftafell árið 2004. Lakagígar eru merkilegar jarðfræðiminjar á heimsvísu og lífríkið er einnig sérstætt. Svæðið er afar viðkvæmt fyrir ágangi og markmið friðlýsingarinnar er að varðveita þetta einstaka og viðkvæma svæði þannig að komandi kynslóðir fái notið þess á sama hátt og við.
Lakagígar voru Friðlýstir 1971. Lakagígar tilheyra nú Skaftafellsþjóðgarði samkvæmt augl. í Stj.tíð. B. nr. 879/2004 og sérfræðingur er starfandi þar allt árið.

Skrifstofa Umhverfisstofnunar á Kirkjubæjarstofu,
Klausturvegi 2, 880 Kirkjubæjarklaustri
Sérfræðingur: Kári Kristjánsson, netfang: [email protected]
Farsímar: 851-1946 – 822-4028
Náttúruverndarsvið Umhverfisstofnunar gefur út fræðslubækling um Lakagíga á íslensku með göngukorti.

laki
Lakagigar

 

Jarðfræði
Lakagígar, hraunrennsliSkaftáreldar (1783–1784) voru eitt mesta gos Íslandssögunnar og Eldhraun þriðja mesta hraun sem runnið hefur á jörðinni frá ísaldarlokum. Náttúruvættið, sem nú er kallað Lakagígar, varð til í þessu gosi. Heitið er komið frá gígnum Laka, en áður fyrr kölluðu heimamenn gígaröðina Eldborgir.

Að undangenginni nokkurra daga jarðskjálftahrinu hófst eldgos á hvítasunnudag, þann 8. júní 1783, með drunum, öskufalli og brennisteinsfnyk. Lakagígar liggja á 10 samhliða sprungum sem hver um sig er um 2–5 km löng. Við suðurenda gígaraðarinnar er fjallið Hnúta og þar opnaðist fyrsta sprungan. Gosið kom með hrinum sem hófust venjulega með vaxandi skjálftavirkni.
Í kjölfar skjálftahrinanna opnaðist ný sprunga norðan þeirrar sem áður gaus og hófst virknin í henni á sprengigosi. Hrinurnar í gosinu hafa sennilega verið alls tíu eins og sprungurnar sjálfar.
Þannig er yfirleitt samfelld gígaröð á hverri gossprungu og stærstu gígarnir um miðbik hennar.

Gígarnir sem mynduðust í gosinu eru u.þ.b. 135. Í Skaftáreldum myndaðist 2–500 metra breiður sigdalur sem nær frá rótum Laka og tvo kílómetra suðvestur fyrir hann. Sigdalurinn er nú að mestu hulinn hrauni og gjósku. Tvær sprungur sjást þó greinilega í hlíðum Laka (818 m.ys.) sem rís í miðri gígaröðinni um 200 metra yfir umhverfi sitt.

Lakagígar, yfirlitHraunið sem rann úr Lakagígum þekur um 0,5% af flatarmáli Íslands. Það rann niður á láglendi í tveimur kvíslum, eins og sést á meðfylgjandi korti. Þannig skiptist Skaftáreldahraun í tvo meginhluta – vestari kvíslina, Eldhraun, og eystri kvíslina, Brunahraun. Vestari hraunelfurin flæddi frá gossprungunum suðvestan við Laka þar sem gosið hófst. Hraunið þaðan fyllti Úlfarsdal og Varmárdal og rann niður afréttinn í tveimur rásum. Önnur rásin fyllti Skaftárgljúfur en hin fylgdi farvegi Hellisár niður undir Leiðólfsfell. Skaftá þvarr strax á þriðja degi gossins og aðeins fimm dögum eftir að gosið hófst náði hraunið niður á láglendi og hafði þá farið um 40 kílómetra leið. Í lok júlímánaðar dró heldur úr virkninni í sprungunum sunnan Laka og á sama tíma hófst gos í sprungu norðan Laka. Um viku síðar tók hraunið að renna niður farveg Hverfisfljóts og fyllti gljúfur þess á leið sinni niður á láglendi. Hverfisfljót rann ekki í þeim farvegi framar. Gosið hélt áfram og nýjar gossprungur mynduðu eystri hraunkvíslina. Gosinu lauk þann 7. febrúar 1784.

Auðvitað sækir sú spurning á hvort aftur geti gosið á sömu sprungu. Það er mjög ólíklegt, en þetta er virkt gossvæði og því má alltaf búast við gosi annars staðar á svæðinu.

4. BjornRur_060_Lakagigur01.MNFróðleiksmoli:
Væri allt hraunið (um 15km3) saman komið í einu bjargi, værið það 2,5 km á lengd, 2,5 km á breidd og 2,5 km á hæð eða hærra en Öræfajökull.

Algengar spurningar frá ferðamönnum
Hvers vegna eru mismunandi litir bæði á hrauni og gjalli?
Rautt hraun og gjall er oxað (ryðgað); svart er óoxað (ferskt).

Af hverju eru gígarnir ólíkir í laginu og úr mismunandi efni?
Sprengivirkni í gígum var mismikil og því eru gígarnir mismunandi í laginu og sundrun kvikunnar mismikil eftir því hversu hratt loft losnaði úr kvikunni þegar hún kom upp á yfirborðið eða hvort kvikan komst í snertingu við vatn. Þetta má sjá á gjallmolum sem eru um 5–10 sm á lengd og svo kleprum sem verða allt upp í 1–2 metra á lengd.

Hvaðan kemur svarti sandurinn?
Hann er fíngert gosefni, oft kallað gjóska eða gosaska. Gjóskan berst út með vindi og vatni og fyllir oft dældir, gjótur og holur.

Hvernig var umhorfs á svæðinu áður en gaus?
Fyrir um 10 þúsund árum var landið norðan Laka upp til jökuls áraurar en sunnan fjallsins var gróðursæll dalur, mýrlendi og mikil grasatekja og álftaver.

Hafði gosið áður á svæðinu?
Norðaustur af Laka eru Lambavatnsgígar, slitrótt röð gjallgíga við austurenda Lambavatns.
Óvíst er hvenær þar gaus.

Um hraun og gíga
Þrjár tegundir gíga mynda Lakagíga, gjall-, klepra- og hverfjallsgígar. Gígarnir eru gjóskukeilur, misjafnar að stærð og lögun. Sumir eru kringlóttir, aðrir aflangir. Gjallgígar eru stærstir og flestir. Hæstu gígarnir rísa 100 metra yfir umhverfi sitt.
Úr vestari gígaröðinni kom mestmegnis apalhraun, úfið og ógreiðfært, en eystri kvíslin er að mestu helluhraun.

12. Screen Shot. Texture of the land is fascinating.Gosið í tölum

Flatarmál hraunsins er um 600 ferkílómetrar.
Rúmmál gosefna er um 15,0 km3 (þar af eru um 14,5 km3 hraun og 0,5 km3 gjóska).
Í gosinu komu upp um 400–500 milljónir tonna af lofttegundum.
Kvikustrókar risu að talið er í um 800 til 1400 metra hæð.
Gosmökkurinn reis að talið er í allt að 15.000 metra hæð.

Fróðleiksmoli:
Hraunrennsli á sekúndu var um 6000 rúmmetrar en það samsvarar tólfföldu meðalrennsli Þjórsár.

PRUFUR
PRUFUR

Lífríki Lakagíga
Eldhraunið er rúmlega 200 ára gamalt en samt nánast þakið gróðri neðan úr byggð upp á gígbarma í um 650 metra hæð. Eftir gos var auðn en nú má sjá hér vistkerfi í mótun – skólabókardæmi um gróðurframvindu.

Lífríki Lakagíga er mótað af eldvirkni, ríkulegri úrkomu og fremur hlýju loftslagi. Þótt úrkoman sé mikil hripar hún niður í hraun og vikur svo háplöntur eiga erfitt með að nýta sér hana. Gróðurinn einkennist því af mosum og fléttum sem vaxa betur við þessi skilyrði. Mosinn við Lakagíga vex stöðugt en er þannig gerður að hann lengist í toppinn en deyr og rotnar í hinn endann og myndar rotlag og fremur ófrjóan jarðveg. Þannig vex gróður fremur hægt á svæðinu og stendur því ekki undir ríkulegu smádýra- og fuglalífi. Þarna verpa þó nokkrar fuglategundir, svo sem sólskríkja, steindepill, smyrill, heiðlóa, sendlingur og þúfutittlingur. Lómur verpir við Lambavatn og þar er eitthvað um silung. Refur er eina villta spendýrið sem lifir á svæðinu.

Við Lakagíga eru tvær sérstæðar vistgerðir sem mótaðar eru af eldvirkni. Annars vegar erbreiskjuhraunavist, sem finnst við Lakagíga og á Skaftáreldahrauni í nágrenni þeirra. Hins vegar er vikravist sem einkum finnst við suðurhluta gíganna en þekur einnig stór svæði annars staðar.

Breiskjuhraunavist dregur nafn sitt af fléttunni hraunbreiskju. Hún nær víða mikilli þekju í úfnari hlutum hraunsins og litar það grátt. Mosar eins og hraungambri og melagambri eru þó meira áberandi í vistgerðinni. Hraungambri, sem er gráleitur, finnst einkum utan í gígum og á bungum og hryggjum í hrauninu, en þess má geta að hann er einnig ríkjandi í hrauninu niðri í byggð.
Melagambri, sem er gulleitari en hraungambrinn, er ríkjandi í slökkum í hrauninu þar sem er snjóþungt og rakt. Fjöldi mosa- og fléttutegunda finnst í vistgerðinni en háplöntutegundir eru fremur fáar. Undantekning á þessu er þó í Eldborgafarvegi þar sem mjög margar smáar blómplöntur vaxa og eru meira og minna í blóma allan síðari hluta sumars. Mikið er af grasvíði í mosa- og fléttugróðrinum en önnur einkennandi tegund eru burkninn og tófugras sem vex í gjótum og glufum.

Vikravist, sem er mjög lítið gróin, dregur nafn sitt af vikri og ösku sem er ríkjandi jarðvegsefni og gefur landinu dökkan svip á þessum slóðum. Gróður er strjáll og lágvaxinn. Hann mótast af sífelldri hreyfingu vikursins sem torveldar plöntum lífsbaráttuna. Nokkrar harðgerðar tegundir þrauka þó í þessari vist og einkenna gróðurinn. Þetta eru fjallapuntur, melskriðnablóm, geldingahnappur og túnvingull. Í vikravist eru einnig nokkrar tegundir af mosum og fléttum en þær eru lítið áberandi.

Algengar spurningar ferðamanna
Hvernig kemur gróðurfar og dýralíf til með að þróast á svæðinu?
Í kringum eldstöðina sjálfa er þróunin hæg en framvinda gróðurs í Eldhrauni er afar hröð. Eldvirkni hefur um árþúsundir raskað framvindu lífríkis á Íslandi og fært þannig þróun lífríkis aftur á upphafsreit og allar líkur eru á að svo verði áfram.

Hvers vegna er Skaftáreldahraunið mosagrónara en önnur jafngömul hraun?
Á svæðinu er mikil úrkoma, sem skapar mosum og fléttum góð vaxtarskilyrði. Loftslag er milt og vaxtartími plantna því tiltölulega langur miðað við aðstæður hérlendis.

Af hverju skiptir mosinn litum eftir hæð og raka?
Um er að ræða tvær mismunandi tegundir, þ.e. hinn gráleita hraungambra, sem vex uppi á gígum og bungum í hrauninu, og hinn gulleitari melagambra, sem er ríkjandi í lægðum. Litbrigði mosans breytast mikið við úrkomu.

BjornRur_059_LakaGigur04.hreinsSagan
Hörmungarnar sem fylgdu Skaftáreldum eru þær mestu sem dunið hafa yfir Íslendinga. Eitruð aska dreifðist yfir mestallt land og gosmóða mengaði loft. Af þessari móðu fengu harðindin nafn sitt – móðuharðindi. Frá fyrsta degi gossins var ljóst hvert stefndi; svartur gosmökkurinn barst niður á láglendið og öskufall varð í byggð þannig að myrkvaðist í húsum og sporrækt varð á jörðu.

Eitruð askan spillti högum svo búfénaður svalt. Um sumarið heyjaðist illa þar sem eiturmóðan skildi eftir sig sviðna jörð. Þegar leið á veturinn drápust skepnur úr hor og einnig vegna þess að eitruð gosefnin ollu þeim sjúkdómum. Mannfólkið dó úr hungri.

Fleira jók á hörmungarnar. Vegna móðunnar kólnaði í veðri og hafís lagðist að landi. Hjálp frá Danmörku barst seint því fréttir af eldgosinu náðu ekki til Kaupmannahafnar fyrr en um haustið.

Skip með vistum var sent þaðan í nóvember en komst ekki til landsins fyrr en vorið eftir. Illa gekk að dreifa vistunum því ástand manna og skepna var hræðilegt. Hörmungarnar voru slíkar að kónginum datt í hug að flytja alla landsmenn til Jótlandsheiða.

Eitt leiddi af öðru og tveimur árum eftir að gosið hófst hafði nautgripum fækkað um helming, hrossum um tvo þriðju og sauðfé um fjóra fimmtu hluta. Í móðuharðindum lést fimmti hver Íslendingur eða um 10 þúsund manns.

Í Fljótshverfi, Meðallandi og á Síðu dóu um tveir fimmtu íbúanna, tuttugu jarðir fóru undir hraun og þrjátíu stórskemmdust svo þær héldust ekki í ábúð um tíma eftir Eld.

Eldmessan
Séra Jón Steingrímsson boðaði til messu á Kirkjubæjarklaustri sunnudaginn 20. júlí. Þá var liðinn einn og hálfur mánuður frá því að gos hófst. Jón taldi eldgosið vera refsingu Guðs fyrir ólifnað, leti og syndsamlegt líferni manna. Gosið var enn í hámarki – hraunið nálgaðist óðfluga og drunur, brestir og mettað loft hafa líkast til magnað upp skelfingu fólksins sem átti allt eins von á að það væri að sækja messu í hinsta sinn. Í messunni ákallaði klerkur góðan Guð og lofaði honum því að söfnuðurinn myndi iðrast misgjörða sinna og ólifnaðar. Meðan á guðsþjónustunni stóð stöðvaðist framrás hraunsins í farvegi Skaftár hjá Systrastapa, skammt vestan Kirkjubæjarklausturs.

Talið var að bænaþungi Jóns hefði haft þessi áhrif á hraunið og hefur messan síðan verið kölluð Eldmessa og hrauntanginn hjá Systrastapa Eldmessutangi.

Um þetta leyti fór að draga úr gosinu í sprungunum sunnan Laka og gos hófst í sprungunum norðaustan Laka.

Áhrif Skaftárelda í útlöndum
Brennisteinsmóðan frá Skaftáreldum barst upphaflega í austur en dreifðist um allt norðurhvel jarðar og hafði veruleg áhrif, bæði á umhverfi og veðurfar.

Tveimur dögum eftir að gosið hófst í júní sást móðan í Færeyjum, Noregi og Skotlandi. Um miðjan júní barst hún sem þunn slikja inn yfir meginland Evrópu og þann 24. júní lá hún sem svartasta þoka yfir allri Evrópu, allt austur í Helsingjabotn og austur fyrir Adríahaf. Loft var drungalegt. Í evrópskum blöðum var þess getið að sólin hefði verið sem blóðrauður hnöttur við sólarupprás og sólarlag en verið hulin rauðri eða gulbleikri blæju um hádegi og skin hennar verið svo dauft að menn hafi getið horft í hana með berum augum.

Um mánaðamótin júní–júlí hafði móðan dreifst yfir Rússland, Síberíu og Kína. Þegar verst lét þakti Skaftáreldamóðan um það bil fjórðung af yfirborði jarðar, eða allt landsvæði norðan þrítugasta breiddarbaugs (sjá kort). Það var ekki fyrr en í október að verulega dró úr styrk móðunnar en þó sást til hennar fram í febrúar 1784.

Um það bil þrír fjórðu hlutar móðunnar bárust úr háloftunum til jarðar með niðurstreymi innan háþrýstisvæða, dreifðist svo sem þurraþoka og féll á land, gróður og byggingar (sbr. súrt regn).

Á fimm mánuðum féllu um 1000 kg af brennisteinssýru (H2SO4) á hvern ferkílómetra lands sem móðan huldi.

Umhverfisáhrif móðunnar voru mest næst Íslandi, í Færeyjum, Noregi, Svíþjóð, Finnlandi, Hollandi, Belgíu, Sviss, Frakklandi, Þýskalandi, á Bretlandseyjum og Ítalíu. Hún olli uppskerubresti og tjóni á gróðri. Vegna brennisteinsáfallsins féll lauf af trjám og lággróður visnaði.

Móðan var svo þétt að hún dró verulega úr geislun sólar og meðallofthitinn lækkaði við jörð um 1,3 gráður á Celsíus. Þetta kuldakast stóð í ein þrjú ár og olli verulegum skaða víða um heim.
Jafnvel í fjarlægum heimshornum olli móðan miklum búsifjum. Sumarið 1783 brást hrísgrjónauppskeran í Japan vegna kulda og votviðris og í kjölfarið fylgdi mesta hallæri sem þekkist í sögu landsins. Svipaða sögu er að segja frá Alaska, þar sem heil frumbyggjasamfélög dóu út.

Franska byltingin markaði tímamót í þróun lýðræðis og réttarríkja samtímans. Sú kenning hefur verið sett fram að franska byltingin hafi í raun átt sér upphaf í Laka nokkrum árum fyrr vegna þeirra gífurlegu áhrifa sem móðan frá Skaftáreldum hafði á veðurfar og akuryrkju í Evrópu á þessum tíma.

Aðgengi að Lakagígum
Vegurinn inn að Laka liggur frá þjóðvegi 1 við Hunkubakka. Þetta er fjallvegur og á leiðinni þarf að fara yfir dragár sem geta vaxið í miklum rigningum og orðið varhugaverðar.
Þegar komið er undir Galta greinist vegurinn inn að Laka og út að Blágiljum. Vegur, sem kallaður er Lakahringur, liggur frá þjóðveginum að Laka meðfram vestari hluta Lakagíga og til baka að Skaftá og Blágiljum. Vegurinn er sæmilega fær frá þjóðvegi að Tjarnargíg en vestari helmingurinn, frá Tjarnargíg að Blágiljum, er illfær jeppaslóð.

Á svæðinu er nokkuð um jeppaslóða en flestum hefur verið lokað með staurum og reipum.
Hér eins og annars staðar er ekki leyfilegt að aka utan vega og ferðamenn eru beðnir að virða þessar merkingar enda liggur mikið við að skemma ekki svæðið.

Friðlýsta svæðið er opið ferðamönnum allan ársins hring en það ræðst af veðurfari hvenær vegurinn inneftir er fær. Í miklum leysingum er að sjálfsögðu ófært og þá eru vegir lokaðir, en venjulega er opið frá miðjum júní og langt fram eftir hausti.

Rútuferðir
Daglega, frá 1. júlí–31. ágúst, eru rútuferðir á vegum Austurleiðar að Laka. Frá þjóðgarðinum í Skaftafelli er farið kl. 8.00 og kl. 9.00 frá Kirkjubæjarklaustri. Úr Lakagígum er farið kl. 16.00. Nánari upplýsingar eru veittar í síma 545 1717. Netfangið er www.austurleid.is.

Umferð hestamanna um náttúruvættið
Engar merktar reiðleiðir eru um svæðið. Rekstur hrossa í lausagöngu er óleyfilegur um náttúruvættið en leyfilegt er að vera með hesta í taumi á vegum.

Gisting á svæðinu
Óleyfilegt er að tjalda innan marka náttúrvættisins en að Blágiljum er um 40 mínútna akstur og þar er gott að tjalda enda eru þar grónar grasflatir, lindarvatn og kamar.

Í Blágiljum og Hrossatungum eru gangnamannaskálar og þar geta ferðamenn gist gegn gjaldi.

Starfsfólk á hreppsskrifstofu Skaftárhrepps sér um að bóka í skálana. Við þessa skála er aðstaða fyrir hestamenn og vert er að benda hestamönnum á að þeir verða að flytja með sér hey.

Umgengni
Lakagígar eru afar viðkvæmir fyrir umgengni. Litríkt gjallið er mjög laust í sér og molnar við minnstu snertingu og traðk. Mosavaxnar hlíðar gíganna eru því afar viðkvæmar fyrir umgangi og hvert skref markar ævarandi för í mosann. Því biðjum við þig, ágæti ferðamaður, að fylgja merktum gönguleiðum – þannig verndar þú svæðið best!

Fróðleiksmoli:
Í Skaftáreldum fóru um 120 milljónir tonna af SO2 út í andrúmsloftið á fimm mánuðum.
Þar af þeytti gosið tæplega 100 milljónum tonna upp í neðsta hluta heiðhvolfsins (10–15 km hæð). Þar blandaðist brennisteinstvísýringur (SO2) vatnsgufu (H2O) og myndaði um 200 milljónir tonna af brennisteinssýrugufu (H2SO4) sem dreifðist sem móða með háloftavindum um gjörvallt norðurhvel sumarið og haustið 1783.

Gönguleiðir

Fimm merktir göngustígar eru innan Náttúruvættisins. Mikilvægt er að ferðafólk gangi aðeins eftir merktum gönguleiðum, þeir eru ólíkar og gefa góða mynd af fjölbreytileika svæðisins.

Lakagígar, göngukortRauð gönguleið (1 klst.) liggur upp á Laka (818 m.y.s) sem rís um 200 metra yfir næsta umhverfi. Laki stendur í miðri gígaröðinni. Í Skaftáreldum opnuðust gossprungurnar í hlíðum Laka og fjallið rifnaði við eldsumbrotin. Þessar sprungur eru greinilegar, bæði í vestur- og norðurhlíðum fjallsins. Af fjallinu er stórkostlegt útsýni yfir gígaröðina til suðvesturs að fjallinu Hnútu og norðausturs alla leið þar sem hún endar við rætur Vatnajökuls.

Gul gönguleið (2–3 klst.) í kringum Laka. Leiðin liggur meðfram fjallsrótunum og á nokkrum stöðum út í hraunjaðarinn. Gígaröðin í norðaustur sést vel og líka hvernig gosið hefur brotið sér leið upp á yfirborðið í hlíðum fjallsins. Þar skynjar maður vel hversu ólík jarðefnin eru, annars vegar í hinu gamla móbergsfjalli Laka og hins vegar í aðeins 200 ára gömlu mosavöxnu hrauninu úr Lakagígum.

Blá gönguleið (20 mín.) liggur frá rótum Laka ofan í gígaröð sem braut sér leið upp í hlíðar Laka. Þarna sést hvernig jörðin hefur opnast og gígarnir

Hvít gönguleið (20 mín.) liggur inn í gíg suðvestan við Laka. Frá gígbarminum sést vel yfir gígaröðina í suðvestur. Ofan í gígnum er hellisskúti og einhvern tímann var hann tengdur helli sem liggur undir veginn. Þetta er því samanfallin hraunrás frá gígnum.

Tjarnargígur – Eldborgafarvegur (2 klst.) liggur frá bílastæði inn í Tjarnargíg og frá botni hans eftir hrauntröðum sem liggja utan um stórt gígasvæði og inn í annan tilkomumikinn gíg. Þaðan er gengið sömu leið til baka út úr gígnum, inn á veginn og að bílastæðinu. Þessi gönguleið er fjölbreytt og þar sjást helstu mosategundir, fléttur og háplöntur á svæðinu.
Gangan er létt.